fimmtudagur, mars 11, 2004

Korter

Höfundaleikhús Dramasmiðjunnar
Iðnó, mars 2004

Höfundur: Kristín Elva Guðnadóttir, leikstjóri: Þórunn Sigþórsdóttir, útlit: Rebekka A. Ingimundardóttir, leikendur: Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Hjalti Rögnvaldsson og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir.

Ólifað líf

HÖFUNDASMÍÐI hefur lengi verið ein af ástríðum Hlínar Agnarsdóttur. Hún hefur stýrt höfundastarfi í báðum stóru leikhúsunum en er nú flutt í sitt eigið, hlúir að nýgræðingum í leikritaskrifum í Dramasmiðjunni, sem þær Margrét Ákadóttir starfrækja og bjóða upp á námskeið í flestum greinum leiklistar og aðra leiklistartengda þjónustu. Nú stendur Dramasmiðjan fyrir höfundaleikhúsi í Iðnó sem er vitaskuld frábært framtak og kærkomin viðbót við þær leiðir sem íslensk leikskáldaefni hafa til að þjálfa sig og koma verkum sínum á framfæri.

Korter eftir Kristínu Elfu Guðnadóttur er það fyrsta af fimm verkum sem verða sýnd í Iðnó fram á vor og eru afrakstur starfsins í Dramasmiðjunni. Það er einnig fyrsta verk höfundar í þessu formi og ber þess nokkur merki, bæði í jákvæðri og neikvæðri merkingu.

Í verkinu eiga áhorfendur stefnumót við miðaldra karlmann í tilvistarkreppu. Hann dreymir um hetjulegt líf, frægð, sitt "korter", en hefur ekki einu sinni staðið undir þeim lágmarkskröfum að bregðast ekki sínum nánustu. Drykkja og ofbeldi hröktu konuna frá honum, dóttirin sem býr hjá honum nýtur engrar ástar eða athygli. Á þeim þremur korterum (eða þar um bil) sem sýningin tekur veltir maðurinn sér upp úr lífskrísu sinni með hjálp annarrar leikpersónu sem trúlega er bæði hann sjálfur áður en lífið sneri hann niður og hans innri maður, krafturinn og lífsviljinn sem hann er ekki í snertingu við.

Kristín Elfa er eins og nýgræðingum er tamt ófeimin við að beita öllum brögðum til að koma efni sínu til skila. Framvindan er óbundin tíma og rúmi á skyldan hátt og Arthur Miller beitti í Sölumaður deyr, áreiðanlega ekki tilviljun, svo mjög sem aðalpersóna Korters er af ætt og kyni Willy Loman. Hér er líka beitt röddum af bandi til að tjá hugsanir, atlögu að skáldlegu líkingamáli í tali um aspir og rótarkerfi þeirra og ránfugla á músaveiðum. Og í dramatískum hápunkti verksins hikar Kristín ekki við að beita melódramatískum brellum til að láta persónu sína loksins horfast í augu við afleiðingar skeytingarleysis síns. Öllum þessum meðölum beitir höfundurinn af þónokkru öryggi, þó deila megi um hvort svo stutt leikrit græði á svo mörgum vopnum á lofti.

Verra er að þrátt fyrir hvað höfundinum liggi augljóslega mikið á hjarta og komi því á framfæri af öllum kröftum þá vantar að áhorfandinn fái tilfinningu fyrir aðalpersónunni. Þetta stafar sumpart af því hve meðvituð persónan er um lífskrísu sína og hve viljug hún er að ræða hana opinskátt og hispurslaust við sinn innri mann, verkið verður því engin opinberun fyrir manninn. Annað sem stendur Korteri fyrir þrifum er að vandamálin eru rædd á almennum nótum, en verða aldrei að sértæku persónulegu stríði mannsins við sjálfan sig. Efni Korters er ágætlega fært í leikbúning, en efnistökin eru hvað varðar innihaldið óleikræn. Án efa mun þessi fyrsta reynsla Kristínar Elfu af vinnu í leikhúsinu hjálpa henni í átt að lífrænni leikritun, því það er ekki fyrr en á sviðinu sem efnið lifnar við, eða ekki.

Sviðssetning Þórunnar Sigþórsdóttur er ágætlega af hendi leyst og meira í hana og útlit sýningarinnar lagt en strangt tekið er hægt að ætlast til af svona útgerð. Hjalti Rögnvaldsson og Guðmundur Ingi Þorvaldsson flytja texta Kristínar af myndugleik, en tekst ekki að gera hann að sértækri persónulegri tjáningu. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir komst í raun miklu nær því í smámyndum sínum af eiginkonu og dóttur, og hellti sér inn í tilfinninguna á fyrrnefndum melódramatískum hápunkti af miklu örlæti, sem vitaskuld er eina leiðin í þess háttar atriðum.

Kristínu Elvu Guðnadóttur er óskað til hamingju með frumburðinn og velfarnaðar í áframhaldandi glímu við form og innihald. Annmarkar eða ekki, Korter hefur ært upp í manni sultinn og forvitnina. Það er önnur frumsýning í höfundaleikhúsi Dramasmiðjunnar um næstu helgi.