föstudagur, nóvember 25, 2005

Trainspotting

Leikfélag Keflavíkur
Frumleikhúsinu í Keflavík 25. nóvember 2005

Höfundur: Irvine Welsh, þýðandi: Megas: leikstjóri: Jón Marinó Sigurðsson.

Niður til heljar hérumbil


Skoska skáldsagan Trainspotting hefur gert víðreist jafnt í landfræðilegum og formlegum skilningi, verið breytt bæði í kvikmynd og leikhúshandrit og sýnd í þeirri birtingarmynd um allar jarðir. Sennilega er það óbeislaður og óvæginn krafturinn sem laðar leikhúsfólk að þessari hráslagalegu sögu um unga skota á leið niður í eiturlyfjahyldýpið og endurkomu sumra þeirra úr því aftur. Verkið er blessunarlega laust við þann predikunartón sem einkennir of mörg verk sem fjalla um það böl sem vímuefni verða sumum neytendum þeirra, en nær þeim mun meiri áhrifum með því að varpa köldu ljósi á atburðina, persónuleika þeirra sem verst verða úti og þjóðfélagsaðstæður þær sem gera útgönguleiðina sem dópið býður jafn freistandi og raun ber vitni.

Ég verð að játa að hafa hvorki séð myndina frægu, né heldur uppfærslu Flugfélagsins Lofts á sviðsgerðinni á sínum tíma, en reikna með að hér sé að mestu fylgt því handriti sem þar var notað. Og verð að segja að þar orkar margt tvímælis. Þýðing Megasar er einkennilega bragð- og litlaus, mun daufari en við mætti búast úr þeirri áttinni. Þá ganga tilraunir til staðfærslu alls ekki upp – vísanir í breskan stéttamun með samanburði á MR og FB verða aldrei annað en lélegur brandari. Eins virðist mér að leikgerðin sjálf eigi í megnustu vandræðum með að lifa sjálfstæðu lífi óháð kvikmyndinni. Stuttar senur með of löngum skiptingum á milli og nokkuð óhófleg notkun á kvikmyndainnskotum sýndu að ekki hafði tekist að þýða efnið yfir á mál leikhússins. Vídeókaflarnir voru reyndar skrambi vel útfærðir, en virkuðu samt eins og uppgjöf fyrir forminu.

Jón Marínó er ekki reynslumikill leikstjóri þó hann hafi lagt gjörva hönd á margt í leikhúsinu sínu undanfarin ár. Best gengur honum að ná kraftmikilli og einlægri persónutúlkun út úr aðalleikurunum sínum, og það er aðal sýningarinnar. Félagarnir Rúnar Berg Baugsson og Burkni Birgisson voru þarna í sérflokki, enda einu persónurnar sem fá tíma og efni til að sýna þróun, þroska og glötun. Einnig sópaði að Arnari Inga Tryggvasyni sem var demónskur mjög í hlutverki sögumanns og fulltrúa eitursins í sýningunni.

Það sem síðan dregur nokkuð máttinn úr sýningunni er meðferð rýmisins. Jón Marinó kýs að fjarlægja nokkra fremstu áhorfendabekkina og stækka sviðið að sama skapi. Við þetta græðir hann vissulega pláss, en tapar um leið nálægðinni við áhorfendur, sem horfa úr fjarlægð á ofbeldið og óhugnaðinn, horfa niður á það sem fram fer, vel varðir af grindverki fyrir framan áhorfendasvæðið. Líklega hefði verið betra að fara þveröfulga leið, leitast við að þrengja að leikhópnum, koma áhorfendum fyrir sem allra næst því sem fram fer. Það er nefnilega ekki tilviljun að Trainspotting er oft spyrt saman við leikritunarstefnu sem kölluð er In-Yer-Face-Theatre. Nálægðin hefði líka hjálpað textaskilningnum, en of margir leikenda höfðu ekki tækni til að skila setningunum sínum skýrum í gegnum unglingaþvoglið sem er svo viðeigandi að nota.

Það eru greinilega kynslóðaskipti í Leikfélagi Keflavíkur um þessar mundir. Trainspotting er kraftmikil sýning sem augljóslega er sett fram af sannfæringu og ástríðu allra sem að henni koma. Þó svo tæknihnökrar dragi úr áhrifum hennar má gera ráð fyrir að framtíð leikfélagsins sé bjartari en þeirra lánleysingja sem þau sýna okkur að þessu sinni.