miðvikudagur, febrúar 24, 2016

Illska

Leikgerð Óskabarna ógæfunnar á samnefndri skáldsögu Eiríks Arnar Norðdahl. Leikstjórn: Vignir Rafn Valþórsson. Sviðshreyfingar: Brogan Davison. Leikmynd: Brynja Björnsdóttir. Búningar:Guðmundur Jörundsson. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Myndband: Frosti Jón Runólfsson. Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson. Leikarar: Hannes Óli Ágústsson, Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn ásamt Ungliðahreyfingu ógæfunnar sem í voru Andrea Vilhjálmsdóttir, Embla Huld Þorleifsdóttir, Fannar Arnarsson, Hildur Ýr Jónsdóttir, Jónas Alfred Birkisson, Telma Huld Jóhannesdóttir og Vilhelm Þór Neto. Frumsýning á Litla sviði Borgarleikhússins fimmtudaginn 18. febrúar 2016.

Á valdi sögunnar

Þegar leikgera á skáldsögu af stærðargráðu Illsku eftir Eirík Örn Norðdahl eru ýmsar leiðir færar. Hin „klassíska“ nálgun, sem lengi var einráð í hinum stóra og umdeilda heimi íslenskra skáldsagnasviðsetninga, hefði flæmst um víðan völl í humátt á eftir höfundinum, sýnt okkur fjöldamorð á gyðingum í Litháen, gagnkvæmar nauðganir á sófum á Selfossi og húsbruna, einelti og pólitík á Ísafirði. Ótal persónur hefðu fengið mynd og mál. Og þegar upp hefði verið staðið hefði bókin verið betri.
Hún er reyndar líka betri en sýningin sem Óskabörn ógæfunnar hafa unnið upp úr henni. Það skiptir samt minna máli en hitt, hvað þetta tiltekna listaverk sem er til sýnis á Litla sviði Borgarleikhússins er að reyna að gera og hvernig það tekst upp á eigin spýtur.

Mögulega hafa efnahagslegar ástæður tekið sumar grunnákvarðanirnar fyrir þau, en ég hallast að því að Vigni Rafni Valþórssyni og hans fólki hafi tekist vel bærilega að sækja í söguna það sem best hentar sem hráefni fyrir leikhús: hvernig náin samskipti fólks afhjúpa persónuleika þess og hin flóknu og gagnvirku tengsl tilfinninga og hvata einstaklinganna við samfélagið og það sem Eiríkur Örn kallar svo hnyttilega „skriðþunga mannkynssögunnar“.

Hafi ætlunin með sýningunni verið að segja eitthvað mikilvægt um uppgang fasisma og kynþáttahyggju og tengsl þessara þjóðfélagsstrauma við hjólför mannkynssögunnar sem við komumst ekki úr þá hefur það ekki alveg tekist. Sumt í innihaldi hennar og margt í myndmáli bendir til þessa. En það er einfaldlega of einfalt – of ódýrt – að veifa hakakrossum og íslenska fánanum í bland og blasta „Ísland er land þitt“. Málið er flóknara en svo. Til að rannsaka það er bókin betri.

Leikhúsið er á hinn bóginn miklu betra í að fást við annarskonar flækjur. Þar sem það þarf ekki að einfalda neitt. Með því að einbeita sér nokkuð skilmerkilega að hinu þríhliða ástar- og valdatafli í hjarta sögunnar ná Óskabörnin vopnum sínum. Helstu fjöldamorðum, nauðgunartilraunum og æskuáföllum eru gerð skil í frásögnum en atburðarás sýningarinnar hverfist um persónurnar þrjár: Agnesi, Ómar og Arnór.

Þar veltur allt á framlagi leikaranna. Þau Hannes Óli Ágústson, Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson eru öll eins og fimir fiskar í vatni í krefjandi stíl sýningarinnar þar sem skiptast á sálfræðilega raunsæ atriði, háðsk uppbrot á þeim og bein ávörp til áhorfenda, í og úr „karakter“. Engan stuðning að sækja í sáraeinfalda, óræða en snjalla og þénuga leikmynd Brynju Björnsdóttur. Þau gerðu sér síðan mikinn mat úr þeim fáu en vel völdu leikmunum sem þau fengu í hendurnar. Skyndibitamat og kynlífsleikfangi, sem gegnir skemmtilega „gamaldags“ hlutverki í að skapa hvörfin í verkinu.

Öll vinna leikararnir skýrar og sannfærandi persónur úr efniviðnum. Lentu reyndar á fyrstu mínútunum í smá textaþæfingi, en komust fljótlega upp úr honum.

Sólveg gefur hinni mergjuðu Agnesi mjög sannfærandi mynd og ber léttilega þá byrði að vera dramatísk þungamiðja sýningarinnar. Sólveigu þarf leikhúsið að nýta meira og betur. Hannes Óli fyndinn og sannur sem hinn ráðvillti meðaljón Ómar og Sveinn Ólafur bæði ógnvekjandi og aumkunarverður í hlutverki nasistans Arnórs, en fyndinn, og líka pínu ógnvekjandi, sem einhverskonar sögumaður og málpípa höfundar, með hinn einkennandi kúluhatt í anda Eiríks Arnar. Öllu verri hugmynd þótti mér sú að kynna Arnór til sögunnar í SS-síðfrakka. Það, eins og reyndar allar vísanir sýningarinnar í myndmál nasismans, er of beinskeytt, of afgreiðandi. En svo fer Arnór úr frakkanum og við þurfum að sitja undir ógeðslegum hugmyndum hans, fást við þær og fordæma.

Samt ekki alveg án forgjafar, sem sýnir á skýran hátt eðlismun bókar og sviðsverks. Ég var búinn að steingleyma kækjum Arnórs sem sagt er frá í bókinni. Á sviði verða þeir á hinn bóginn að algeru aðalatriði, lita alla framgöngu persónunnar og, þó ljótt sé að segja það, ómerkja að vissu leyti það sem Arnór hefur fram að færa. Það er auðvitað ómaksins vert að skoða þau fordómakenndu viðbrögð sín, en ég á bágt með að ímynda mér að það hafi verið ætlunin. Sveinn Ólafur fór létt með að leika með og í gegnum geiflurnar, en fór kannski einu skrefi of nálægt skopfærslu með þeim. Aftur spurning um hvaða áhrifum átti að ná.

Hópur aukaleikara var fumlaus í sínum fánaburði og þó hinn óopinberi þjóðsöngur Magnúsar Þórs Sigmundssonar og Margrétar Jónsdóttur hafi farið aðeins yfir klisjuþolmörk mín þá var tónlistarvalið að öðru leyti ísmeygilega snjallt og átti stóran þátt í andblæ sýningarinnar, „íslenskaði“ hið alþjóðlega þjóðrembuvandamál á snjallan hátt.

Almennt má segja að sýningin gefi forvitnilega innsýn í muninn á útkomunni þegar rithöfundi er mikið niðri fyrir við skrifborð sitt og þegar leikhúsfólk vill fyrir alla muni ná kröftugum áhrifum. Hvað leikhúsið gerir vel og hvar bækur eru betri. Á eigin spýtur er leiksýningin Illska fyndin, beitt og ágætlega vel heppnuð skoðun á tilfinningaglímu þriggja ráðvilltra ungra Íslendinga og tilraunum þeirra til að sjá til sólar framhjá þoturákum mannkynssögunnar.