sunnudagur, júlí 25, 2004

Krádplíser

Hið Íslenska Listaleikhús
Tónlistarþróunarmiðstöðinni 25. júlí 2004.

Höfundur: Jón Atli Jónasson
Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson
Aðstoðarleikstjóri: Esther Talia Casey
Tónlist: Aðalsteinn Guðmundsson
Leikmynd: Ólafur Egill Egilsson
Búningar: Elma Backman
Lýsing: Stefán Hallur Stefánsson.

Leikendur: Birgitta Birgisdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Ólafur Steinn Ingunnarson, Dóra Jóhannsdóttir, Víðir Guðmundsson, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir, Aðalbjörg Þóra Árnadóttir og Herdís Þorvaldsdóttir.

Búðarleikur

ÞAÐ er langur vegur frá Líknaranum, sýningu Hins íslenska listaleikhúss í fyrra, í hina hálfbyggðu verslunar- og afþreyingarmiðstöð Krádplíser. Verkin eru vitaskuld af gjörólíkum toga, umfang og umgjörð eins ólík og hugsast getur. Það sem mest er um vert er þó að núna fá hinir ungu leikarar listaleikhússins verkefni sem henta þeim - í aldri, umfjöllunarefni og því frelsi sem augljóslega hefur ríkt í hópnum varðandi útfærslu efnisins. Öryggið sem hlýst af þessu skilar sér í leik alls hópsins og á stóran þátt í að sýningin er jafn skemmtileg og raun ber vitni.

Ramminn utan um sýninguna er skoðunarferð um verslunarmiðstöðina Krádplíser, sem verið er að opna þó enn sé verið að leggja lokahönd á húsnæðið. Þrír öryggisverðir leiða hópinn um salarkynnin og mæra þetta musteri neyslumenningarinnar. Vitaskuld er samt grunnt á dýrinu sem við erum undir aganum og menningunni, og eftir því sem sýningunni vindur fram missa öryggisverðirnir tökin á framvindunni, allskyns ógnir virðast búa í húsinu og þá ekki síður innra með persónunum.

Neyslumenning og skipulag lífshátta okkar - kannski ofskipulag - er viðfangsefni Krádplísers, að svo miklu leyti sem verður ráðið í verkið. Það er vísvitandi órætt, fullt af spurningum án svara og þráðum sem liggja út í bláinn og eru aldrei gerðir upp. Stíll þess og efnistök eru hreinræktað afsprengi leikhúss fáránleikans þar sem röklausir atburðir og ólíkindaleg orðaskipti eru sýnd og flutt eins blátt áfram og væri um hverdagslegasta raunsæi að ræða. Sum umfjöllunarefni Jóns Atla kallast meira að segja á við hugðarefni absúrdskálda eftirstríðsáranna, ekki síst Ionescos og Vians - hugmyndir öryggisvarðarins Sjonna um vélmennaherinn sem í framtíðinni mun annast öryggisgæsluna ganga eins og rauður þráður gegnum sýninguna og hefðu ekki verið utangátta í Nashyrningunum eða Smúrtsinum. Það segir síðan sitthvað um leikhúsið í heiminum og á Íslandi sérstaklega hvað þetta mjög svo gamaldags verk virkar nýstárlegt.

Að sumu leyti hangir það á umfjöllunarefninu - lífsháttum fólks á okkar tímum. Það stafar líka af sviðsetningunni, vinnunni með "fundið rými", skemmtilegt ferðalag okkar um ranghala Hólmaslóðarinnar inn í iður Krádplísers þaðan sem torkennileg öskur berast með reglulegu millibili. Nýjabrumið sem fæst af þessari sviðsetningarleið skiptir miklu í upplifun áhorfandans. Annað sem hjálpar sýningunni til áhrifa er kaldhæðnisleg og dálítið kæruleysisleg nálgun leikstjórans og leikhópsins. Það er eins og það sé á sama tíma verið að segja okkur merkilega og mikilvæga hluti um hlutskipti nútímamannsins af mikilli ákefð og djúpri alvöru, og jafnframt að gefa í skyn hversu fáfengilegt sé að tala um slíka hluti. Þetta skapar skemmtilegt tvísæi í sýninguna, og hlífir höfundum hennar við því að standa einarðlega við skoðun sína á viðfangsefninu. Enda eru allir orðnir leiðir á boðskap, er það ekki? Þó finnst mér óræðnin verða fullmikil í síðari hluta verksins, og Jón Atli detta í hættulegustu gryfju fáránleikaleikhússins, nefnilega þá að ef allar leiðir eru færar og jafngóðar þá er engin leið að velja vel. Síðasti hlutinn og sögulok verða því vonbrigði. En ferðalagið er lengst af spennandi og áhugavert, og staðfestir það sem fyrri kynni mín af verkum Jóns bentu til - verk hans kveikja neista í leikurum. Tvímælalaust hans dýrmætasti hæfileiki.

Leikhópurinn á enda góðan dag undir hugmyndaríkri leiðsögn Ólafs Egils Egilssonar sem er á góðri leið með að verða framúrskarandi leikstjóri. Öryggisvarðarþríeykið alveg stórskemmtilegt í meðförum Birgittu Birgisdóttur, Stefáns Halls Stefánssonar og Ólafs Steins Ingunnarsonar. Sérstaklega gaman var að sjá Birgittu sýna fínlega kómíska takta og algerlega sannfærandi skrípamynd af hinni óframfærnu Elmu. Önnur hlutverk eru smá og bjóða lítt upp á eftirminnileg tilþrif. Þó verður að hrósa Aðalbjörgu Þóru Árnadóttur sérstaklega fyrir hreint frábæra skopmynd af Nóatúnsstarfsstúlkunni Gerði, sem sagði okkur einhverja minnst draugalegu draugasögu sem um getur. Enda eru furðuverkin í Krádplíser öll manngerð.

Sýningin er full af spennandi smáatriðum og snjöllum lausnum sem krydda hana, allt frá inngöngu áhorfenda í rýmið, fyrstu innkomu Sjonna og blóðuga pappírssnifsinu á gólfinu á einu leiksvæðanna yfir í kostulega ljósasýningu þegar hin bjarta framtíð Krádplísers með markaðssókn á öðrum hnöttum er útlistuð.

Það er fyllsta ástæða til að fara og sjá Krádplíser. Þetta er óvenjuleg sýning á verki eftir forvitnilegan höfund - skemmtileg, dularfull og innihaldsrík, þótt hún haldi, þegar öllu er á botninn hvolft, innihaldslýsingunni leyndri.