þriðjudagur, september 13, 2005

Að eilífu

Rossisky Akademicesky Molodezhny Teater
Þjóðleikhúsinu 10. september 2005.





Höfundur: Árni Ibsen
Þýðandi: Júríj Reshetov
Leikstjóri: Raivo Trass
Leikmynd: Valeríj Fomin, söngtextar: Natalja Fílímonova, búningar: V.Q., tónlist: Feliks Kútt, ballettmeistari: Tad Kask, lýsing: Andrej Ízotov, hljóð: Ígor Merkúlov, söngstjóri: Maxím Olejnikov.

Leikendur: Alexander Khotsjenkov, Alexander Pakhomov, Alexej Maslov, Alexej Vesjolkin, Darja Semjonova, Denís Balandín, Hlutverkaskipan:, Jelena Galíbína, Natalja Tsjernjavskaja, Nína Akímova, Nína Dvorjetskaja, Oksana Sankova, Oleg Mosalev, Oleg Skljarov, Ramílja Ískander, Sergej Pikalov, Úlíana Úrvantseva, Vera Zotova og Vjatsjeslav Manútsjarov.

Brúðkaupsþátturinn Da



SNARPT og hraðsoðið léttmeti, skrifað í nánu samráði við tiltekinn leikhóp með tilteknar þarfir og byggður á ákveðnu mennningarástandi á tilteknum stað og tíma.
Að eilífu er skondið verk, opið og hrátt og gefur hugmyndaríkum leikstjóra og kraftmiklum leikhóp mikla möguleika á að búa til sýningu sem er fjörug og innihaldsrík í senn.

En hvernig skyldi svona verki reiða af í meðförum rússnesks leikhússfólks sem starfar undir kjörorðunum listræn einlægni og nálægð? Hvað sér hópur sem býr og starfar við allt aðrar aðstæður í kraftmiklu og tætingslegu skemmtiverki Árna Ibsen um íslenska brúðkaupssiði og ást á tímum síneyslunnar?

Því miður svarar sýning Hins rússneska þjóðleikhúss unga fólksins ekki síðari spurningunni, og fyrir vikið er svarið við þeirri fyrri sú að hópnum tekst ekki að matreiða þennan tiltekna efnivið á þann hátt sem hann þarfnast.

Stærsti hluti vandans er að sýninguna skortir skýra vísun í stað og stund. Verkið sækir stóran hluta af skemmtigildi sínu í skýrar tengingar við persónur og týpur í okkar heimi. Popppresturinn. Hressi þolfimikennarinn. Kvótakóngurinn. Þessi atriði eru ekki skemmtilegt krydd heldur miðlæg í því að verkið virki. Auðvitað er engin leið fyrir leikhús í Moskvu að geta sér til um fyrirmyndir og menningarástand á íslandi, en þá er annaðhvort að tengja efniviðinn við eigin aðstæður eða finna sér verk sem ekki er jafn háð jarðvegi sínum.

Þó ég geti eðli málsins samkvæmt ekki verið alveg viss um það þá virtist mér sýningin ekki vera staðfærð á nokkurn hátt. Klárlega ekki í textavísunum eða nöfnum. Fyrir vikið svífur hún í lausu lofti og innihaldið, sem er svo fullt af möguleikum, virkar rýrt.

Einstaka leikarar og atriði hefja sig yfir þessa vankanta. Þannig voru fyrstu kynni foreldra brúðhjónanna nokkuð skondin, og vinahópurinn var sannfærandi og persónurnar vel aðgreindar þó lítið fari fyrir hverri og einni. Skarexin Ella Budda var viðeigandi fyrirferðarmikil hjá Jelenu Galíbínu.

Heilt yfir skortir sýninguna samt snerpu, kraft og kómíska sköpunargleði. Leikmyndin þvælist líka fyrir, að sönnu viðamikil og útlitslega ágæt, en gerir ekkert til að leysa sviðsetningarvanda verksins á frjóan hátt, þar sem hver örsenan rekur aðra.

Heimsókn Hins rússneska þjóðleikhúss unga fólksins hefur verið afar forvitnileg. Þau hafa sýnt okkur hverju hefðbundin nálgun við klassísk verk getur skilað í hinni mögnuðu uppfærslu sinni á Kirsuberjagarðinum. Og þau hafa gefið okkur einstakt tækifæri til að sjá hvernig íslensku efni reiðir af á framandi slóðum. Þó svo útkoman hafi ekki lukkast sem skyldi þá eru ástæður þess forvitnilegar. Þetta var afar kærkomin heimsókn og við þökkum kærlega fyrir okkur.