fimmtudagur, mars 03, 2005

Kirsuberjagarðurinn

Halaleikhópurinn
Sýnt í Halanum, Hátúni 12. fimmtudaginn 3. mars 2005

Höfundur: Anton Tsékhov
Þýðandi Eyvindur Erlendsson
Leikstjóri: Guðjón Sigvaldason

Að rækta garðinn sinn

EFTIR því sem tíminn leið urðu leikrit Tsékhovs smágerðari, tíðindalausari, meðan áherslan jókst á að gefa djúpa og sannferðuga mynd af raunverulegum samskiptum eða samskiptaleysi og tilfinningunum sem bjuggu þar að baki en flestir reyna með góðum árangri að leyna. Þessi þróun nær hámarki í Kirsuberjagarðinum, þar sem ekkert gerist annað en heimur persónanna ferst án þess að þær megni að hreyfa legg eða lið.

Hingað til hefur það að ég held eingöngu verið fyrsta stórvirkið, Máfurinn, sem hefur ratað á fjalir hjá íslenskum áhugaleikfélögum, en þar gengur öllu meira á. Kannski ekki skrítið að það verk verði frekast fyrir valinu, því til að skila fullnægjandi mynd af lífinu í Kirsuberjagarðinum þarf að varpa ljósi á það sem er dulið, sýna það sem ekki sést og segja það sem persónurnar þegja um af hvað mestu kappi. Það er meira en að segja það að skila þessu og Halaleikhópnum heppnast ekki að komast alla leið að þessu marki. Á leiðinni opinberast samt sem áður að hópnum er ýmislegt til lista lagt.

Það er fágað yfirbragð á sýningunni. Lítið ber á kunnuglegum stílbrögðum leikstjórans, sem gjarnan hefur lagt upp með ærslafullan, glannalegan leikstíl sem síst hefði hentað verkefninu. Guðjón nálgast sem betur fer Kirsuberjagarðinn með nærfærni og hófstillingu og nær fyrir vikið skýrleika út úr leikhópnum, afstaða persónanna hvorrar til annarrar er alltaf ljós.

Fágunina er líka að finna í prýðilega hugsaðri leikmyndinni, þeirri snjöllustu sem ég hef séð í Halanum, og smekklega völdum búningum og leikmunum. Staðsetningar og umferð í rýminu áreynslulaus og lipur.

Leikhópurinn er stór, og allir hafa úr gulli að moða þó ekki séu öll hlutverkin lotulöng í handriti. Góður slatti hópsins eru þaulvanir leikarar, en aðra man ég ekki eftir að hafa séð áður. Samt sem áður er þetta sennilega jafnbest flutta sýning sem ég man eftir hjá hópnum. Þessa má vel njóta þó ekki takist að komast til botns í verkinu.

Sóley Björk Axelsdóttir fer með hófstilltri innlifun með hið mikla hlutverk Ranévsskaju óðalseiganda. Dætur hennar eru prýðilega teiknaðar af þeim Hönnu Margréti Kristleifsdóttur og Maríu Jónsdóttur. Árni Salomonsson nær kæruleysislegum skoptöktum út úr bróður hennar og Órn Sigurðsson er trúverðugur sem athafnaskáldið Lopahin. Þá fer Gunnar Gunnarsson á kostum í hlutverki Firs, líkamstjáning og innlifun eins og best verður á kosið.

Það er heilsteyptur vandvirknissvipur yfir Kirsuberjagarði Halaleikhópsins. Þau nálgast verkefni sitt af alvöru, leikgleði og einbeittum vilja til að gera eins vel og kostur er. Þessi afstaða skín út úr öllu sem fyrir augu og eyru ber og er þegar upp er staðið það dýrmætasta sem hægt er að bjóða áhorfandanum upp á. Halaleikhópurinn ræktar svo sannarlega garðinn sinn þessi árin.