föstudagur, ágúst 18, 2006

Purpuri

Leikhópurinn Jelena. Höfundur: Jon Fosse, þýðandi: Álfrún Örnólfsdóttir, leikstjóri: Friðrik Friðriksson, ljósahönnun: Magnús Arnar Sigurðsson. Leikendur: Baltasar Breki Baltasarsson, Bragi Árnason, Erna Svanhvít Sveinsdóttir, Gunnar Atli Thoroddsen og Sigurður Kjartan Kristinsson. Verinu, Loftkastalanum 18. ágúst 2006

Í æfingahúsnæðinu 


LEIKRIT Norðmannsins Jon Fosse njóta mikillar hylli í hámenningarleikhúsum Evrópu nú um stundir. Ástæðan fyrir því að jafninnihaldsrýr verk ná þessari stöðu er sennilega sú að staða leikskáldsins sem aðaluppsprettu merkingar í leikhúsinu hefur veikst stöðugt undanfarna áratugi. Efniviður eins og sá sem Fosse leggur leikhúsfólkinu í té; opinn, óræður og tíðindalítill, hentar vel í heimi þar sem handrit eru fyrst og fremst efniviður, einn útgangspunktur sköpunarinnar en ekki listaverk sem krefst leitar og túlkunar.

Kostir og gallar þessa eru ljósir í sýningu Leikhópsins Jelenu á Purpura. Hér segir frá afleitri unglingahljómsveit og stúlku sem laðast að gítarleikaranum sem á í dálítilli lífskrísu. Verkið gefur hinum bráðefnilegu leikendum ágætis tækifæri til að hnykla leikvöðvana og sýna styrk sinn, en það er á endanum helsta ánægjan sem hafa má af sýningunni. Það er eiginlega ekkert áhugavert í verki höfundarins, einungis í því hvernig sviðslistafólkið skilar því.

Góðu heilli er þar margs að njóta. Þýðing Álfrúnar er lipur og eðlileg. Umgjörðin er áhrifamikil, sannfærandi æfingahúsnæði unglingahljómsveitar í verksmiðjukjallara. Ósamstæða trommusettið, frumstætt söngkerfið, klámblöðin, bjórdósirnar og teppin á gólfinu. Lýsingin hrá og viðeigandi. Búningarnir kannski veikur hlekkur, erfitt að sjá söngvarann og trommarann í sömu hljómsveit og líka snúið að sjá hvað dró svona pena stúlku inn í þetta skelfilega hús.

En þetta var sýning leikaranna öðru fremur. Hlutverkin svolítið misbitastæð. Gunnar Atli og Sigurður Kjartan höfðu úr litlu að moða sem bassaleikari og söngvari, en skiluðu því vandræðalaust. Og það gustar talsvert af Baltasar Breka í kröftugu en afar klisjulegu hlutverki ógnvaldsins við settið. Það mæðir samt fyrst og fremst á Braga Árnasyni í hlutverki gítarleikarans og Ernu Svanhvítar Sveinsdóttur sem var stelpan. Samleikur þeirra var heilt á litið afar góður auk þess sem hvort um sig skilaði skýrri og áhrifamikilli lýsingu á viðkvæmu fólki í erfiðri stöðu.

Friðrik leikstjóri á heiður skilinn fyrir sinn þátt í að laða fram þennan prýðilega leik og að leyfa honum að vera í forgrunni sýningarinnar sem er fyrst og fremst stælalaus og einlæg. Leikhópurinn Jelena samanstendur af efnilegu ungu fólki og greinilega ætlað að vera æfingamiðstöð fyrir frekari afrek. Hann fer vel af stað og verður gaman að sjá hvort og hvaða framhald verður á.