laugardagur, apríl 30, 2005

Allra kvikinda líki

Leikfélag Kópavogs
Hjáleigunni, Félagsheimili Kópavogs 30. apríl 2005

Leikstjórn: Guðjón Þorsteinn Pálmason og Hrund Ólafsdóttir.

Ævintýri Jóa og Júdasar

ÞÓ svo fæstir af leikhóp Leikfélags Kópavogs að þessu sinni hafi starfað áður með félaginu var merkilegt að sjá hvað mikið af einkennum og kostum sýninga félagsins voru til staðar í sýningunni Allra kvikinda líki. Nákvæmni, skýrleiki, listræna, hugmyndaauðgi og kraftur einkenna hana og útkoman er hin besta skemmtun.

Sýningin er unnin í hópvinnu af leikstjórunum tveimur og leikhópnum upp úr bresku teiknimyndablaði, VIZ. Hér eru sagðar nokkrar sögur af Jóa litla sem býr ásamt hundinum Júdasi í þorpinu Tuðnesi hjá Möggu frænku sinni. Jói er athugull snáði og fljótur að bregðast við ef þarf að taka á samfélagsmeinum í þessu smáskrítna þorpi, hvort sem það er að grafast fyrir um uppruna dularfulls blómkálshauss, afhjúpa útsmogið eggjahlaupssvindl, eða þá að koma Möggu frænku til hjálpar þegar kynfræðslan í skólanum kippir fótunum undan fóstureyðingarbissnessnum. Húmorinn er svartur mjög á skemmtilega blátt áfram hátt að breskum sið og Kópavogsmenn halda vel utan um hann og skila firnavel.

Sögurnar sem þau hafa valið henta nokkuð misvel fyrir sviðsgerð, og svo vill til að fyrstu sögurnar tvær eru erfiðari en þær sem á eftir koma og fyrir vikið er sýningin smástund í gang. Einnig er í fyrri hluta sýningarinnar fulloft gripið til þess ráðs að "brjóta rammann", sýna leikarana sjálfa lenda í vandræðum með hlutverkin sín, hoppa út úr þeim og byrja aftur. Viðkvæm brella sem ekki má ofnota. En þegar sýningin kemst á fullt flug er hún frábærlega vel útfærð og alveg myljandi fyndin. Kemur þar bæði til efnið og það vald sem leikhópurinn hefur á aðferðinni, frásagnar- og hópvinnuleikhús sem Ágústa Skúladóttir hefur átt stærstan þátt í að innleiða í íslenskt leikhús undanfarin ár með Leikfélag Kópavogs sem nokkurs konar móðurstöð.

Leikhópurinn vinnur vel saman og skilar hinum smáskrítnu íbúum Tuðness með miklum sóma. Sigsteinn Sigurbergsson er hárréttur maður í að leika Jóa litla, hefur skemmtilega andlitstjáningu og breiðir sakleysislegt yfirbragð yfir köflótt innræti drengsins. Þá mæðir mikið á Andreu Ösp Karlsdóttur sem er bæði Magga frænka og hundurinn Júdas og skilar báðum með krafti.

Af öðrum í hópnum verður sérstaklega að geta töframannsins Bjarna, sem með frábærri líkamstjáningu, útgeislun og húmor gerir allt hlægilegt sem hann kemur nálægt.

Þá er mikil prýði af hljóðmynd þeirra bræðra Baldurs og Snæbjarnar Ragnarssona. Hún skapar hárrétta stemningu þegar á þarf að halda og svo eru sönglögin hreint afbragð og textar Snæbjörns frábærlega gerðir og drepfyndnir.

Þessi litla sýning í Kópavoginum er útfærð af listrænu öryggi sem í ljósi þess hve hópurinn er sundurleitur er meiri háttar afrek og lofar góðu um framtíð félagsins. Mestu skiptir þó fyrir áhorfandann að hún er með því skemmtilegra á fjölunum á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana.