miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Welcome to the Jungle

Nemendamót Verzlunarskóla Íslands
Loftkastalanum 2. febrúar 2005

Höfundur og leikstjóri: Agnar Jón Egilsson
Tónlistarstjórn: Jón Ólafsson
Tanshöfundar: Katrín Ingvadóttir og Ásdís Ingvadóttir
Lýsing og leikmynd: Sigurður Kaiser.

NÝR andi svífur yfir vötnum í Versló-stórsýningu vetrarins. Nýr leikstjóri og handritshöfundur er kallaður til leiks og tónlistarþemað sem lagt er til grundvallar er rokk í þyngri kantinum. Án þess að hafa gert mikla rannsókn á því hef ég á tilfinningunni að talsverð endurnýjun sé í hópnum, jafnvel meiri en undanfarin ár. Útkoman er sýning sem skortir talsvert á fágun, aga og fagmennsku undanfarinna ára en kemur í staðinn inn með meiri orku, taumleysi og ögrun en hingað til. Kemur ekki á óvart þegar horft er til efnisins og leikstjórans.

Agnar Jón skrifar handrit sýningarinnar auk þess að leikstýra og dettur niður á bráðsnjalla grunnhugmynd, vandræðagang hljómsveitar sem líkt og hin fornfræga Kiss felur sig á bak við andlitsfarða. Enginn má komast að því hverjir þeir félagar eru, en svo verður söngvarinn ástfanginn af gengilbeinu að norðan og allt verður vitlaust. Eins og hugmyndin er góður efniviður þykir mér Agnari ekki hafa tekist nógu vel upp í að nýta sér hann. Fléttan er ekki nógu þétt og mörg atriðanna of löng og ómarkviss. Persónurnar eru skýrar og skemmtilega ýktar og samskipti innan hópanna tveggja sem allt hverfist um, hljómsveitarinnar og bargellanna, eru vel útfærð og uppspretta fyndninnar í sýningunni. Losarabragurinn verður samt til þess að draga úr skemmtigildinu - eiginlega finnst mér eins og Agnar eigi eftir að skrifa gamanleikinn sem býr í efniviðnum.

Tónlistarvalið ber þess nokkur merki að þungarokk er lítt leikhúsvæn tónlist. Þó svo að AC/DC og Kiss séu nefndar í kynningu er megnið af tónlistinni sótt í smiðju mildari manna af "hár-metal" skólanum, einkum ballöður þeirra sem í ljós kemur að eru óttalegt söngleikjafóður. Söngtextar skildust illa eða ekki, en vel var sungið hjá Verslingum eins og venjulega. Einna skemmtilegast var númer hjúkrunarkvennanna, en hræddur er ég um að hinir karlrembulegu Judas Priest væru lítt hrifnir af samhenginu sem Breaking the Law var sett í þar. Gott á þá.

Að vanda er mikið lagt í sýninguna, mikill fjöldi leikara, söngvara og dansara koma við sögu. Sjálfsagt er það tónlistarstefnunni og leikstjóranum að þakka að núna tókst betur en oftast áður að samræma stíl leik- og söngatriða. Það er ekki hægt að vanda sig úr hófi við flutning á t.d. Welcome to the Jungle án þess að það missi allan safa og sá þáttur var með ágætum hér. Og eins og gjarnan einkennir leikstjórnarverkefni Agnars var hér leikið af meira kappi en forsjá, allt á útopnu allan tímann og kaosið ekki nema hæfilega skipulagt. Mikið gaman, og gerir öllum kleift að blómstra sem á annað borð hella sér í leikinn.

Lana Íris Guðmundsdóttir og Leifur Eiríksson fara með hlutverk söngvarans og bardömunnar, sem reyndar er rokkari líka. Þau gerðu þetta ágætlega, en í svona sýningu eru það skrítnu hliðarpersónurnar sem fanga athyglina. Að þessu sinni náðu engir lengra í þeim efnum en Eyjólfur Gíslason sem var dásamlega skrítinn og innlifaður sem rótarinn Ronní og þær Margrét Ýr og Ingunn sem tvær íðilheimskar ljóskur. Leikskráin gefur ekki upp föðurnöfn þeirra, en það vill loða við að íburðurinn í leikskrám verslinga beri innihaldið ofurliði.

Welcome to the jungle er ágæt skemmtun, og bætir upp með krafti og skemmtilegu smekkleysi það sem fórnað er af fágun og fagmennsku. Sem gömlum rokkhundi þykja mér það ekki slæm býtti.