SKÁLDIÐ OG SEKKJAPÍPULEIKARINN
Íslenska óperan Listahátíð í Reykjavík Seamus Heaney og Liam O’Flynn. Mánudagur 24. maí 2004.
Undursamlegt og raunverulegt
ÞEIM félögum, nóbelsskáldinu Seamus Heaney og olnbogapípuleikaranum Liam O’Flynn, urðu tengsl Íslands og Írlands að nokkru leiðarstefi í gegnum dagskrá sína og mótuðu þau bæði laga- og ljóðaval. Þessi tengsl eru sterk, návist Írlands og fólks af írskum uppruna er mikil í fornsögum okkar, og hliðstæð reynsla þjóðanna af náttúrunni og harðri lífsbaráttu styrkja böndin enn.
Á sama tíma er svo margt framandi og furðulegt við írska menningu og arf, fyrir utan hvað saga síðari tíma hefur tekið á sig ólíkar myndir í löndunum tveimur. Þótt tónlistin njóti hylli hér í útvötnuðum útgáfum býr það hlustandann ekki nema að litlu leyti undir að hlýða á stríðan hljóm olnbogapípunnar, hvort sem leikin eru angurvær og taktfrjáls sönglög eða spriklandi rælar sem beina áhrifum sínum fyrst og fremst að fótum manns. Og fornsaga Írlands, sagnir af Brendan sjófaranda og heilögum Kevin sem gerðist hreiðurstæði svartþrastar, Guði til dýrðar, eru fullar af dularfullu seiðmagni sem gerir þessa frændur okkar að sérlega spennandi kvöldgestum. Ekki spillir ef þeir eru jafn fróðir og frásagnarglaðir og þessir tveir reyndust.
Framsetningin var eins einföld og hægt var. Þeir skiptust á að flytja efni sitt, oftast með góðum inngangi sem útskýrði bakgrunn þess efnis sem flytja átti. Hr. O’Flynn gerði grein fyrir sínu sjaldséða hljóðfæri, sem virtist hið flóknasta þing. Jafnvel snúnara viðfangs en hinar algengari skosku hálandapípur sem eru engin barnaleikföng. En tónlistarmaðurinn hafði auðsjáanlega eins fullt vald á pípunum og hægt er, slík hljóðfæri leggja einatt sitthvað til málanna sjálf. Þegar hann lagði frá sér belginn og greip tinflautuna varð tónlistarnæmi hans enn ljósara okkur sem lítt erum dómbær á hvað telst vel gert á olnbogapípur. Fyrir utan hinn undurfallega saknaðarsöng Ameríkufarans sem leikinn var á flautuna er sérlega minnisstætt tónverkið um refaveiðarnar, þar sem túlkunarþanþol pípnanna virtist nýtt til hins ítrasta til að skila framvindunni.
Hr. Heaney las úr verkum sínum, bæði frumsamið efni og þýðingar, af fallegu en tjáningarríku látleysi. Enda ekki annað við hæfi, því hér er ekki verið að velta sér upp úr tilfinningum eða skrúðmælgi. Eins og öll góð ljóð þá öðlast þessi ekki fullt líf fyrr en þau eru flutt upphátt af einhverjum sem skilur þau til fulls, helst skáldinu sjálfu. Írskur hreimur er jafn ómissandi hluti af þessum orðheimi og hann er fyrir verk landa hans og félaga á nóbelsskáldabekk, Samuel Beckett. Oft er vísað til ljóðsins „Digging“ þegar reynt er að lýsa list skáldsins, bæði vegna yrkisefnisins og meðferðar þess, en önnur lína festist í minni mínu úr ljóði sem ég hafði ekki séð áður, en var lesið í Óperunni. Það er líka byggt á bernskuminningum, nánar tiltekið veðurspá fyrir sjófarendur sem var það síðasta á dagskrá írska útvarpsins á uppvaxtarárum hans.
Í lokin leyfir Heaney sér að gefa þessu útvarpsefni einkunn: „Marvellous and Actual“. Það sama má segja um verk hans, nákvæmnin í lýsingum hluta og verka, hin sterka sviðssetning skilar djúpri tilfinningu fyrir lífi og horfnum tíma. Ljóðið um heykvíslina, hið magnaða Mid-term Break sem segir frá dauða bróður skáldsins og ljóðin þrjú um móður hans og húsverkin eru þau sem syngja í höfðinu á mér. Sterk, nákvæm, tilfinningarík en ekki tilfinningasöm. Einbeita sér að raunveruleikanum af slíkri einurð að hann verður gegnsær og heimur tilfinninganna og andans kemur í ljós. Undursamlegt – og raunverulegt.
<< Home