miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Abbababb

Á senunni og Hafnarfjarðarleikhúsið. Höfundur: Gunnar Lárus Hjálmarsson. Leikstjóri: María Reyndal. Dansar: Lára Stefánsdóttir. Leikmynd: Linda Stefánsdóttir. Búningar: Dýrleif Ýr Örlygsdóttir og Margrét Einarsdóttir. Lýsing: Lárus Björnsson og Garðar Borgþórsson. Hljómsveit: Gunnar Lárus Hjálmarsson, Birgir Baldursson og Elvar Geir Sævarsson. Leikendur: Atli Þór Albertsson, Álfrún Örnólfsdóttir, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir, Jóhann G. Jóhannsson, Orri Huginn Ágústsson, Sigurjón Kjartansson og Sveinn Geirsson. Hafnarfjarðarleikhúsinu 14. febrúar 2007.

Gleðiefni 


SÝNINGAR eins og Abbababb eru eins og pönkið. Þær afvopna alvarlega þenkjandi gagnrýnendur, hrifsa af þeim fagurfræðileg og fagleg viðmið og neyða þá til að einbeita sér að því sem á endanum skiptir auðvitað mestu máli í listum: að njóta þess sem í boði er.

Þannig að það verður algert aukaatriði að sagan sem Dr. Gunni hefur soðið saman til að tengja helstu lög af hinni vinsælu samnefndu barnaplötu er á köflum svolítið bláþráðótt, einkum í lokin þegar þarf að hnýta lausu endana hratt og vel. Miklu meira máli skiptir að hinar ýmsu aðstæður sem söguhetjurnar lenda í eru sniðugar hver fyrir sig. Og þó hinn ofvirki leikstíll sem María Reyndal leggur til grundvallar geti tekið á taugarnar þá yfirvinnur sjarmi persónanna og túlkenda þeirra þau vandkvæði.

Abbababb færir gesti sína aftur í (diskó) tímann og segir frá vinahópi lítilla krakka og árekstrum þeirra við helstu ógnvalda tímans: sovéska heimsveldið og stóru strákana. Það er gaman að rifja upp tíðarandann og ætti að hafa ofan af fyrir foreldrunum meðan börnin einbeita sér að ævintýrum krakkanna. Þau ganga að mestu út á að hafa uppi á stolnu dínamíti áður en þjófar þess ná að fremja hryðjuverk í hverfinu. Svo laumast lítil ástarsaga inn í fléttuna og er kannski snotrasti partur sýningarinnar frá leikritunarsjónarhólnum.

Tónlistin er síðan kveikjan að öllu saman. Dr. Gunni hefur afar persónulegan stíl sem lagahöfundur, bestur að mínu mati þegar hann er hvað melódískastur og rambar á klisjubrúninni. Lokasöngur sýningarinnar þykir mér til dæmis til mikillar fyrirmyndar. Mér þykir doktorinn hins vegar betri textahöfundur en svo að hann þurfi að ofnota það stílbragð að láta áherslur falla vitlaust í orðum eins og hann gerir mikið af og að því er virðist vísvitandi.

Hljómsveitin er þétt og skemmtileg og söngur kraftmikill og lifandi. Ekki veikur hlekkur þar. Eins þóttu mér dansar Láru Stefánsdóttur bráðskemmtilegir.

Aðalhlutverk sýningarinnar eru í höndum þriggja leikara sem öll standa sig vel. Fyrrnefnd ofvirkni er reyndar dálítill ljóður á ráði Jóhanns G. Jóhannssonar og Álfrúnar Örnólfsdóttur, síður áberandi hjá Orra Hugin Ágústssyni enda persónan kannski aðeins bitastæðari en hinar og því aðeins minni ástæða til að vera á sífelldu iði.

Sjoppukallinn Herra Rokk er svo sannarlega í öruggum höndum hjá Sigurjóni Kjartanssyni, en hann bregður sér líka í hlutverk bleiubarns og hunds og leysir það líka vel þó hinn góðhjartaði rokkari sé meiri heimavöllur fyrir þennan flinka grínista.

Einhver besta hugmynd verksins er að gera ógnvaldana miklu, stóru strákana, að diskóboltum þegar klisjan kallaði á skítuga pönkara. Enda leiðist þeim Atla Þór Albertssyni og Sveini Geirssyni ekki hætishót að leika þá Steindór og Gulla. Þá er Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir einkar sannfærandi sem hin gelgjulega Systa, í raddbeitingu og líkamstjáningu sem er vel studd af sennilega best heppnaða búningi sýningarinnar. Búningar þeirra Dýrleifar og Margrétar eiga stóran þátt í að búa til kæruleysisblæinn á sýningunni, en á heildina litið þótti mér nú óþarflega klasturslegur blær á þeim. Aukapersónurnar sem þau Atli, Sveinn og Jóhanna túlka liðu svolítið fyrir þetta, en kom ekki svo að sök.

Leikmynd Lindu Stefánsdóttur sýndist mér þénug, einkum kofi krakkanna og ruslahaugurinn, sjoppan og skólinn kannski aðeins minna skemmtileg.

En vankantar skipta ekki máli í þessu samhengi. Abbababb er fjörug stuðsýning sem ætti að kæta bæði börn og fullorðna. Sniðuglega samin utan um skemmtileg lög og ágætlega framreidd af leikurum og aðstandendum öllum.