mánudagur, júlí 18, 2005

Ronja Ræningjadóttir

Leikfélagið Hallvarður Súgandi
Suðureyri 7. júlí 2005

Höfundur: Astrid Lindgren - leikgerð Annina Paasonen og Bente Kongsböl
Þýðendur: Þorleifur Hauksson/Böðvar Guðmundss.
Leikstjóri: Elvar Logi Hannesson

Vík milli vina


RONJA Ræningjadóttir er saga með marga kosti sem heilla leikgerðarfólk. Sá stærsti er vitaskuld að hún er eftir Astrid Lindgren, og því þarf ekki að hafa mikið fyrir því að sannfæra fólk um að sagan sé þess virði að sjá. En svo er hún líka viðburðarík, full af skrautlegum karakterum og snýst um vináttu og ást, sársauka og persónuþroska. Þrjár meginpersónur sögunnar þurfa öll að læra nýja hluti um stöðu sína í heiminum og gagnvart öðru fólki sem bæði getur þýtt að sleppa takinu og axla ábyrgð.

Margt hefur verið ritað um vandann við að skrifa góða leikgerð og ekki pláss til að reifa þau mál hér. Hinsvegar verður að láta þess getið að leikgerðin sem Halllvarður Súgandi notar er ákaflega metnaðarlaust verk sem er brennt öllum helstu mörkum leikgerða sem ná ekki að þýða fyrirliggjandi sögu yfir á mál leikhússins þannig að efnið lifni í nýju formi. Fyrir vikið verður sýningin bæði of löng og síðari hluti hennar alltof teygður og niðurlagið langdregið. Róttæk stytting hefði hjálpað, sérstaklega þar sem meirihluti leikenda í sýningunni eru börn og unglingar sem valda því varla að halda uppi spennu á sviðinu heilt kvöld, sem vonlegt er.

Innan þeirra takmarkana sem þessir annmarkar setja verkefninu er margt að gleðjast yfir í sýningu Hallvarðs Súganda, og vitaskuld vegur þar þyngst það afrek að koma sýningu af þessari stærðargráðu yfirhöfuð á laggirnar í þessu litla samfélagi. Enda var stoltið og gleðin tjáð af krafti af fullum salnum á frumsýningunni.

Þó flestir leikaranna séu sýnilega lítt reyndir hvað þá komnir til ára sinna þá voru eldri og reyndari leikendur í mikilvægum hlutverkum. Sennilega er enginn íslenskur áhugaleikari jafn vel til þess fallinn að skila flumbraranum og tilfinningabúntinu barnslega, Matthíasi ræningjaforingja, og Þröstur Ólafsson. Strangari leikstjórn hefði sennilega yddað framgöngu hans betur, og á það reyndar við um alla vinnu Elvars Loga að þessu sinni, en engu að síður var þetta skýrt teiknuð mynd af Matthíasi hjá Þresti. Þá var Hallgrímur Hróðmarsson afbragð í hlutverki Skalla-Péturs.

Þau Ástrós Þóra Valsdóttir og Burkni Dagur Burknason voru hárrétt í hlutverkum Ronju og Birkis, hún ákveðin og örugg, hann íbygginn og hlédrægur. Samleikur þeirra var prýðilegur, svo og mótleikur við aðra leikara.

Umgjörð öll bar metnaði aðstandenda vitni, Meira nostur við hópatriði hefði einnig beint ótvíræðum kraftinum betur í réttan farveg, og eins hefðu hópsöngvar þurft að beinast til áhorfenda frekar en að ræningjarnir væru að syngja hver fyrir annan.

Ronja ræningjadóttir er góð og holl saga sem skilaði sér í gegnum illa skrifað leikhandrit af ástríðu þátttakenda í sýningunni. Starfsemi Hallvarðs Súganda er þakkarvert framtak sem á vonandi eftir að gleðja bæjarbúa og gesti þeirra um ókomin ár.