föstudagur, maí 14, 2004

Don Kíkóti

Borgarleikhúsið
13. maí 2004

Bókvit og asnar



Sýning byggð á leikgerð Michaíls Búlgakovs á sögu Cervantesar, þýðing: Jón Hallur Stefánsson. Leikstjóri: Guðjón Pedersen, leikmynd: Grétar Reynisson, búningar: Stefanía Adolfsdóttir, lýsing: Lárus Björnsson, leikgervi: Sóley Björt Guðmundsdóttir, hljóð: Ólafur Thoroddsen.

Leikendur: Bergur Þór Ingólfsson, Björn Ingi Hilmarsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Guðmundur Ólafsson, Halldór Gylfason, Halldóra Geirharðsdóttir, Hanna María Karlsdóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Theodór Júlíusson.


TALSVERÐ eftirvænting hefur einkennt bið undirritaðs eftir frumsýningunni á Don Kíkóta. Bæði er nú það að frumsýningar hafa verið óvenju fáar á stóra sviði Borgarleikhússins, starfsemi Leikfélags Reykjavíkur í hálfgerðri spennitreyju sakir fjárskorts og hver uppfærsla þeim mun meiri viðburður. Þá hefur ráðstöfun titilhlutverksins ekki dregið úr spennunni, svo óvænt sem hún var. Síðasta vor skrifaði ég grein um Shakespearesýningar í Borgarleikhúsinu á vef Bandalags íslenskra leikfélaga, Leiklist.is, og hafði þar uppi stór en verðskulduð orð um frammistöðu Halldóru Geirharðsdóttur í Sumarævintýri, og lét fylgja nokkurs konar óskalista um hlutverk fyrir hana til að fylgja eftir sigrinum. Sum þeirra voru karlhlutverk, og nú er hún mætt í hlutverki karlfausks sem hefur gert hugsjónir karlmennskunnar í sinni hreinustu mynd að lögmáli lífs síns.

Saga Cervantesar af bókaorminum sem heldur að hann sé farandriddari er margræð og efnisrík, og í hverri leikgerð slíkrar sögu felst bæði túlkun og val. Aldrei er hægt að halda öllu til haga. Hvað á að sýna og hvernig?

Kannski er okkar nánasta samtíð ekki besti vettvangurinn til að skapa samúð með mönnum sem ganga á hólm við raunveruleikann með fastmótaðar ranghugmyndir og sannfæringu um að þeirra sé réttlætið að vopni. Kannski er of stutt í hugsunina um hvað hefði orðið um munkana og vindmylluna (og þá vesalings malarann) ef riddarinn sjónumhryggi hefði búið yfir eyðileggingarafli þess manns sem nú um stundir er hvað frægastur fyrir hvað heimsmynd hans er snertipunktalaus við heiminn. Kannski er það meðal annars þess vegna sem erfitt er að lifa sig inn í söguna í sýningu Leikfélags Reykjavíkur að þessu sinni. Samt er alveg ljóst að höfundar sýningarinnar eru einarðlega á bandi söguhetjunnar, taka hana á orðinu þegar hún lýsir yfir stríði gegn ranglæti. Þó hafa þeir vafalaust, eins og flestir, efasemdir um önnur stríð sem nýlega hefur verið lýst yfir gegn einberum hugtökum.

Önnur ástæða þess að sýningin hefur ekki sterkari áhrif en raun ber vitni er sú leið sem farin er, að gera alla þá sem á vegi þeirra Kíkóta og Sansjó Pansa verða eins afkáralega og kostur er. Kunnugleg stílbrögð leikstjórans, sem oft skila eftirtektarverðum áhrifum, vinna hér gegn inntaki verksins. Þetta á jafnt við um heimilisfólk og vini riddarans og fólk sem þeir hitta á ferðum sínum. Stundum tekst að skapa með þessu fyndni, en það verður óneitanlega á kostnað þess að skapa spennu milli raunveruleikans og hugsýnar riddarans. Ég er ekki að biðja um raunsæi, aðeins um innlifun og íróníulausa afstöðu leikaranna til persóna sinna. Eina skýra dæmið um slíkt er Dúlsínea Hönnu Maríu Karlsdóttur, sem þó er skopfærð mjög. Atriðið þar sem Kíkóti biður hana forláts á framkomu sinni við hana verður fyrir vikið eitt fallegasta atriði sýningarinnar. Það er líka eitt það fyndnasta, sem er ekki þverstæða eins og Cervantes hefði verið fullkunnugt um.

Gagnrýnilaus afstaða sýningarinnar til aðalpersónunnar gerir hana trúlega minna áhugaverða en ella hefði orðið. Engu að síður er það túlkun hennar sem er það eftirtektarverðasta við sýninguna. Halldóra Geirharðsdóttir leysir þetta verkefni með stökum glæsibrag. Það sem kemur dálítið á óvart er hvað kynferði hennar (eða persónunnar) skiptir gersamlega engu máli í upplifun áhorfandans. Afrek hennar er ekki hve vel henni tekst að leika karlmann, heldur hve sönn, áreynslulaus og falleg innlifun hennar í þessa tilteknu persónu er. Halldóra er algerlega trú Kíkóta, sýnir okkur hve kostulegur hann er í villu sinni, hve sterkur í sannfæringu sinni og hlýr í hugsjón sinni. Afstaða sýningarinnar takmarkar svigrúm Halldóru til að sýna fleiri fleti á persónunni, og leikgerðin gerir henni erfitt fyrir með að sýna þróun hennar. Fyrr en í lokin þegar riddarinn er loksins tilbúinn að draga lærdóma af ferð sinni. Lokaatriðið er sterkt eftir ansi hæggengan og gloppóttan síðari hlutann.

Bergur Þór Ingólfsson er líka magnaður Sansjó Pansa, þótt ólöguleg gerviístran þvældist fyrir honum (eða allavega mér). Bergur hefur marga sömu eiginleika og Halldóra. Fallega nærveru, innlifun og ótæmandi möguleika á að koma áhorfendum á óvart með smæstu athöfnum eða áherslum, sem alltaf eru samt sannar. Samleikur þeirra er það besta við sýninguna.

Aðrir leikarar hafa úr litlu að moða og skrípaleiðin takmarkar enn möguleika þeirra. Eddu Björgu Eyjólfsdóttur varð ekki mikið úr Antoníu systurdóttur riddarans og gerði dæmigerða glyðru úr þjónustustúlku á krá. Björn Ingi Hilmarsson tekur sig vel út í prestsgervi, en að gera kráareigandann að dæmigerðum sviðshomma er ekkert nema banalt. Guðmundur Ólafsson nær heldur ekki að draga rakarann upp úr klisjufeninu, og það sama má segja um ráðskonu Jóhönnu Vigdísar Arnardóttur og hertoga Theodórs Júlíussonar. Halldór Gylfason gerir hinn sprenglærða vonbiðil Samson að fallegum manni, en þarf að gæta að framsögninni í þessu erfiða rými.

Leikmynd Grétars Reynissonar ber höfundareinkenni hans og virkar vel í stemmningsríkri lýsingu Lárusar Björnssonar. Þó fannst mér staðsetning hins annars fallega vindmylluatriðis draga úr áhrifum þess. Búningar Stefaníu Adólfsdóttur á aðalpersónurnar eru flottir, en aðrir hafa á sér yfirbragð samtínings.

Sýning Leikfélags Reykjavíkur á Don Kíkóta er áhugaverð en ekki hrífandi, áferðarfalleg en ekki sterk, og afgerandi afstaða aðstandendanna rýrir áhrifamátt sögunnar. Framganga aðalleikaranna gerir hana þó að viðburði sem vel er þess virði að sjá.