sunnudagur, apríl 24, 2005

Bannað að sofa hjá Maríu Mey

Agon, leikfélag Borgarholtsskóla
Iðnó 24. apríl 2005

Höfundar: Hrafnkell Stefánsson og Nói Kristinsson
Leikstjóri: Guðný María Jónsdóttir.

Af óbærilegum kostum skírlífis

AF ýmsum ástæðum dróst úr hömlu að gagnrýnandi kæmist á þessa sýningu Agons, en þar sem hún fjallar einmitt um reddingu á síðustu stundu þá reynir leiklistarrýnir að gera sitt besta þrátt fyrir það.

Borgarholtsskóli er ungur skóli og leiklistarlíf þar á byrjunarreit. Í fyrra var sleginn kraftmikill tónn með Íslandsfrumsýningu á unglingaleikriti eftir einn nafntogaðasta leikritahöfund samtímans, Mark Ravenhill. Og nýsköpunin heldur áfram, núna er boðið upp á nýtt leikrit eftir tvo pilta úr hópnum. Óhætt er að segja að sú frumraun hafi heppnast vonum framar.

Verkið segir frá honum Davíð sem deyr og fer til himna eins og lög gera ráð fyrir en er umsvifalaust snúið aftur til jarðarinnar ásamt Mikael erkiengli til að fyrirbyggja heimssögulegt stórslys. Búið er að velja Maríu fyrir næsta flekklausa getnað og tilheyrandi endurkomu Krists en nú hefur frést af áformum hennar og kærastans sem munu af tæknilegum ástæðum gera meyfæðingu óhugsandi.

Nú eru góð ráð dýr. Hvernig á að fá nútímastúlku eins og hana Maríu ofan af því að byrja að stunda kynlíf með kærastanum þegar hana lystir. Mikael stingur upp á að útmála fyrir henni kosti skírlífis en hinn veraldarvanari Davíð er ekki trúaður á að svoleiðis virki á Íslandi í dag. Raunar er það eina sem ég hef við verk höfundanna að athuga er að þeir neita okkur um senuna þar sem Davíð gerir tilraun til að prédika amerískan skírlífisboðskap yfir Maríu. Þess í stað leiðist atburðarásin yfir á öllu dramatískari brautir.

Verkið er hin prýðilegasta smíð. Ekki þarf að koma á óvart að tveir pennaglaðir spaugarar í menntaskóla geti skrifað brandara og jafnvel komið þeim til skila í sketsaformi. Hitt er verulega athyglisvert hvað þeir hafa mikið vald á formi og uppbyggingu. Verkið er spennandi, sífellt að skipta um stefnu og heldur áhorfandanum stöðugt áhugasömum. Svo er það fullt af snjöllum smáatriðum um lífið á himnum og hér niðri líka sem krydda söguna. Ef marka má leikskrána hafa þeir Hrafnkell og Nói ýmislegt á prjónunum og ég mun a.m.k. fylgjast grannt með því sem frá þeim kemur í framtíðinni.

Uppfærsla Guðnýjar Maríu einkennist af einfaldleika. Leikmynd er mjög af skornum skammti, búningar sömuleiðis mínímalískir og ekkert ber á tilhneygingu til að búa til “sjó”. Það er aðdáunarvert og sýningin skilar verkinu ágætlega. Hinsvegar hefur Guðnýju ekki tekist nægilega vel að laða fram kraftmiklar og sannfærandi sviðspersónur úr óvönum leikurum sínum. Að þessu leyti eiga strákarnir sínu lengra í land en stúlkurnar, þó þeir hafi bitastæðari hlutverkin. En þegar leikhópurinn er lítt vanur og hefðin í skólanum stutt þarf að finna upp hjólið áður en lagt er út í að sýna listir. Og þrátt fyrir þetta er sýningin hin besta skemmtun, og stærstan heiðurinn eiga tvímenningarnir á bak við handritið. Framtíðin er Agons og þeirra.