laugardagur, apríl 01, 2006

Tveir tvöfaldir

Leikfélag Húsavíkur Höfundur: Ray Cooney, þýðandi: Árni Ibsen, leikstjóri: María Sigurðardóttir. Samkomuhúsinu á Húsavík 1. apríl 2006.

Það er gaman þegar er gaman 


ÞEGAR sígur á seinni hlutann í góðum farsa er umhverfið allt orðið eins og jarðsprengjusvæði fyrir persónurnar. Eitt óvarlegt orð, ein gleymd lygi, og allt er farið fjandans til. Kannski að einhverju leyti sambærilegt við þá jafnvægislist sem leikstjóri þarf að tileinka sér meðan verið er að móta verkið. Það er auðvelt að klúðra försum og gerist of oft. Og ekkert er eins þungbært og að sitja undir ófyndnum farsa. Enginn hlær. Hans eini tilgangur horfinn.

Góðu heilli er þetta ekki upp á teningnum hjá Leikfélagi Húsavíkur að þessu sinni. Þvert á móti skilar misreyndur en sterkur leikhópurinn einhverri fyndnustu farsasýningu sem ég hef lengi séð. Það sem á stærstan þátt í því er þolinmæði leikstjórans við að byggja upp spennuna. Alltof oft falla leikstjórar og leikarar í þá freistni að gera of mikið úr vandræðum persónanna meðan þau eru rétt að byrja, ýkja móðursýkina í upphafi og lenda svo í stökustu vandræðum við að bæta í.

Fyrir utan að með ótrúverðugum viðbrögðum í byrjun tapa persónurnar samlíðan áhorfenda sem koma þær ekki við upp frá því. Og hláturinn kviknar af samúð. Hér er allt hárrétt stillt. Mögulega má reyndar hitastigið hækka aðeins hraðar en það gerði á frumsýningunni, smávægilegt textaóöryggi skaut stundum upp kollinum. Verður orðið fínt um næstu helgi. Útkoman er samt sú að við fylgjum þessum breysku, gröðu og gráðugu persónum fúslega inn á jarðsprengjusvæðið og ýlfrum af hlátri þar sem þær hoppa á milli þúfna.

Leikhópurinn er glæsilegur. Reynsluboltarnir Guðný Þorgeirsdóttir, Sigurður Illugason og Þorkell Björnsson stíga ekki feilspor og minna reyndir boltar eins og Helga Ragnarsdóttir, Svava Björk Ólafsdóttir, Hjálmar Ingimarsson, Judit György og Hilmar Valur Gunnarsson skoppa líka. Sólveig Skúladóttir og Sigurjón Ármannsson fín í sínum örhlutverkum. Burðarásinn er úr yngri deildinni þótt hann hafi ýmislegt reynt á sviði undanfarin ár.

Hjálmar Bogi Hafliðason er algerlega óborganlegur sem vammlausi ritarinn sem spillti stjórnmálamaðurinn og hans vergjarna frú steypa út í fenið til sín. Hjálmar hefur nýtt færin sín vel undanfarin ár, lært af hverju hlutverkinu á fætur öðru og uppsker nú ríkulega. Alltaf sannur og innlifaður, en um leið merkilega teknískur. Frábær frammistaða.

Leikmyndin er flott og lygilega rúmgóð í þrengslum Samkomuhússins. Öll sviðsetningarvinnan pottþétt hjá Maríu. Útkoman er firnaskemmtilegur farsi og rós í hnappagat hins fornfræga félags.