fimmtudagur, október 28, 2004

Íslenskar þjóðsögur og ævintýri

Gelmir ehf.
Október 2004

Umsjón og framleiðsla: Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason

Leikarar: Árni Tryggvason, Bryndís Petra Bragadóttir, Gunnar Hansson, Jakob Þór Einarsson, Linda Ásgeirsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Tjörvi Þórhallsson, Valdimar Lárusson, Þröstur Leó Gunnarsson, Örn Árnason, Hesturinn Víkingur, Hundurinn Vaskur, Ónefndur köttur.
Teikningar; Brian Pilkington
Söngur: Margrét Eir Hjartardóttir
Tónlist: Jónas Þórir.

Rótað í arfinum

EKKI er mér kunnugt um að áður hafi verið ráðist í verkefni af þessu tagi, að koma íslenskum þjóðsögum á framfæri við yngstu kynslóðina í formi myndbands. Ber því sérstaklega að hrósa framtakinu og hugmyndinni, því hér er arfur sem verður að standa í lifandi sambandi við æsku landsins og á áreiðanlega undir högg að sækja í alþjóðavæddu afþreyingarumhverfi nútímans.

Á myndbandinu eru tíu þjóðsögur sagðar og leiknar, auk þess sem Margrét Eir syngur tvö þjóðlög, vitaskuld lýtalaust og Árni Tryggvason gegnir hlutverki sögumanns. Árni hefur einhverja hlýjustu nærveru íslensks leikara, en ekki er ég sannfærður um að ungviðið skilji allt af því sem hann segir í sínu bundna máli milli sagna.

Sögurnar eru flestar sagðar á þann hátt að sögumaður les þær en leikarar bregða sér í hlutverkin og eru að mestu þögulir í þeim leik. Tvær þeirra eru sviðsettar með teikningum sem spretta undan galdrapenna Brians Pilkington og tekst sú leið ágætlega, þó ein framvinduvilla hafi slæðst inn í söguna af Grímseyingunum og bjarndýrinu og húnar bjarndýrsins sjáist í myndskeiði þar sem þeir eru víðs fjarri. Reyndar er það almennt nokkuð lýti á þessu lofsverða framtaki að ekki hefur verið lögð nóg alúð við ýmis smáatriði. Það er allt í lagi þó framleiðslan sé augljóslega ekki íburðarmikil en þeim mun mikilvægara er að vandvirkni einkenni það sem gert er.

Þannig er margt kátlegt við Bakkabræður eins og vonlegt er í meðförum Arnar Árnasonar, Sigurðar Sigurjónssonar og Þrastar Leós Gunnarssonar, en heldur virka uppátæki þeirra lausbeisluð og eru því ekki eins áhrifarík og ef leikstjóri hefði vélað um. Enginn slíkur er skrifaður fyrir verkefninu, en Sigurður og Örn sagðir umsjónarmenn þess, en hafa auðvitað um annað að hugsa í Bakkabræðrasögunum. Skemmtilegust Bakkabræðrasagna er sú fyrsta, þar sem þeir bera grjót á hest sinn, og hin óborganlega frásögn af tilraunum þeirra í heimilislýsingum. Hinar þrjár sem fluttar eru takast síður.

Best heppnaðar í safninu eru að mínu viti sagan af Gilitrutt og Átján barna faðir í álfheimum, enda er þar minna um lausbeislun í leik og sögurnar skýrar og sterkar í sjálfu sér. Þó er eins og Örn Árnason langi mest til að veita umskiptingnum samkeppni í afkáraskap í þeirri síðarnefndu, sem annars er fallega túlkuð af Bryndísi Petru Bragadóttur, Ragnheiði Steindórsdóttur og fleirum, og alkunnir grettuhæfileikar Þrastar fá réttilega að njóta sín í umskiptingnum. Gilitrutt er líka vel sögð og sviðsett og skýrt leikin af Lindu Ásgeirsdóttur, Jakob Þór Einarssyni og Bryndísi Petru.

Allt önnur leið og spennandi er farin að Búkollusögu. Þar erum við komin í nútímann og Gunnar Hansson segir söguna með hjálp hluta sem hann finnur á göngu sinni í fjörunni. Snjöll leið og endursögn Gunnars um margt ágæt þó mér leiðist að heyra jafn ágæta kynjakú og Búkollu vera undantekningarlaust kallaða "belju". Eins hefðu umsjónarmenn átt að vita að "móða" er fljót en ekki stöðuvatn, enda er svoleiðis pollur varla fyrirstaða fyrir tröllskessur þó heimskar séu. Myndatakan var líka óþarflega upptekin af Gunnari en sinnti minna skemmtilegri "sviðsetningunni" og tónlistin, sem í hinum sögunum var smekklega notuð, var hér á lyftutónlistarstiginu og rímaði illa við dramatískan eltingarleikinn.

En þrátt fyrir allar þessar aðfinnslur sem flestar eru smávægilegar má vel hafa gaman af efninu, og eins og áður sagði er framtakið þarft. Myndbandið Íslenskar þjóðsögur og ævintýri er öllum börnum hollt.