fimmtudagur, maí 24, 2007

Yfirvofandi

Naiv á Listahátíð í Reykjavík Höfundur: Sigtryggur Magnason. Leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson. Ráðgjafi varðandi hljóðheim: Atli Ingólfsson. Ráðgjafi varðandi búninga: Eva Guðjónsdóttir. Leikarar: Edda Arnljótsdóttir, Ingvar Sigurðsson og Jörundur Ragnarsson. Lokastígur 5, efri hæð, fimmtudaginn, 24. maí 2007.

Gengið til stofu leikskálds 

Á ÞESSUM vetri höfum við séð leiklist í tjaldi, reiðhöll, varðskipi og nú er röðin komin að heimahúsi.

Þetta er hús númer fimm við Lokastíg, þá fallegu götu í hjarta Reykjavíkur. Útidyrnar eru opnar og liggur beinast við að ganga upp sveigðan stiga, upp á aðra hæð. Á skörinni er höfundurinn sem býður gestinn velkominn í hús, maður hengir af sér og gengur inn í hvíta, þrönga stofu og sest þar á stól hjá tuttugu öðrum. Horft er inn í tvö önnur herbergi, bókaherbergi með sófa og litlu skrifborði, og þaðan inn í borðstofu, í stofunni hjá okkur til hliðar er píanó. Í þessari leikmynd og rýmum sem ekki eru sjáanleg, úti á svölum og gangi, uppi á lofti, er leikið.

Ástin og dauðinn eru Sigtryggi Magnasyni hugleikin viðfangsefni. Nafnlausu hjónin í þessu verki hans eru rígbundin, ofurseld harmi, glæp úr fortíðinni, sem hindrar þau í að skilja, og tala saman. Hjónabandið er dautt. Dauðinn umlykur það einnig í líki sögumanns, sonar. Hann dýpkar samtalið, skýrir það stundum eða flækir og leiðir það áfram til afhjúpunar og hins óhjákvæmilega endis. Fallega ljóðrænn er texti þessarar vel smíðuðu fléttu, fínleg írónía skýtur oft upp kollinum og knöpp samtöl eru lifandi.

Edda Arnljótsdóttir og Ingvar Sigurðsson leika hin umkomulausu hjón. Þau hafa, þykir manni, setið lengi, jafnvel áratugum saman í þessum sófa, og hreyfa sig í þröngri stofunni, húsinu, af eðlilegu öryggi þess sem þekkir hvern krók og kima. Samband þeirra eða sambandsleysi er þrungið því ósagða og ósegjanlega. Nærvera Ingvars er eins og allajafna ótrúlega sterk. Edda, sem konan er gert hefur „eymdina“ að eina valkostinum, er þó ennþá betri. Henni, sem hefur svo einstaka tilfinningu fyrir húmor, tekst auðveldlega að láta íróníu textans lifna við.

Bergur Þór Ingólfsson staðsetur leikarana ákaflega vel og fallega í rýminu, húsinu. Hann kýs að leggja áherslu á hið ungæðislega í fari sögumannsins, sem leikinn er af Jörundi Ragnarssyni, og tengir sögumann skemmtilega samtali hjóna. Jörundur er efnilegur ungur leikari en á stundum verður þó leikur hans fullleiksviðslegur fyrir stofuna og víða hefði mátt vinna með honum meiri blæbrigði í texta.

Á tímum þegar leikritun stendur nokkuð höllum fæti í evrópsku leikhúsi er gaman að ganga til stofu skálds og hlusta á heillandi texta sem gerir kröfur til leikara.

Þess má geta að á frumsýningardag kom „Yfirvofandi“ út á bók og einnig ensk þýðing verksins. Bókin er einstaklega vel uppsett, í fallegu svörtu bandi og gott að hafa hana í hendi.