mánudagur, apríl 11, 2016

Góði dátinn Švejk og Hašek vinur hans

Höfundur: Karl Ágúst Úlfsson (byggt á Ævintýrum góða dátans Švejk í heimsstyrjöldinni eftir Jaroslav Hašek í þýðingu Karls Ísfeld og The Bad Bohemian eftir Sir Cecil Parrott). Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir. Leikmynd og búningar: Guðrún Öyahals. Lýsing: Hermann Björnsson. Tónlist: Eyvindur Karlsson. Leikarar: Hannes Óli Ágústsson, Karl Ágúst Úlfsson, Þórunn Lárusdóttir, Eyvindur Karlsson og Lárus Vilhjálmsson. Frumsýning í Gaflaraleikhúsinu sunnudaginn 10. apríl 2016.


Agi og anarkismi 


Það er margt við Góða dátann Švejk sem skiljanlega heillar leikhúsfólk. Litríkt galleríið, léttleikinn í nálguninni á einhverja mestu sturlun mannkynssögunnar. Makalaus fyndnin. Vel má skrifa undir mikilvægi íslensku þýðingarinnar fyrir stöðu Švejks á Íslandi, sem Karl Ágúst Úlfsson gerir að umtalsefni í leikskrá Góða dátans Švejk og Hašeks vinar hans. Heyrt hef ég þá kenningu að sviplítil ensk þýðing eigi sinn þátt í að þetta höfuðverk heimsbókmenntanna hefur aldrei náð viðlíka flugi í þeim heimi og hér hjá okkur, og var þó sir Cecil Parrott örugglega meiri tékkneskumaður en Karl Ísfeld.

Sumt er þó leikhúsinu mótdrægt í Góða dátanum. Það hefur snjóað hressilega yfir hina sögulegu atburði síðan Gavrilo Princip skaut Franz Ferdinand. Innbyrðis þjóðernistogstreitur Austurrísk-Ungverska keisaradæmisins og staða Tékka í því er okkur flestum lokuð bók. Mestu munar þó um hina ódramatísku aðalpersónu. Ferðalag Švejks um söguna er næsta áreynslulaust. Ekkert gerist í pollstöðugu sálarlífi einfeldningsins, hvað sem á dynur. Í þá afstöðu sækir sagan reyndar að miklu leyti áhrifamátt sinn en ekki er það beinlínis uppskrift að drama.

Á móti kemur auðvitað makalaus mannlýsingin og fárið sem persónuleiki Švejks setur af stað í umhverfi sínu. Og endalausar sögurnar.

Karl Ágúst velur að tefla dramatísku lífshlaupi höfundarins gegn friðsælli nærveru hundasalans fávísa. Ævi Hašeks býður að sönnu upp á meðlíðan og skelfingu og við hittum hann fyrir þar sem áfengisknúið glóruleysi hefur tekið af honum öll ráð og hann bunar út úr sér sögum í kappi við klukku og kröfuhafa undir vökulu auga langþjáðar en ástríkrar eiginkonu.

Vel hefur tekist til með tæknilega samfléttun sagnanna. Sögusviðin renna skemmtilega saman. Eftirminnilegt t.d. þegar Karl Ágúst deyr brennivínsdauða sem herpresturinn Otto Katz en rís upp sem Hašek. Hitt er sýningunni nokkuð mótdrægt að hliðstæður og andstæður raunveruleikans og skáldverksins nýtast ekki nægjanlega til að dýpka skilning áhorfandans eða auka honum meðlíðan. Fyrir vikið er upplifunin frekar að hér sé of mikið efni undir sem varla næst nema að tæpa á. Eru þó sögur þeirra Švejks og Hašeks hvor um sig ærin gullakista. Þarna hallar heldur á Hašek. Bæði er Švejk auðvitað ástsælli og hefur þokka skáldskaparins fram yfir höfund sins, og svo hefur alvaran tilhneigingu til að fara halloka fyrir galskapnum, þarf meiri tíma og andrými til að þroskast og springa út í huga áhorfandans.

Höfundurinn fer sjálfur með hlutverk höfundarins. Kraftur og sviðsþokki einkennir framgöngu Karls Ágústs. Það jaðrar reyndar við að hann geri hinn fordrukkna og feiga Hašek of kvikan og bjartan lengst af – aftur vandinn við að koma mikilli sögu fyrir innan leiksýningarlengdar. Þórunn Lárusdóttir nær í skottið á harmi eiginkonunnar Shuru og skapar auk þess skemmtilega gróteska kalla, þeirra kostulegastan Grünstein skrópagemlingalækni. Karl bregður sér líka í ýmissa kvikinda líki og fer á kostum sem fyllibyttan Katz, sérstaklega líkamlega – textameðferðin fór alveg að mörkum hins greinanlega á verstu drykkjustundunum.

Hannes Óli Ágústsson hefur óneitanlega margt með sér í hlutverki Švejks. Ekki síst útlitið, Hannes gæti sem best hafa verið sjálfur teiknaður af Josef Lada. Hann gerir þetta líka fjári vel, en ekki fannst mér það góð ákvörðun að búa til ýkta „kjánarödd“ fyrir Švejk að tala með. Þrengir túlkunarmöguleika leikarans og verður dálítið þreytandi til lengdar.

Eyvindur Karlsson axlar sinn hlutverkaskerf líka. Bitastæðast þeirra er Lúkas höfuðsmaður sem verður kannski ekki sú skýra andstæða Švejks sem maður á að venjast, en fyndnin í því hvernig þjónninn reynir á þolrif húsbóndans kemst vel til skila. Annars er Eyvindur aðallega í hlutverki tónlistarflytjanda og -höfundar og tekst þar vel upp. Lögin með viðeigandi Mið-Evrópublæ og fara svo í gegnum hakkavél úr eldhúsi Tom Waits. Leikhópurinn allur grípur í hljóðfæri, stundum meira af vilja en mætti og fer vel á því. Mjög í anda þeirrar óformlegu frásagnarleikhússaðferðar sem Ágústa Skúladóttir vinnur hér með og býr til notalegt samband milli sviðs og salar. Það er lipurð í allri framgöngu og sviðsumferð og möguleikar snoturrar leikmyndar Guðrúnar Öyahals ágætlega nýttir. Búningar Guðrúnar hjálpa til við að aðgreina hinar ótal persónur verksins á einfaldan og skilvirkan hátt, og skilin síðan höfð hæfilega losaraleg sem kemur aldrei að sök.

Kvöldstund með Švejk og Hašek verður aldrei minna en skemmtileg. Það var ánægjulegt að heyra þétt skipaðan salinn hlæja að bröndurum bókarinnar eins og áhorfendur væru að heyra þá í fyrsta sinn. Kannski var það tilfellið, og þá leiðir þessi hlýja og fjöruga sýning fólk vonandi á vit einstakrar bókar.