miðvikudagur, júní 15, 2005

Hreindýr og Ísbjörn óskast

Hafnarfjarðarleikhúsið
Hafnarfjarðarleikhúsinu 15. júní 2005

Tveir einþáttungar eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur
Leikstjóri: Hilmar Jónsson
Leikendur: Elma Lísa Gunnarsdóttir, Erling Jóhannesson og Jón Páll Eyjólfsson.

Dýralíf

SIGURBJÖRG Þrastardóttir hefur áður spreytt sig á leiksviðsverkum þótt hér sé í fyrsta sinn að finna eiginlegan díalóg í verkum hennar. Eins og í þeim fyrri nýtur hún skáldlegs ímyndunarafls og hugmyndaauðgi sem gefur einarðri afstöðu hennar til viðfangsefna sinna margræðni og lífræna möguleika.
Hér er boðið upp á tvö verk sem tengjast óljósum böndum, reyndar kannski minna en virðist í fyrstu. Þannig virkar fyrra verkið, Hreindýr, eins og allsendis óræð stílæfing í leikhúsi fáránleikans, textinn fullur af sniðugum hugmyndum og óvæntum stefnubreytingum sem skoppar á yfirborði aðstæðnanna án þess að ljóst sé hvert á að stefna. Í upphafi sjáum við tvær skyttur með mundaða riffla bíða eftir bráð. Samtal þeirra leiðir fátt annað í ljós, ætlun þeirra og afstaða hvor til annars og umhverfisins er óskýr. Þátturinn nær því aldrei flugi þó skemmtileg tilsvör og órökvísar samtalsbeygjur séu alltaf skemmtileg sem slík, að ógleymdu því óbrigðula ráði til að vekja kátínu að láta leikara tala með fullan munninn. Úrvinnsla hópsins er snurðulaus, Erling og Jón Páll mynda prýðilegan dúett og Elma Lísa gerir enga feila í sínu óræða hlutverki.

Öllu meira var spunnið í síðari þáttinn, Ísbjörn óskast. Hér var unnið af húmor og alvöru með hugmyndina um hlutverk, þau gervi sem við tökum á okkur ýmist tilneydd eða til að ná árangri í fastmótuðu samfélagi þar sem viðtekin viðmið stýra sýn okkar. Ísbjörninn og píanóleikarinn eru bæði ófrjáls í þessum skilningi, hans er að vera það villidýr sem mennirnir sjá í honum, hún verður að stytta pilsin og láta gláp og káf yfir sig ganga til að þóknast markaðnum og koma list sinni á framfæri.

Hér er framvinda: Ókunnar og ólíkar persónur kynnast, finna samhljóm í hlutskipti sínu og ákveða að taka örlögin í eigin hendur. Leikslokin eru falleg.

Þegar Sigurbjörg hefur skýrara erindi og - ótrúlegt en satt - raunsæislegri kringumstæður eins og hér þá blómstrar skáldið í henni líka. Hún er ófeimin við aulahúmorinn (Ísbjörninn er að sjálfsögðu blúsaður) sem er frábært þó á stundum hætti henni til að "barna" brandarana sína. En Sigurbjörg er líka fær um að draga með einföldum aðferðum, einu tilsvari, upp skarpa mynd af sálarástandi og hlutskipti bjarnarins sem vitaskuld er því aðeins áhugavert af því hvernig það endurspeglar mannlega reynslu.

Óhjákvæmilega er það björninn og hans framandi reynsluheimur sem vekur áhuga okkar, umfram hina öllu hversdagslegri manneskju sem deilir með honum viðfangsstöðunni. Enda er það Jón Páll sem fer á kostum hér, framandi og óvænt viðbrögð, líkamsmál, hrynjandi og afstaða verður ákaflega eðlileg hjá honum. Dýrið verður mannlegt og maðurinn dýrslegur. Elma Lísa fer vel með mótleikarahlutverkið og dansar af sannfæringu eigin dansa í þögulum milliatriðum þar sem Erling birtist og björninn og stúlkan ummyndast í það sem hann sér í þeim: Hold til að klípa og dýr til að skoða. Vel má láta þessi atriði fara í taugarnar á sér fyrir að troða í mann sjálfsögðum hlutum á augljósan hátt, en kringumstæðurnar eru svo skemmtilegar og óvenjulegar að það þýðir ekkert að æsa sig yfir því. Helst að mér finnist hugmyndin eiga talsvert inni, vera efni í stærra verk.

Vinna Hilmars er hnökralaus og hljóðmynd Jóns Páls til prýði. Sýningin í heild sinni er ágætis skemmtun með alvöru undirtóni og Sigurbjörg hefur skemmtilega og sérstæða höfundarrödd sem nú hefur sannast að virkar líka í tveggja dýra tali.