sunnudagur, febrúar 08, 2004

In Transit

Thalamus
Borgarleikhúsið, litla svið sunnudaginn 8. febrúar 2004.

Leikstjórn: Gregory Thompson og Rex Doyle
Leikmynd: Kristína R. Berman
Lýsing: Halldór Örn Öskarsson
Tónlist og hljóðmynd: Halldór Ágúst Björnsson

Leikendur: Birna Hafstein/Maríanna Clara Lúthersdóttir, Erlendur Eiríksson, Maiken Bernth, Margrét Kaaber, Oliver Burns, Sean McGlynn og Sólveig Guðmundsdóttir/María Heba Þorkelsdóttir.


Hvunndagshetjur

VIÐTALSTÆKNI er algeng aðferð við smíði leikverka sem ekki styðjast við höfundarverk leikskálds þó hún hafi ekki verið mikið notuð hér frekar en aðrar “óhefðbundnar” leiðir í leiklistarsköpun. Nú hefur hinn fjölþjóðlegi Thalamus-hópur sett saman sýningu sem byggir á viðtölum við fólk með það fyrir augum að varpa ljósi á kynslóðamun, tíðarandabreytingar og ólíka lífsreynslu dreifbýlis- og borgarbúa, ef marka má pistil leikstjóra í leikskrá.

Þessi aðferð til efnisöflunar segir næsta lítið um það hvernig úrvinnslan verður, þar eru vitaskuld ótal leiðir að fara og áherslur að leggja. Í þessari sýningu virðist sem svör og frásagnir viðmælendanna séu uppistaðan í texta leikaranna, og lítil sem engin tilraun er gerð til að umskapa efnið á dramatískan hátt. Þannig eru samskipti persónanna í lágmarki, en frásögnum þeirra fléttað saman þannig að andstæður og hliðstæður í viðhorfum og lífsreynslu birtast.

Það sem vinnst við það að fá efnið svona “ómengað”er natúralísk nálægð við raunverulegt líf. Á hinn bóginn tapast sú spenna sem átök og samskipti leikpersóna skapar. In Transit líður nokkuð fyrir þetta átakaleysi, áhrifamáttur hennar er algerlega undir því komin hvort textinn, efnið sé áhugavert í sjálfu sér. Sem vitaskuld er nokkuð misjafnt. Í fyrri hlutanum sem fjallar um yngra fólk var gráthlægilegt mynd af ungum drykkkjusjúklingi og sambandi hans við pólska fiskverkakonu einna eftirminnilegast, svo og kostulega hamingjusamur norskur starfsmaður í rækjuvinnslu. Síðari hlutinn, sem fjallar um eldra fólk og þar er meira kjöt á beinunum, frá meiru að segja. Einnig virtist mér sem hinir ungu ættu auðveldar með að blómstra í þessum hlutverkum þar sem brúa þurfti fjarlægðina milli kynslóðar þeirra og persónanna með látbragði og leiktilþrifum. Þessi fjarlægð, þessi gríma, virtist gefa þeim sköpunarfrelsi sem jafnaldrar þeirra í fyrri hlutanum gerðu ekki.

Heilt yfir er sýningin samt einkennilega hófstillt. Það vantar í hana tilfinninguna fyrir að leikurunum liggi eitthvað á hjarta, sem er skrítið þar sem hún er þeirra sköpun frá upphafi til enda. Á tveimur stöðum eru stutt atriði í frásögn persónanna sviðsett og aðrir leikarar taka þátt í að sviðsetja atriðin með látbragði - nokkuð sem vel hefði mátt sjá sem gegnumgangandi aðferð, en nær hér alls ekki tilgangi sínum, bæði vegna þess að um uppbrot á ríkjandi raunsæisstíl er að ræða, og því að atriðin eru hvorki útfærð af nægilegu hugmyndaflugi né skilað af þeirri leikgleði sem þessi leið útheimtir.

Leikhópurinn er að því er best verður séð þríþjóðlegur, og eiga allir sín eftirminnilegu númer. Birna Hafstein var kostuleg í fyrirlestri sínum um þýðingarvillur í Agöthu Christie, Erlendur Eiríksson ógnvekjandi sem eiginmaður pólsku konunnar og Maiken Ulrike Bernth fór fallega með lokaatriði sýningarinnar. Margrét Kaaber var hæfilega óþolandi fyrrverandi söngstjarna Sean McGlynn bjó til sterkan karakter í fyrri hlutanum og Sólveig Guðmundsdóttir og Oliver Burns voru eftirminnileg eldri hjón í þeim síðari.

In transit er á leið í leikferð um Skandinavíu og Bretland, og er leikið á ensku. Fyrir Íslendinga er sá framandleiki sem fæst við að lýsa íslensku hverdagsfólki á ensku stór hluti af upplifuninni og uppspretta stórs hluta hlátursins á frumsýningu. Það verður forvitnilegt að frétta hvernig þessar sögur virka á leikhúsgesti annarsstaðar.