þriðjudagur, ágúst 14, 2007

Light Nights

Iðnó Leikstjóri: Kristín G. Magnús, handrit: Molly Kennedy, Kristín G. Magnús og fleiri, ljósahönnuður: Lárus Björnsson, tæknistjóri: Jón Ívarsson, hönnun myndefnis: Magnús Snorri Halldórsson, leikmyndahönnun: Kristín G. Magnús, leikmyndamálun: Steingrímur Þorvaldsson, danshöfundur: Þorleifur Einarsson, glímuþjálfun: Hörður Gunnarsson. Leikendur: Emil F. Freysson, Kristín G. Magnús, Kristína Björk Arnórsdóttir, Monika Freysteinsdóttir, Ragnheiður Sara Grímsdóttir og Þorleifur Einarsson. Iðnó þriðjudaginn 14. ágúst 2007.

Ferðaleikhúsið


EKKI er annað hægt en að dást að þrautseigju Kristínar og hennar fólks, sem hafa haldið landkynningarsýningunni Light Nights úti fyrir erlenda ferðamenn á fjórða áratug. Ég hef séð hana einu sinni áður, fyrir um 10-12 árum síðan og þá eins og nú voru áhorfendur ekki ýkja margir. Handritið að stórum hluta það sama. Samt var allt gefið í flutninginn núna, eins og þá. Ástin á umfjöllunarefninu augljós og kannski helsti kostur sýningarinnar.

Umgjörðin og tæknivinna er líka vel leyst, búningar, leikmynd, lýsing og myndasýningar. Helsti akkillesarhæll hennar er annarsvegar stirðlega skrifuð ensk samtöl sem lifnuðu lítt á tungu misreyndra leikendanna og hinsvegar stundum nokkuð erfið sambúð frásagnar og leikinna atriða. Eiginlega þótti mér lausnin í sögunni um Sæmund fróða best, þar sem leikhópurinn sýndi látbragð stutt af tæknibrellum en sagan lesin. Og leikararnir ungu lifnuðu við þegar þau fengu sitt eigið mál að leika á. Kristín sjálf nýtur þess greinilega að bregða sér úr sögumannsrullunni og búa til skopmynd af særingakonu, og gerir það skemmtilega.

Að átta sig á áhrifamætti sýninga á borð við Light Nights er dálítið snúið ef maður tilheyrir ekki „markhópnum“. Hvernig upplifa þeir sýninguna sem hún er gerð fyrir? Er eitthvað vansagt og eitthvað ofsagt sem truflar upplifun erlendra gesta hennar? Það er ekki gott að segja fyrir innlendan áhorfanda sem telur sig kunna þjóð- og fornsögurnar jafn vel og höfundar sýningarinnar. Stundum jafnvel betur.

Ég ætla samt að giska á að kostir og vankantar sýningarinnar sameinist í eftirminnilegri kvöldstund fyrir gestina, skili þeim einhverri innsýn í íslenskan menningararf og enn einni staðfestingu á að Íslendingar eru smáskrítnir.