Stræti
Pýramus og Þispa, leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík
15. febrúar 2005
Höfundur: Jim Cartwright
Þýðandi: Árni Ibsen
Leikstjóri: Margrét Sverrisdóttir.
STRÆTI Jims Cartwright hefur ýmsa kosti sem gera það að ákjósanlegu verkefni fyrir metnaðargjarnt framhaldsskólaleikfélag. Persónur hans eru dregnar einföldum dráttum, textinn er safaríkur án þess að vera upphafinn og formið er laust í reipunum þannig að auðvelt er að stytta og hagræða og laga verkið að aldri og þörfum hópsins. Margrét Sverrisdóttir hefur notfært sér þetta, og meira að segja skotið inn í sýninguna tveimur atriðum úr Bar Par til að allir þátttakendur fái eitthvað bitatætt að glíma við. Þetta er aðdáunarverð afstaða til hópsins og form verkanna gerir þetta mögulegt.
Nýsköpun er líka í forgrunni í leikrýminu, en hópurinn hefur lagt undir sig hráslagalegan iðnaðarsal og breytt í leikhús sérstaklega fyrir sýninguna. Leikmyndin er byggð á vinnupöllum sem teikna á einfaldan hátt húsin við götuna sem nafn verksins vísa til, og myndar mjög þénanlega umgjörð um allar þær litlu sögur sem sagðar eru af fólkinu sem verkið fjallar um, vonlausa, atvinnulausa lágstéttarbreta sem drepa óhamingju sinni á dreif eina kvöldstund með áfengi og skyndikynnum.
Það sem lukkast best í sýningunni er hve mörgum leikaranna hefur tekist með hjálp leikstjóra síns að gera efnið “að sínu”, þannig að iðulega var eins og hér væri á ferðinni verk um norðlenska ógæfuunglinga á djamminu en ekki norður-ensk fórnarlömb Thatcherismans. Engin tilraun var þó blessunarlega gerð til að staðfæra eitt né neitt, þessi áhrif stöfuðu einungis af áreinslulausri innlifun og afslöppuðum leikstíl sem lagður er til grundvallar. Þó bragðmikill texti Cartwrights bjóði sífellt heim hættu á óhemjuskap og leikrænni sjálfsfróun var hér greinilega hart taumhald á slíku. Jafnvel mætti segja að örlítið meira stjórnleysi hefði gefið sýningunni meiri lit og kraft án þess að það kæmi að sök. Þá var líka alveg ljóst að hinir ungu leikarar áttu mun auðveldara að koma skopinu í verkinu til skila heldur en þeim þáttum þess sem dramatískari eru, nokkuð sem meiri reynsla og leikrænt sjálfsöryggi á eftir að bæta úr hjá þeim sem munu halda áfram að leggja stund á leiklist.
Hópurinn er nokkuð jafngóður og því er það frekar hversu hlutverkin bjóða upp á mikil tilþrif sem ræður því hverjir sitja í minninu. Mikael Þorsteinsson er i fyrirferðamiklu hlutverki byttunnar Scullery og kemst vel frá því að halda sýningunni saman. Sigurlaug Dagsdóttir átti yndislegt atriði í hlutverki hinnar afgömlu Mollyar. Joey og Claire sem fara í mótmælasvelti til höfuðs vonsku heimsins voru fallega leikin af Mikael Þór Ásgeirssyni og Söndru Kristinsdóttur AÐ lokum verður að geta Sylvíu Smáradóttur sem gerði djammbolluna Dor verulega fyndna og aumkunarverða.
Stræti er að því ég best veit frumraun Margrétar sem leikstjóra, og kemst hún vel frá því. Það er því rétt að óska henni til hamingju með það, Pýramusi og Þispu með metnaðarfulla og skemmtilega sýningu og Húsvíkingum með efnilega unglinga og nýtt leikhús sem þeir ættu að heimsækja hið bráðasta.
Þorgeir Tryggvason
15. febrúar 2005
Höfundur: Jim Cartwright
Þýðandi: Árni Ibsen
Leikstjóri: Margrét Sverrisdóttir.
STRÆTI Jims Cartwright hefur ýmsa kosti sem gera það að ákjósanlegu verkefni fyrir metnaðargjarnt framhaldsskólaleikfélag. Persónur hans eru dregnar einföldum dráttum, textinn er safaríkur án þess að vera upphafinn og formið er laust í reipunum þannig að auðvelt er að stytta og hagræða og laga verkið að aldri og þörfum hópsins. Margrét Sverrisdóttir hefur notfært sér þetta, og meira að segja skotið inn í sýninguna tveimur atriðum úr Bar Par til að allir þátttakendur fái eitthvað bitatætt að glíma við. Þetta er aðdáunarverð afstaða til hópsins og form verkanna gerir þetta mögulegt.
Nýsköpun er líka í forgrunni í leikrýminu, en hópurinn hefur lagt undir sig hráslagalegan iðnaðarsal og breytt í leikhús sérstaklega fyrir sýninguna. Leikmyndin er byggð á vinnupöllum sem teikna á einfaldan hátt húsin við götuna sem nafn verksins vísa til, og myndar mjög þénanlega umgjörð um allar þær litlu sögur sem sagðar eru af fólkinu sem verkið fjallar um, vonlausa, atvinnulausa lágstéttarbreta sem drepa óhamingju sinni á dreif eina kvöldstund með áfengi og skyndikynnum.
Það sem lukkast best í sýningunni er hve mörgum leikaranna hefur tekist með hjálp leikstjóra síns að gera efnið “að sínu”, þannig að iðulega var eins og hér væri á ferðinni verk um norðlenska ógæfuunglinga á djamminu en ekki norður-ensk fórnarlömb Thatcherismans. Engin tilraun var þó blessunarlega gerð til að staðfæra eitt né neitt, þessi áhrif stöfuðu einungis af áreinslulausri innlifun og afslöppuðum leikstíl sem lagður er til grundvallar. Þó bragðmikill texti Cartwrights bjóði sífellt heim hættu á óhemjuskap og leikrænni sjálfsfróun var hér greinilega hart taumhald á slíku. Jafnvel mætti segja að örlítið meira stjórnleysi hefði gefið sýningunni meiri lit og kraft án þess að það kæmi að sök. Þá var líka alveg ljóst að hinir ungu leikarar áttu mun auðveldara að koma skopinu í verkinu til skila heldur en þeim þáttum þess sem dramatískari eru, nokkuð sem meiri reynsla og leikrænt sjálfsöryggi á eftir að bæta úr hjá þeim sem munu halda áfram að leggja stund á leiklist.
Hópurinn er nokkuð jafngóður og því er það frekar hversu hlutverkin bjóða upp á mikil tilþrif sem ræður því hverjir sitja í minninu. Mikael Þorsteinsson er i fyrirferðamiklu hlutverki byttunnar Scullery og kemst vel frá því að halda sýningunni saman. Sigurlaug Dagsdóttir átti yndislegt atriði í hlutverki hinnar afgömlu Mollyar. Joey og Claire sem fara í mótmælasvelti til höfuðs vonsku heimsins voru fallega leikin af Mikael Þór Ásgeirssyni og Söndru Kristinsdóttur AÐ lokum verður að geta Sylvíu Smáradóttur sem gerði djammbolluna Dor verulega fyndna og aumkunarverða.
Stræti er að því ég best veit frumraun Margrétar sem leikstjóra, og kemst hún vel frá því. Það er því rétt að óska henni til hamingju með það, Pýramusi og Þispu með metnaðarfulla og skemmtilega sýningu og Húsvíkingum með efnilega unglinga og nýtt leikhús sem þeir ættu að heimsækja hið bráðasta.
Þorgeir Tryggvason
<< Home