þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Kominn til að sjá og sigra

Thalía, Leikfélag Menntaskólans við Sund
Loftkastalanum 15. febrúar 2005.

Byggt á kvikmyndinni Með allt á hreinu
Leikstjóri: Guðmundur Jónas Haraldsson
Danshöfundur. Unnur Birna Vilhjálmsdóttir
Tónlistarstjóri: Daníel Helgason.

VARLA má á milli sjá hvort það sé snjallræði eða glapræði fyrir mentnaskólaleikfélag að gera sviðsgerð af ástsælustu kvikmynd Íslandssögunnar. Húmorinn og tónlistin er vissulega ómótstæðileg, en hvernig á að koma töfrunum til skila á sviði? Samþykkjum við aðra leikara í hlutverkum Dúdda, Stinna, Hörpu og allra hinna?

Leið Thalíu og leikstjórans, Guðmundar Jónasar Haraldssonar, er skynsamleg, en þau laga hljómsveitirnar og að nokkru söguþráðinn að breyttum aðstæðum. Eiginlega hefði þurft að ganga enn lengra að mínu mati, þær senur sem voru hvað beinast teknar úr myndinni náðu varla að lifna á sviðinu meðan “nýja efnið” hitti iðulega beint í mark. Samtöl voru reyndar stundum dálítið ómarkviss og lopinn teygður um of, sýningin var um þrír tímar á frumsýningu sem er of langt. En húmorinn sem spratt út úr skemmtilega hugsuðum persónunum skilaði sér á köflum prýðilega. Sérstaklega á það við um strákahljómsveitina, drengirnir voru hver öðrum aulalegri sem er alltaf gott. Það hefði þurft að leggja aðeins meiri natni í að gefa stelpunum skýrari persónueinkenni. Nýja endirinn kunni ég ekki vel að meta, bæði snubbóttur og ekki nógu hnyttinn.

Það vekur sérstaka athygli að tónlistarflutningur er í höndum þátttakenda sjálfra, sem er næsta fátítt í stórsýningum framhaldsskólanna. Stór hluti undirleiksins er meira að segja framinn á sviðinu af strákahljómsveitinni og setur það skemmtilegan svip á sýninguna, gerir hana lífrænni en ella sem bætir upp það sem á vantar í fágun. Jafnframt hjálpar það enn upp á að toga sýninguna frá fyrirmyndinni. Það sama má líka segja um lagavalið, en auk (flestra) laganna úr myndinni eru flutt nokkur önnur lög, bæði úr smiðju Stuðmanna en einnig annarra, þar á meðal eitt samið af tveimur úr hópnum og var prýðilega áheyrilegt. Dansarar fóru fimlega með skemmtilega dansa Unnar Birnu Vilhjálmsdóttur.

Mikill fjöldi tekur þátt í sýningunni, og heildarsvipur leiksins er ágætur. Atli Kristófer Pétursson og Bára Dís Baldursdóttir eru Stinni Stuð og Harpa Sjöfn, bæði góðir söngvarar og fara líka vel með leikhlutverkin, sem reyndar eru bæði frekar fátæklega teiknuð af handritshöfundi. Öllu skýrari er hinn fornlegi Frímann sem Smári Gunnarsson gerði ágæt skil. Það sama má segja um Dagnýju Björk Kristinsdóttir sem er umboðskonan skelegga, Hekla. Starfsbróðir hennar, Dúddi er náttúrulega persóna sem allir elska, og sem betur fer gerði Ari Gunnar Þorsteinsson enga tilraun til að “taka Eggert Þorleifsson”, heldur bjó til sinn eigin aula og gerði það vel. Eins og fyrr segir átti strákahópurinn í hljómsveitinni góða spretti, enginn þó hlægilegri en hinn fámáli trymbill Hreins Hafþórs Gunnarssonar.

Kominn til að sjá og sigra er ágæt skemmtun, óþarflega langt og nær ekki alltaf að hrista af sér minninguna um fyrirmyndina. Engu að síður ágætlega heppnuð tilraun hjá Thalíu og Guðmundi.