sunnudagur, febrúar 12, 2006

Ronja ræningjadóttir

Leikfélag Reykjavíkur Höfundur: Astrid Lindgren, leikgerð: Annina Enckell, tónlist: Sebastian, þýðing: Þorleifur Hauksson, þýðing söngtexta: Böðvar Guðmundsson, leikmynd og búningar: Sigurjón Jóhansson, gervi, Sigríður Rósa Bjarnadóttir, brúður: Bernd Ogrodnik, lýsing: Halldór Örn Óskarsson, hreyfingar og dans: Ástrós Gunnarsdóttir, tónlistarstjóri: Karl Olgeirsson, hljóðmynd: Jakob Tryggvason, hljóðfæraleikur: Karl Olgeirsson og Jóel Pálsson. Leikendur: Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Davíð Guðbrandsson, Eggert Þorleifsson, Ellert A. Ingimundarson, Friðrik Friðriksson, Gunnar Hansson, Halldór Gylfason, Hildigunnur Þráinsdóttir, Hinrik Þór Svavarsson, Kjartan Bjargmundsson, Oddur Bjarni Þorkelsson, Orri Huginn Ágústsson, Sóley Elíasdóttir, Tryggvi Gunnarsson, Valur Freyr Einarsson, Þór Tulinius og Þórhallur Sigurðsson, Auk þess fimm börn. Borgarleikhúsinu 12. febrúar 2006.

Skógarlíf

ASTRID Lindgren var klárlega mörgum góðum kostum gædd sem rithöfundur. Sá sem hæst ber í Ronju ræningjadóttur er áreiðanlega sá að geta skrifað svo mergjaðar smástelpur að jafnvel strákarnir vilja vera eins og þær. Lína á Sjónarhóli, Skotta á Saltkráku og Ronja – hver annarri ómótstæðilegri í lífsgleði sinni og réttsýni, að ógleymdri einþykkni, sérvisku og óþekkt. Alvöru fyrirmyndir fyrir allt almennilegt fólk.

En þó persónan Ronja sé til fyrirmyndar er sagan af henni ekki alveg eins hátt skrifuð hjá mér. Hún er einhverskonar óþægilegt millistig milli framvindulausra sagna á borð við Emil og Línu þar sem hver kafli er sjálfstæður og ævintýranna um bræðurna Ljónshjarta og Míó þar sem ein atburðarás ræður ríkjum. Útkoman verður sú að einstök ævintýri Ronju og Birkis verða eins og útúrdúrar, og meginsagan fær ekki það rými sem hún þarf.

Því miður tekst metnaðarlausri og alltof „bókstaflegri“ leikgerðinni ekki að berja í þessa bresti. Og fyrir minn smekk hjálpar tónlist Sebastians hreint ekki, karakterlaus og hálf b-hliðarleg. Ég veit ekki hvernig réttindamálum frú Lindgren er háttað en gaman hefði verið að sjá söguna tekna nýjum tökum að þessu sinni. Þetta er viðamikil sýning og öllum meðulum leikhússins beitt.

Mikill fjöldi leikara kemur við sögu, fullt af börnum og brúðum, tæknin öll á fullu, það er sungið og dansað og sprellað. Það gengur prýðilega að skapa tilfinningu fyrir þessu sérkennilega samfélagi sem skapar hina skapheitu ræningjaprinsessu og lunginn úr karlleikaraliði Leikfélags Reykjavíkur nýtur þess greinilega að teikna þessa skrítnu kalla. Fer þar fremstur Eggert Þorleifsson sem fer svo léttilega með Skalla-Pétur að áhorfandinn tekur varla eftir honum fyrr en maður byrjar að hlæja að einhverri sáraeinfaldri athöfn, raddblæ eða augnatilliti. Það er heldur ekkert sérstakt upp á aðalleikarana að klaga. Arnbjörg Hlíf er klárlega hárrétt Ronja, barnsleg, lipur, syngjandi og skemmtileg. Kannski dálítið eintóna, en það helgast líka af leikgerðinni sem finnst margt mikilvægara en að fylgja titilpersónunni og þroska hennar eftir. Friðrik er líka fínn Birkir, þó hárkollan geri ekki mikið fyrir hann.

Þórhallur Sigurðsson er ábúðarmikill og höfðinglegur Matthías, lögn sem orkar tvímælis. Ræningjahöfðinginn hefur mér alltaf þótt vera trúður, lítið barn í of stórum skrokki. Merkilegt að ná ekki meiri skopfærslu út úr þessum snillingi. Á móti kemur að Laddi teiknar ágætlega þroskasögu Matthíasar, en hann er eiginlega eina persónan sem þroskast í gegnum verkið. Ellert gerir eftirminnilegan Borka úr litlu efni, Sóley er sannfærandi Lovísa. Ýmsum ráðum er beitt til að vekja upp furðuverur verksins.

Rassálfarnir eru úr smiðju Bernds Ogrodnik og óhemjusætir, Skógarnornirnar öllu verr heppnaðar. Grádvergarnir aftur leiknir af börnum sem dansa af ótrúlegu öryggi og krafti.

En einhvern veginn nær þetta ekki að límast saman og lifna á nógu sannfærandi hátt. Hvað veldur? Fyrir utan fyrrgreindar efasemdir um söguna og leikgerðina þá held ég að leikmyndin sé að flækjast fyrir. Eins hugkvæm og fjölnota og hún nú er hjá Sigurjóni þá þvælist hún á stundum fyrir flæðinu í sýningunni og neyðir á köflum leikstjórann til að sviðsetja fínlegar og persónulegar senur óþarflega fjarlægar áhorfendum. Það líður óratími þangað til við fáum almennilega nærmynd af Ronju, svo dæmi sé nefnt.

Annað vandamál þykir mér vera afstaða leikstjórans til tónlistarinnar, en tónlistarnúmerin eru að mestu sviðsett og sungin sem einhvers konar einkamál persónanna í stað þess að vera samtal við áhorfendur. Þetta verður aldeilis fráleitt í sólónúmerum á borð við söng Matthíasar í seinni hlutanum – af hverju er hann að syngja ef ekki til að tjá okkur líðan sína? Fyrir vikið liggur sterkasta vopnið til að mynda tengsl við salinn ónotað. Sennilega truflar líka ofnotkun á hljóðnemum – ekkert er eins fráhrindandi og þegar talraddir leikaranna berast manni úr hátölurum og ekkert fríar leikarann eins ábyrgð á að miðla erindi sínu til áhorfandans.

Allt hjálpast þetta að til að halda sögunni fjarlægri. Þannig orkaði þessi sýning á mig. Hún náði mér ekki, þó að ýmsu mætti dást. Hins vegar verður að geta þess að börnin í salnum höfðu sig lítt í frammi þannig að hún hefur haldið þeim. Það er góðs viti.