föstudagur, mars 31, 2006

Hárið

Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum Leikgerð Baltasars Kormáks og Davíðs Þórs Jónssonar á söngleik Geromes Ragnis og James Rados og kvikmyndahandriti Michaels Wellers. Tónlist: Galt MacDermot, þýðing: Davíð Þór Jónsson. Leikstjóri: Þórunn Sigþórsdóttir. Valaskjálf 31. mars 2006

Sveitapiltsins draumur


HÁRIÐ er sívinsælt verkefni fyrir framhaldsskólaleikfélög og það er svo sem ekkert skrítið. Kraftmikil og grípandi tónlist, persónur á líku reki og leikendurnir, nánast ótakmarkaðir möguleikar á þátttakendafjölda, en aðeins nokkur hlutverk sem gera meira en lágmarkskröfur til leiks og söngs.

Og svo eru meira að segja gallar verksins trúlega kostir fyrir marga. Yfirborðskennd glansmynd hans af hippalíferni er samsett af öllum helstu klisjunum sem gaman er að velta sér upp úr í hæfilegri blöndu af einlægni og skopstælingu.

Leikhópur Menntaskólans á Egilsstöðum er ágætlega skipaður og seint verður gert of mikið úr þeirri miklu skólun sem þátttaka í svona sýningu skilar þátttakendum til viðbótar við aðra menntun, og kannski að einhverju leyti í staðinn fyrir hana þegar kröfur leikhússins ýta námsbókunum til hliðar í aðdraganda frumsýningarinnar.

Fremstir í flokki þeir Pétur Ármannsson og Theódór Sigurðsson sem skila bæði leik, söng og persónutöfrum prýðilega í hlutverkum erkihippanna Bergers og Hud. Hákon Unnar Seljan Jóhannsson er sannfærandi mótvægi við þá í hlutverki sveitapiltsins Claude, þótt honum hafi ekki frekar en öðrum sem ég hef séð glíma við hlutverkið tekist að sýna nokkra persónuþróun í rýrt skrifuðum karakternum.

Allir syngja bara nokkuð vel. Hljómsveit vel spilandi þótt kannski hafi bæði hljómur og útsetningar verið í hrárra lagi, smá pönkkeimur kominn af mjúku reykelsismettuðu hippamúsíkinni. Og það er alltaf í sjálfu sér hrósvert þegar menntaskólarnir sjá sjálfir um undirleik stórsjóa sinna en kaupa hann ekki niðursoðinn á geisladisk af fagmönnum með tilheyrandi gerilsneyddri fágun.

Reynsluleysi leikstjórans af sviðsetningum birtist einna helst í dálítið daufri nærveru kórsins sem ekki er nýttur sem skyldi til að gefa alltumlykjandi tilfinningu fyrir tíðarandanum. Búninga á skarann hefur ekki verið neitt áhlaupaverk að útvega en samtíningurinn er auðvitað hvergi jafn viðeigandi og í þessum heimi.

Hárið á Egilsstöðum er allvel lukkuð uppfærsla á verki sem hefur augljósa kosti og skírskotun til þátttakenda og gleður vafalaust stóran hluta áhorfenda sinna ýmist með skírskotun til þekktrar fortíðar eða í það minnsta litríkri tónlist.