föstudagur, mars 24, 2006

Sister Act

Leikfélag Vestmannaeyja og Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum Byggt á kvikmyndinni Sister Act. Handrit og leikstjórn: Laufey Brá Jónsdóttir, kórstjóri Helga Jónsdóttir. Bæjarleikhúsinu í Vestmannaeyjum 24. mars 2006.

Klausturlíf

MERKILEGT hvernig hugmyndir ferðast. Allt í einu dettur tveimur leikfélögum í hug að ráðast í sviðsgerðir af bíómyndum sem eru framhald hvor af annarri. Bæði sjá í þeim skemmtilegt efni og hentuga samsetningu. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ velur Sister Act II, væntanlega vegna þess að hún gerist í skóla og fullorðnar nunnur eru þar ekki í forgrunni. Leikfélag Vestmannaeyja sér hinsvegar kærkomið tækifæri til að hleypa öflugum leikkvennahóp sínum á svið með því að vinna upp úr fyrri myndinni um söngkonuna lífsreyndu, þar sem henni er komið fyrir nauðugri viljugri í nunnuklaustri til að leyna henni fyrir glæpalýð sem vill hana feiga. Þó efnið sé svo sem ekki burðugt og sá siður að vinna leikverk upp úr kvikmyndum óðum að verða hvimleiður þá tekst báðum þessum hópum að skapa ágætisskemmtiverk.

Stóri kosturinn við sýningu Leikfélags Vestmannaeyja er nunnuskarinn. Þær eru satt að segja alveg dásamlega skemmtilegar í sínu lífsglaða sakleysi. Laufey Brá hefur unnið frábært starf við að hlúa að persónueinkennum hverrar og einnar auk þess sem þær virka afar vel sem hópur með sameiginleg einkenni. Andstæða þeirra, hin harðskrápaða kabarettsöngkona Díanna Díor er vel kominn hjá hinni þaulreyndu Ástu Steinunni Ástþórsdóttur og abbadísinni er ágætlega skilað af Guðnýju Kristjánsdóttur.

Leikfélag Vestmannaeyja er ekki frekar en mörg önnur félög jafnvel búið körlum og konum og óneitanlega eru hinir harðsvíruðu glæpamenn heldur í yngri og saklausari kantinum. Skemmtilegir samt, sem og presturinn. Á öðrum pósti er Leikfélagið í Eyjum þó betur statt en velflest önnur: þau hafa hringsvið, sem er vel og skynsamlega nýtt til að leysa þann vanda sem kvikmyndastrúktúr skapar einatt leikhúsfólki og flytur okkur hratt og fumlaust milli staða. Flugvélin var til að mynda leyst á bráðsnjallan hátt og tæknilegir hnökrar henni fylgjandi juku bara á kátínuna. Tónlistarflutningur harla góður, þó svo fagurkerar á hljómburð hefðu væntanlega kosið eilítið jafnara „sánd“.

Allur tónn sýningarinnar er afslappaður og vakti sýningin mikil og almenn fagnaðarlæti í félagsheimilinu þegar gagnrýnandi sá hana. Nunnulíf í Eyjum er lifandi og bráðskemmtileg sýning sem vermir hjartað. Ágætur árangur það.