laugardagur, mars 06, 2004

Þrjár Maríur

Strengjaleikhúsið, í samvinnu við Borgarleikhúsið
Litla svið Borgarleikhússins laugardaginn 6. mars 2004

Höfundur: Sigurbjörg Þrastardóttir
Leikstjóri: Catriona Macphie
Leikmynd og búningar: Messíana Tómasdóttir
Tónlist og leikhljóð: Kjartan Ólafsson
Lýsing: David Walters,
Kórsöngur: börn úr Skólakór Kársness
Leikari: Kristjana Skúladóttir
Rödd af bandi: Björn Hlynur Haraldsson.

María, María...

SIGURBJÖRG Þrastardóttir vakti fyrst athygli mína þegar ég sá sýninguna Uppistand um jafnréttismál hjá Leikfélagi Akureyrar, en þar skar þáttur hennar, Maður & kona: Egglos, sig úr fyrir frumlega notkun á meðulum leiksviðsins og var í raun sá eini þar sem bauð upp á annað og meira en skemmtilegan textaflutning. Í þessu nýja verki heldur hún áfram með leik að eintalsforminu og efnið er líka á svipuðum miðum: ástin á okkar tímum, barneignir og staða konunnar í þeirri kynjaveröld sem við búum í.

Hér er þó öllu meira efni dregið saman. Í verkinu er Maja Storm, ung leikkona, að búa sig undir að leika Maríu Stúart í samnefndum harmleik Schillers. Hin ógæfusama Skotadrottning sækir vitaskuld mjög á leikkonuna, en það gerir líka nafnmóðir hennar María Magdalena og svo díva aldarinnar, María Callas, en elskhugi Maju, leikstjórinn Will, er einmitt með kvikmynd um Callas á prjónunum. Maja hefur einangrað sig frá heiminum með hlutverkið en hún er samt langt í frá einsömul, hún ber barn þeirra Wills undir belti. Hann er hins vegar fjarri góðu gamni, er heima að sinna fársjúkri og mögulega dauðvona eiginkonu sinni meðan Maja veltir fyrir sér möguleikum sínum, hvort hún geti eða vilji eiga barnið, hvort og hvað hún segi Will, og skoðar sig og líf sitt í þeim speglasal sem Maríurnar þrjár og líf þeirra verður henni.

Verk með slíku efni setur leikhúsgestinn í ákveðnar stellingar sem kannski eru ekki sérlega hollar fyrir samband leikara og áhorfanda. Hér er verið að vinna með bókmenntalegar, trúarlegar og menningarsögulegar vísanir á hugmyndalegu plani sem getur auðveldlega sett vitsmunina í öndvegi, gert þeim að stýra upplifuninni. Þessi grundvallarhugmynd um Maríurnar þrjár hefur við sig snert af tilgerð sem sýningunni tekst ekki alveg að kveða niður. Og þótt saga, reynsla og söguleg og félagsleg umgjörð þeirra varpi að einhverju leyti ljósi á ungfrú Storm þá þvælist hún líka fyrir og þegar upp er staðið er það einkum aðalpersónan sem er óljós; hvernig hún hugsar, hvað hún vill, hvernig henni líður. Og einhver hugmyndaleg hreinlífisstefna hefur fengið Sigurbjörgu til að þurrka út allt sem gæti sagt okkur eitthvað um bakgrunn hennar. Við vitum ekki hvort hún er góð leikkona, hvort hún er vel eða illa stæð, við hvaða aðstæður hún er að fara að leika Maríu Stúart. Við vitum ekki einu sinni hvar í heiminum hún býr, eins og það skipti engu máli í þeirri ákvörðun hennar hvort hún vilji eignast barn eða eyða fóstri. Við vitum meira um hina ósnertanlegu dívu Maríu Callas, og jafnvel um hina ósýnilegu Maríu Magdalenu en þessa samtímakonu okkar sem allt snýst þó um. Afleiðingin er sú að okkur er sama um hana, hvaða ákvarðanir hún tekur og hvers vegna.

Góðu fréttirnar eru svo aftur þær að þótt Sigurbjörg velji að færa okkur efni sitt á þennan hátt þá er texti hennar firnagóður. Hún er mikið prýðisskáld og kann líka að byggja upp, skapa spennu og tryggja fjölbreytni sem ekki er alltaf einfalt í einleikjum af þessari stærðargráðu. Sigurlaug hefur aðdáunarvert vald á eintalsforminu. Sýningin heldur enda algerlega athygli, skemmtir og fræðir og getur örugglega líka kveikt ólíklegustu hugsanir. Þetta er sýning sem gaman er að tala um, full af hugmyndum og álitamálum.

Kristjana Skúladóttir vinnur sigur með flutningi sínum á verkinu, kemur því til skila með að því er virðist áreynslulausu öryggi. Allt stendur og fellur með henni. Best er hún í þeim atriðum þar sem hún bregður sér í gervi Maríanna þriggja og samferðamanna hennar, hvort sem það er nýupprisinn Kristur eða fimmtán ára franskur prins á brúðkaupsnóttina. Frásagnarmáti þessara atriða og skopið í þeim hentar Kristjönu greinilega vel. Það var göldrum líkast að sjá hana breytast í Maríu Callas, sem ég held að hún líkist ekkert sérstaklega. Hefði þó kosið að hún léti vera að búa sér til hreim til að flytja ráðleggingar sóprennunnar um börn sem hraðahindranir á framabrautinni. Leikstjórnarvinna Catrionu Macpie hefur greinilega stutt Kristjönu til að skila sinni bestu frammistöðu núna þegar hún glímir við sitt stærsta hlutverk til þessa.

Björn Hlynur Haraldsson er rödd Wills, en tölvuskeyti hans berast Maju með reglulegu millibili. Þau eru því miður alveg sérlega flatneskjuleg, sem hægt er að fyrirgefa, en óskýr framsögn lýtir þau líka, sem er ekki í lagi.

Umgjörð sýningarinnar er ákaflega vel heppnuð, stílhrein og tjáningarrík. Á það bæði við um útlitshönnun Messíönu Tómasdóttur með sínum fallegu formum og gegnsæju hlutum, magnaða lýsingu Davids Walters og áhrifaríka hljóðmynd Kjartans Ólafssonar. Hér hefur verið nostrað við hvert smáatriði og allt styður þetta skýrleikann og fágunina sem einkennir framgöngu leikkonunnar.

Sýning Strengjaleikhússins vinnur með því einkenni verksins að vera hreint, vitsmunalegt og hugmyndabundið. Útkoman er skýr sýning á verki sem vinnur sér sess í hugsuninni en nær því miður ekki til hjartans. Það skrítna er að það er eins og hún hafi ekki áhuga á því.