mánudagur, október 26, 2015

Mávurinn

Höfundur: Anton Tsjékov. Þýðandi: Ingibjörg Haraldsdóttir. Textayfirferð og breytingar: Krístín Eiríksdóttir, Eiríkur Örn Norðdahl og leikhópurinn. Leikstjóri: Yana Ross. Leikmynd: Zane Pihlström. Búningar: Filippía Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Myndbandshönnun: Algirdas Gradauskas. Dramatúrg: Aina Bergroth. Aðstoðarleikstjóri: Hlynur Páll Pálsson. Leikarar: Björn Stefánsson, Björn Thors, Guðrún S. Gísladóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Snær Guðnason, Jóhann Sigurðarson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Waraporn Chanse, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Borgarleikhúsið. Frumsýning 16. október 2015.

Okkar eigin Anton

Þegar klassísk verk eru tekin viðlíka róttækum tökum og gert er í þessari uppfærslu er sönnunarbyrðin alfarið á aðstandendum. Gengur staðfærslan upp? Býr útkoman yfir leikhúskrafti sem réttlætir það sem týnist í flutningunum? Og já, það er óhjákvæmilegt að eitthvað tapist. Að leikslokum gilda síðan orð fyrrum þjóðleikhússtjóra Breta, erkiíhaldsins Sir Peter Hall: Ef ekki tekst vel til stendur frumverkið óhaggað og hæðist að leikhúsfólkinu fyrir að hafa ekki treyst sér í það vegna skilningsleysis, plebbisma eða leti.

En vel heppnuð umsköpun rótar líka upp týndum verðmætum í gömlum verkum, og svo er ferskleiki auðvitað verðmætur í sjálfu sér. Í Mávi Yönu Ross, og kannski ekki síst þeirra sem hafa umskapað leiktextann, er svo sannarlega leikrænt fjörefni.

Kjarninn er þarna, þó búið sé að flytja atburðina frá Rússlandi aldamótanna 1800–1900 til Íslands nútímans. Spennuvakinn í verkum Tsékhofs er alltaf togstreita dreif- og þéttbýlis, svo hann malar áfram vandræðalaust undir atburðunum hér og á stóran þátt í töfrum sýningarinnar. Og hinn ólögulegi ferhyrningur ástar og metnaðar, sem rithöfundurinn, leikkonan, sonur hennar og kærastan hans mynda, er ekkert minna trúverðugur og frjór fyrir atburðarásina í þessu samhengi.

Fyrir innvígða aðdáendur sígildra verka er það dýrðleg nautn þegar hliðstæður verks og svona sýningar ná fullkomnum samhljómi, sem gerist æði oft hér, en líka tanngnístandi raun þegar eitthvað fer alvarlega á skjön eða áreynslan keyrir úr hófi. Hvað mig varðar gerðist það bara einu sinni – þegar stórleikkonan syngur Jolene í karíókí-brúðkaupsveislunni ógurlegu sem leysir þriðja þátt Antons af hólmi. Af lykilefni leikritsins dettur mér bara í hug þrennt sem fer þannig forgörðum að ég sakna þess: drápið á mávinum fellur klaufalega milli skips og bryggju, sjálfsmorðstilraun Konstantíns/Konna hverfur úr sögunni og þegar kemur að hinum alvöruþrungna lokakafla reynist ærustan fram að honum ekki hafa búið til næga innistæðu fyrir því drama öllu. Snjallt samt að kalla Guðrúnu S. Gísladóttur til til að sýna okkur hina lífs- og lífsreyndu/þreyttu Nínu.

Á móti fáum við síðan t.d. algerlega stórkostlega einræðu rithöfundarins, frábærlega flutta af Birni Thors sem var magnaður sem rithöfundurinn BT/Trígorín og óborganlega tilvísun í Brúðuheimilið frá stúlkunni með leikkomudraumana, einnig glæsilega gert hjá Þuríði Blæ Jóhannsdóttur sem sýndi okkur villta og sannfærandi Nínu. Já og brot úr Hamlet frá Halldóru Geirharðsdóttur sem átti örugglega fyrst og fremst að vera fyndið en var óvart bara stórkostlegt. Leikkonan Írína í sjálfhverfu sinni og fölnandi töfrum var glæsilega teiknuð hjá Halldóru.

Stóra snilldin er þessi: hvað öll nálgun sýningarinnar, og frelsið sem staðfærslan skapar, hefur leyst mikinn sköpunarkraft úr læðingi hjá leikhópnum. Sú alþekkta aukainnspýting sem fæst við það að spila á heimavelli sannast hér. Mikið varð þetta fólk allt trúverðugt og dásamlegt og hryllilegt! Og kannski fyrst og fremst – en ekki bara – fyndið af því það er satt.

Ég verð að staldra við Hilmi Snæ Guðnason. Læknirinn Dóri/Dorn er ekki aðalhlutverkið en frammistaða Hilmis fer nálægt því að færa hann þangað. Sem er skemmtilegt, þar sem eitt af því sem skilar áhrifunum er hvernig „stórleikarablærinn“ sem mér hefur þótt vera að setjast á leik hans undanfarið er hér víðsfjarri. Ætli samtal hans og Konna/Konstantíns í fyrsta þætti, þar sem nettfullur og lífsleiður læknirinn reynir að segja vonsvikinni listaspírunni hvað misheppnaði gjörningurinn snart hann djúpt, sé ekki bara mitt uppáhaldsatriði sýningarinnar? Björn Stefánsson var sömuleiðis áhrifaríkur Konni og mikið var nú gaman þegar hann fór hamförum á trommurnar.

Það er mikill kraftur, mest kómískur en ekki bara, í þeim Hilmari Guðjónssyni og Þórunni Örnu Kristjánsdóttur sem hið ólánlega par Símon/Medvedénkó og María/Masja. Og það gleður mann að sjá þroskaða leikara leysast úr læðingi í sýningum sem fyrirfram virðast ekki innan þægindarammans – Pétur er ekki stór rulla og sennilega einhverskonar sambræðsla en útkoman er eitt það fallegasta sem ég man eftir að hafa séð Jóhann Sigurðarson gera. Katla Margrét Þorgeirdóttir fær sömuleiðis lítið að moða úr sem sambrædd persóna staðarhaldara en er aldrei nema stórfín.

Waraporn Chanse á svo næstum þögult hlutverk undir lokin, þegar Dr. Dóri hefur loksins eignast konu, og skilar því vel. Nákvæmlega hvers vegna hún fær ekki klausu um sig í veglegri leikskrá sýningarinnar verða ritstjórar hennar að útskýra.

Umgjörð Zone Philström, Filippíu Elísdóttur, Björns Bergsteins Guðmundssonar, Gísla Galdurs Þorgeirssonar og fleira fólks þjónar sínu hlutverki aldrei minna en vel. Galdurinn – það sem gerir þessa brjáluðu sýningu og djörfu tilraun að svona vel heppnuðu leikhúskvöldi – er síðan ósýnilegur í loftinu milli leikaranna á sviðinu og milli orðanna sem dr. Tsjékhov setti á blað í kirsuberjagarðinum í Melíkhóvó veturinn 1895 og þess sem aðstandendur sýningarinnar sóttu í þau í Reykjavík haustið 2015.