sunnudagur, febrúar 27, 2005

Sambýlingar

Leikfélag Húsavíkur
Samkomuhúsinu á Húsavík 27. febrúar 2005

Höfundur: Tom Griffin
Þýðandi og leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson.

Hlý, heiðarleg og fyndin

ÓALGENGT er að áhugaleikfélög frumflytji erlend leikverk á Íslandi. Leikfélag Húsavíkur hefur verið einna iðnast við þessa iðju og varð til að mynda fyrst til að kynna íslenskum leikhúsgestum bæði Gaukshreiðrið og Halta Billa þó þær frumsýningar hafi ekki farið jafnhátt og hinar sem fylgdu í kjölfarið í heldri húsum. Það er alltaf áhætta fyrir leikfélag að grípa efnivið sem lítt eða ekki er kynntur enda kjósa flestir að róa á öruggari mið. Húsvíkingar hafa iðulega hitt í mark með þessum sýningum sínum og víst má telja að svo verði einnig að þessu sinni.

Sambýlingar eftir Tom Griffin er raunsæisleg smámynd af fjórum einstaklingum sem ekki geta séð um sig sjálfir af mismunandi ástæðum og búa í vernduðu umhverfi sambýlis undir leiðsögn umsjónarmanns. Líf þeirra er hversdagslegt, enda eru hversdagslegustu hlutir gjarnan illleysanleg verkefni fyrir félagana. Fyrir vikið gerist ýmislegt í verkinu frá sjónarhóli þeirra þó fléttan sé af fátæklegasta tagi. Reyndar held ég að höfundurinn hefði getað leyft sér örlítið svipmeiri átök án þess að missa sig yfir í melódrama. Sú litla togstreita sem vistmennirnir lenda í við umheiminn og hver annan leysist allajafnan á óþarflega áreynslulausan hátt. En kostir verksins eru líka umtalsverðir: skýrt teiknaðar og nærfærnar myndir af aðalpersónunum þar sem raunsæi og skop vega spennandi salt. Verkið er frábær efniviður fyrir góða leikara til að fara á kostum. Leikfélag Húsavíkur teflir fram firnasterku liði í helstu hlutverkum og allir eiga góðan dag. Það sem gerir samt útslagið um áhrifin er að hópnum og Oddi Bjarna, leikstjóra sýningarinnar, hefur tekist að halda hárréttu jafnvægi milli skopgervingar persónanna og virðingar fyrir þeim. Samkvæmt leikskrá sóttu þau sér mikla hjálp frá sérfræðingum og aðstandendum þroskaheftra og skilar sú nálgun, að viðbættum hæfileikum og leikgleði, alveg óvenju sterkum heildarsvip. Og vegna þess hve jafnvægið er gott þá leika þau sér við að þeyta áhorfendunum um allan tilfinningaskalann, frá stjórnlausum hlátri yfir í nístandi þögn og aftur til baka. Fötlun persónanna er aldrei misnotuð til að vekja hlátur, heldur eru þær mótaðar af slíkri natni að það er jafnsjálfsagt að hlæja að þeim og hverjum öðrum persónum sem er lýst á sannferðugan hátt.

Sigurður Illugason dregur upp nákvæma og úthugsaða mynd af þráhyggjusjúklingnum Arnold. Þorkell Björnsson er frábærlega skýr sem Lucien, sem aftur er talsvert langt frá því að vera skýr, og Gunnar Jóhannsson heillar alla sem hin elskulega fitubolla Norman, ekki bara hana Sheilu, sem Guðný Þorgeirsdóttir léði yndislega heiðríkju. Hjálmar Bogi Hafliðason fer næmlega með krefjandi hlutverk geðklofans Barrys, hefur minni tök á að búa til skoptakta en félagarnir en kemst inn í kvikuna í átakamestu senu verksins þegar hann tekur á móti föður sínum sem Hörður Þór Benónýsson lýsti miskunnarlaust. Yfir félögunum vakir hinn dálítið lífsleiði Jack sem Kristján Halldórsson lýsti með fallegri næmi. Í smærri hlutverkum voru Sigurjón Ármannsson, Hilda Kristjánsdóttir, Katrín Ragnarsdóttir og Guðrún Kristín Jóhannsdóttir og stóðu sig öll með prýði.

Sviðsetning Sambýlinga hefur tekist verulega vel. Verkið gerist að mestu á heimili fjórmenninganna, en einnig bregður fyrir stuttum senum frá öðrum stöðum og einnig eiga persónurnar það til að rjúfa fjórða vegginn og ávarpa áhorfendur beint. Oddi Bjarna hefur tekist að láta þessa þætti flæða mjúklega, vel studdur af verulega snjallri leikmyndalausn Vigfúsar Sigurðssonar þar sem hliðaveggir við sviðsbrún taka á sig hinar ólíkustu myndir án þess að trufla raunsæið í meginhluta rýmisins. Sambýlingar sýnir Leikfélag Húsavíkur í sínu besta formi. Afburðagóður leikur, metnaðarfull umgjörð og vönduð leikstjórn skila sýningu sem snertir hjartað og tryllir hláturtaugarnar. Hlý, heiðarleg og fyndin.