miðvikudagur, apríl 26, 2006

A.L.F

Leikfélag Kópavogs Höfundar: Guðjón Þorsteinn Pálmason, Oddur Bjarni Þorkelsson og fleiri. Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson. Félagsheimili Kópavogs 26. apríl 2006.

Og fegurðin mun ríkja ein 


AF HVERJU eru sjúkrahús svona ótæmandi brunnur fyrir skemmtilegheit? Kannski af því að þar er svo skýr valdastrúktúr til að misnota og ögra, endalausir möguleikar á illri meðferð, líkamleg vanvirðing daglegt brauð, dauðinn aldrei langt undan. Enda verður grínið alltaf ansi hreint dökkgrátt þegar vettvangurinn er heilbrigðiskerfið eða einhver ímyndaður og martraðarkenndur botnlangi út úr því.

Þannig er það í þessari sýningu Leikfélags Kópavogs, sem er frábærlega útfærð sjúkrahúsrevía þegar best lætur, úttútin af klikkuðum hugmyndum. Að sönnu er aðkenning af söguþræði dálítið truflandi og heldur klénn sjálfur; sýningin stendur eiginlega ekki undir því loforði sínu að segja eitthvað beitt og áhugavert um fegurðardýrkun nútímans.

Fléttan sem snýst í kringum baráttu fallegra og ljótra þvælist heldur fyrir því sem að formi til er algerlega hefðbundin sjúkrahúsrevía. En þetta kemur líka lítið að sök, þökk sé frábærri vinnu á ýmsum póstum. Stærsti plúsinn fæst fyrir karaktervinnuna, sem samkvæmt leikskrá er byggð á námskeiði sem Margrét Sverrisdóttir hélt fyrir hluta leikhópsins.

Skrípamyndir þær sem sumir leikaranna draga upp eru firnaskýrar og bráðskemmtilegar þótt sumar þeirra væru alveg við það að vera orðnar þreytandi. Hér verður að nefna sérstaklega Guðmund L. Þorvaldsson sem er alveg yndislegur sem hinn lánlausi klaufi dr. Keliman. Einnig má alveg ljúka lofsorði á skötuhjúin í kjallaranum, þau Sigstein Sigurbergsson og Bylgju Ægisdóttur. Og fleiri svo sem, en látum þessi þrjú standa fyrir heildina í persónugalleríinu sem er helsti styrkleiki sýningarinnar. Svo og hátt orkustig hópsins í heild og öryggi í óvenju tæknilega flóknu verki. Þá eru mörg atriðanna skrambi vel gerðir sketsar. Barnabarnið að leita að líki afa síns í endurvinnslustöð sjúkrahússins, svo og óborganleg byrjunin standa kannski upp úr í minningunni.

Annað sem á stóran þátt í áhrifamættinum er frábærlega unnin umgjörð. Leikmyndin er tæknilega þénug og skapar hárrétt andrúmsloft óhugnaðar auk þess sem útlitið er hárrétt. Hljóðmynd líka nokkuð sniðug. Lýsingin virtist mér hlaupa dálítið útundan sér í sýningunni, en það mun annaðhvort slípast eða það hefur átt að vera svona. Á þessum spítala getur allt gerst.

A.L.F. er einhver fyndnasta sýning sem er í boði á höfuðborgarsvæðinu núna á vordögum. Fáið tilvísun hjá heimilislækninum ykkar ef þið þorið.