fimmtudagur, mars 04, 2004

Hattur og Fattur og Sigga sjoppuræningi

Möguleikhúsið
Möguleikhúsinu við Hlemm fimmtudaginn 4. mars 2004.

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Leikstjóri: Bjarni Ingvarsson
Búningar: Helga Rún Pálsdóttir
Leikmynd og leikmunir: Bjarni Ingvarsson og Helga Rún Pálsdóttir
Leikarar: Alda Arnardóttir, Pétur Eggerz og Valur Freyr Einarsson.

Hvað er best að borða?

Á STUTTUM og fáskrúðugum ferli mínum sem áhorfandi að barnasýningum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að börn koma ekki í leikhús til að hlæja. Samt eru nánast öll barnaleikrit útötuð í bröndurum: orðaleikjum, farsakenndri atburðarás og trúðskum uppátækjum af ölllu tagi. Alla jafnan sitja börnin bara og gapa, eða öskra og æpa þegar spennan verður illbærileg. Stundum gráta þau. En fullorðna fólkið hlær. Ég held reyndar að margir barnaleikritahöfundar séu búnir að átta sig á þessu og matreiða grínið fyrst og fremst með foreldrana í huga, skrifa þá til að hafa ofan af fyrir þeim eldri meðan börnin einbeita sér að því sem þau vita að skiptir mestu máli: sögunni.

Þessi tilfinning var mjög sterk á frumsýningunni á Hatti, Fatti og Siggu sjoppuræningja. Prýðilegir orðaleikirnir sem Ólafur hefur útbúið handa þeim félögum skemmtu foreldrunum meðan börnin fylgdust með framvindunni og lærðu um raunir þeirra sem ekkert éta nema sætindi. Ekkert í ólíkindalegum búskap hinna geimversku sígauna kom þeim þannig séð á óvart, allt er samþykkt um leið og það er borið fram. Þeir borða krókódílahala og engisprettur, hvað með það? Áfram með söguna! Það var helst þegar gosþamb Siggu sjoppuræningja fór að valda henni alvarlegum vindverkjum að ungviðið skellti upp úr. Hvaða lærdóm má draga af því? Jú: enginn stenst kúk- og pisshúmor, ekki einu sinni börnin.

Þetta leikrit um Hatt og Fatt er mun betra en en hitt sem ég hef séð og er að því ég best veit það eina annað sem Ólafur hefur skrifað fyrir svið um þessa ágætu menn. Þar var verkið lítið annað en afsökun fyrir því að syngja nokkur af þekktustu lögum félaganna. Hér er hins vegar bæði saga, ný lög og boðskapur. Þessir sjálfsþurftartrúðar fá nefnilega í heimsókn Siggu nokkra sjoppuræningja, sælgætisgrís á flótta undan réttvísinni. Löggan nær henni ekki, en fylgifiskar sætindaátsins grípa hana og Hattur og Fattur þurfa að leysa hana úr klóm þeirra, sem ekki er þrautalaust fyrir aumingja Siggu. Mórallinn: barnið lifir ekki á mæru einni saman. Ágætis boðskapur það þó honum sé kannski haldið á lofti af fullmiklu offorsi hér.

Pétur og Valur Freyr eru ágætlega sniðnir í hlutverk Hatts og Fatts. Pétur sem stór og valdsmannslegur Hattur, Valur sem hlægilega einfaldur Fattur. Alda Arnardóttir fær ekki eins traustan efnivið sem hin einæðingslega Sigga, gaf okkur líka kannski of snemma upp að hún væri fremur lítil í sér. Best var hún í lokagervinu þegar Sigga er búin að dulbúa sig sem tröll, en verður að játa sig sigraða af tannpínunni.

Umgjörð, gervi og leikmunir eru falleg og hugvitsamleg og bættu miklu við upplifunina.

Hattur og Fattur og Sigga sjoppuræningi er snotur lítil sýning sem gleður augað, heldur börnunum, innprentar þeim góða siði og hlægir foreldrana. Ágætis dagsverk hjá tveimur auðnuleysingjum og einum afbrotaunglingi.