fimmtudagur, október 13, 2005

Epic Celtic

Norræna húsið 10. október 2005.

Unnið upp úr, “The Mabinogi” af Nigel Watson sem einnig flytur.

Sagan er góð


LANDAMÆRIN milli leiklistar og sagnamennsku eru bæði breið og umdeild og það er úr því einskismannslandi sem rödd Nigel Watson berst okkur. Nigel hefur fjölþættan bakgrunn í leikhúsi og greinilegt að reynsla hans sem hreyfihönnuður, leikstjóri og fræðimaður nýtist öll í að magna þann seið sem hann reiðir fram. Grunntónninn er samt úr heimi sagnanna og þaðan kemur stærsti hluti áhrifanna.

Nigel hefur að því er ráða má af leikskránni lagt sig nokkuð eftir því að vinna efni úr sagnaarfi heimalands síns, Wales. Efni þesarar sýningar kemur úr Mabinogi – Æskusögnum – helsta sögusafni þjóðarinnar, en úr því hefur Nigel unnið á ýmsan hátt og flutt efnið víða um heim.

Lítill leikdómur er svosem ekki vettvangur til að kryfja muninn á listum leikarans og sagnaþularins. Fyrsta hugsunin sem kviknar eftir að hafa setið bergnuminn í skellibjörtum sal norræna hússins og starað með eyrun sperrt á svartklæddan kall í brúnum skóm í á annan klukkutíma er undrun yfir því að jafn beinskeytt og látlaus framsetning haldi óskiptri athygli manns. Því er nefnilega haldið fram að á okkar tímum sé orðið gengisfallið eins og þýskt millistríðsmark. Við lifum víst á öld myndanna, tíma leiftursóknar á skilningarvitin, öld óþolinmæðinnar. Hversvegna er þá hægt að fanga huga manns svona gersamlega með því að segja manni ævintýri án nokkurra myndrænna hjálpartækja?

Kannski er hluti af svarinu fólgin í afstöðu sögumannsinns sjálfs. Enn frekar en leikhúsmaðurinn er hann þjónn efnisins. Hann efast aldrei um að það sem hann hefur að segja er í frásögur færandi. Og hann veit að allir ljósaeffektar og skrautbúningar, allt gerfiblóð heimsins nægir ekki ef sagan er ekki góð. Það er skammgóður vermir að pissa í effektaskóinn. Áhorfendur láta ekki plata sig tvisvar.

Nigel Watson platar okkur ekki. Hann segir okkur sögur. Mergjaðar sögur sem aldirnar hafa slípað. Kynslóðirnar, stærsti rýnihópur veraldar, hafa fullvissað sögumanninn um að efniviðurinn stendur fyrir sínu. Þá er bara að láta hann gagntaka sig og miðla honum þannig áfram. Það tókst Nigel fyllilega. Vissulega beitti hann á köflum meðulum leikhússins, brá sér í ólík hlutverk, teiknaði kringumstæðurnar í rýmið. Og tækni hans er eftirtektarverð, hvort sem hlustað er á magnaða röddina eða horft eftir öguðu líkamsmálinu. Samt held ég að hann hefði getað gert helmingi minna og náð sömu áhrifum. Eins fundust mér innskot á íslensku litlu bæta við. Við vildum einfaldlega vita hvernig færi eiginlega fyrir hinum leðurreifaða Taliesin, þeim ógæfusama en handlagna Lleu, eða hvort konungurinn Math fengi þann draum sinn uppfylltan að fá svín í stíu sína, og hvaða dilk sú græðgi drægi á eftir sér. Samt vissum við sjálfsagt fæst þegar við settumst að þetta fólk hafi nokkrusinni verið til. Núna vitum við það.

Það voru sorglega fáir sem urðu vitni að galdri Nigel Watson. Hann leyfði okkkur heldur ekki að kalla sig aftur á svið með lófatakinu. Það er því ekki um annað að ræða en að koma síðbúnum þökkum á framfæri:

Diolch Yn Fawr!