fimmtudagur, júní 10, 2004

VARFÖR ÄR DET SÅ ONT OM Q?

Profil-leikhúsið frá Umeå Höfundur: Kristina Kalén og Maria Westin eftir sögu Hans Alfredson. Leikstjóri: Maria Westin, útlit: Ulla Karlsson, tónlist: Henrik Andrsson, leikendur: Sofia Westlund, Daniel Rudestedt, Jan Karlsson og Benedicte Stendal Hansen. 10. júní 2004.

Allt stafrófið er svo læst

SÆNSKA félagið á Íslandi sýnir lofsvert frumkvæði í því að flytja inn barnaleiksýningu fyrir sænskumælandi ungviði á Íslandi, og aðra svo sem líka, þó efni verksins sé að þessu sinni nátengt tungumálinu, nefnilega bókstöfunum og þeirri hættu sem þeim stafar af óprúttnum nafnlausum misindismönnum. 

Hans „Hasse“ Alfredson er gríðarlega afkastamikill og fjölhæfur listamaður, en sýningin er samkvæmt leikskrá byggð á bók eftir hann þar sem glæpadrottning hyggst þurrka út stafrófið og ná þannig allsherjarvaldi í heiminum, þó að ekki sé alls kostar ljóst hvernig eitt leiðir af öðru í því sambandi. Sem betur fer eru skynsöm stelpa og snjall uppfinningamaður með á nótunum og tekst að hindra misindismennina, um það fjallar sagan. 

Ekki er ljóst hvort það er hugmynd höfundar eða leikgerðarfólks að ramma söguna inn í einhvers konar vísindaskáldsöguheim, þar sem áhorfendur ganga inn í stórt tjald, „minnisvél“, þar sem sagan er sögð í endurliti. Allavega var þessi rammi dálítið fyrirferðarmikill miðað við mikilvægi og í raun allsendis óþarfur, þó að umgjörðin og leikmunir allir væru afar vandaðir og á köflum giska sniðugir – raunar það besta við sýninguna. Lýsingin í tjaldinu var á hinn bóginn alveg afleit og undir hælinn lagt hvort andlit leikaranna sáust, sem er miður þegar verið er að segja sögu. 

Og þó að mikið væri greinilega lagt í sýninguna verður því miður að segjast að hún náði ekki að heilla þennan áhorfanda. Til þess var efnið of langsótt án þess að vera sérlega sniðugt, og það sem verra var, leikhópurinn of daufur til að halda athygli og einbeitingu í gegnum sýninguna. Sýningin byggist á sterkri stílfærslu í hreyfingum og útliti sem mestanpart var örugg en þar fyrir utan vantaði innlifun, orku og fókus í ætlun og nærveru persónanna. Of oft komu viðbrögð of snemma, of oft var kæruleysi í tengslum hópsins við áhorfendur. Sérstaklega var glæpakvendið markað þessu, sem kom mjög niður á spennustigi sýningarinnar. Mest var gaman að stelpunni, en heilt yfir vantaði sárlega leikgleði, tilfinningu fyrir þörf fyrir að miðla þessari sögu. Það er stór krafa, en því miður alger lágmarkskrafa.