mánudagur, júlí 03, 2006

Tveir einleikir

OTOMOTO
Leikari og höfundur: Ole Brekke

HISTORY OF MY STUPIDITY
Leikari og höfundur Zeljko Vumirica

Tjarnarbíó 3. júlí 2006

Tveir vitleysingjar að vestan



TVEIR af erlendum gestum einleikjahátíðarinnar Act alone buðu þeim sem ekki áttu heimangengt á Ísafjörð um helgina upp á reykinn af réttunum í gærkvöldi. Báðir hafa þeir Ole Brekke og Zeljko Vukmirica bakgrunn í trúðleik, en að öðru leyti voru ekki mikil líkindi með sýningum þeirra.

Það er eitthvað sérkennilegt við að skrifa gagnrýni á trúða. Gott ef ekki eitthvað rangt. Ekkert afhjúpar tilraunir til að vera gáfulegur, greinandi og vitsmunalegur eins rækilega og góður trúður, sem með einlægni sinni og hreinum hug mætir fólki og fyrirbærum af fölskvalausum áhuga, vopnlaus af reynslu, bókviti eða hyggindum. Góður trúður neyðir áhorfendur - gagnrýnendur og aðra - til að hlýta fyrirmælum Halldórs Laxness, að kasta lógaritmatöflunum og “koma eins og krakki” í leikhúsið.

Samkvæmt leikskrá er Ole Brekke maðurinn á bak við The Commedia School í Kaupmannahöfn, og á þar með hluta heiðursins af skólun bæði Elvars Loga Hannessonar og Kristjáns Ingimarssonar. Framlag hans var nokkuð dæmigerð trúðasýning að forminu til, trúðurinn Otomoto glettist við áhorfendur, glímdi við óþæga leikmuni, dansaði smá og spilaði lítilsháttar á hljóðfæri.

Otomoto byrjaði ágætlega með sniðugri innkomu ofan úr ljósaklefa og áreynslulitlum samleik við áhorfendur. En síðan fór heldur að halla undan fæti. Viðfangsefni Otomotos í sýningunni leiddi ekki eðlilega hvert af öðru og skortur á rökvísri uppbyggingu gerði það að verkum að hvert atriði varð að standa fyrir sínu, sem þau gerðu misvel. Verst var þó að hafa á tilfinningu að leikarinn hvíldi ekki fyllilega í aðstæðunum hverju sinni, sem er alger forsenda þess að trúðleikur virki. Það sást of oft glitta í leikarann bak við rauða nefið í umgengni hans við hlutina á sviðinu til að galdur trúðsins héldi.

Þessi fyrstu kynni af Ole Brekke voru því nokkur vonbrigði, en vonandi átti hann einungis vondan dag að þessu sinni.

Zeljko Vukmirica er króatískur leikari með talsvert orðspor og sýni hér einleik sinn, Saga heimsku minnar, þar sem hann rekur ævi- og menntunarferil sinn frá getnaði til útskriftar úr leiklistardeild háskólans Zagreb.

Þessi sýning byrjaði einnig vel. Vukmirica er ansi hreint magnaður flytjandi, með sterka nærveru, svipbrigðaríkt andlit, mikla tækni og óhemjulega orku. Hann var því fljótur að draga áhorfendur inn í frásögn sína af samskiptum við fjölskyldu, kunningja, kennara og aðra sem vilja kenna honum ýmislegt með misjöfnum árangri.

En aftur gerðist það að sýningin fór að dala þegar á leið. Hér var það kannski fyrst og fremst óhófleg lengd miðað við innihald sem varð leikaranum fjötur um fót, auk þess sem honum dvaldist við útúrdúra sem ekki voru nógu skemmtilegir til að réttlæta sig sem hluta af sýningunni. Bjagaða enskan var framanaf bæði sniðug í sjálfri sér og stundum uppspretta kostulegra hugmynda en varð líka á endanum tafsöm og þreytandi.

Það var gaman að kynnast þessu orkubúnti frá Króatíu, en óskandi að á næsta stefnumóti verði hann búinn að virkja sig örlítið betur.