þriðjudagur, maí 31, 2016

Berlín – leikhús 2016

Stuttir pistlar um nokkrar sýningar sem ég sá í Berlín vorið 2016


CRAVE
Höfundur: Sarah Kane
Leikstjóri: Thomas Ostermaier
Schaubühne 5. maí

Óræðnin er allsráðandi í þessum kvartett Söruh Kane. Við vitum ekki hvaða fólk þetta er og mest lítið um afstöðu þess til hvers annars. Skynjum þó þörfina fyrir að nálgast, elska, og að eitthvað hræðilegt hefur gerst. Ef vel á að vera þurfum við að meðtaka textann samtímis á þrjá vegu: sem díalóg, sem samfléttuð eintöl og sem tjáningu einnar raddar, eins og persónurnar séu í raun ein, eða þá að höfundurinn tali við okkur í gegnum þær allar. Þetta er sjálfsagt mál þegar maður hlustar á strengjakvartett, en þrautin þyngri í leikhúsi. Og nánast ógerningur ef leikið er á þýsku. Ekki síst þegar uppfærslan er jafn naumhyggjuleg og þessi.

Fjórir leikarar, hver með sitt afmarkaða rými, sinn stól, sinn mæk. Engin snerting, varla nokkur samskipti nema í gegnum textann. Samt fjári flott, þökk sé afbragðflutnings, afbragðsleiks Falks Rockstroh, Thomasar Dannemann, Cristinar König og Michaelu Steigar, að ógleymdri nostursamlegri leikstjórn, sem verður að fá sérstakt hrós fyrir fínstillingu samleiksins sem var nákvæmur með afbrigðum. Fallegt, og pínu óvenjulegt, traust á mætti textans sem skilar sterkri upplifun þrátt fyrir allt.


DIE BRÜDER KARAMAZOV
Höfundur: Frank Castorf eftir sögu Fjodors Dostojevskíjs
Leikstjóri: Frank Castorf
Volksbühne 6. maí

Þessi sýning skorar hátt á ansi mörgum kvörðum í mínum leikhúsreynslubanka. Ein sú skrítnasta, ein sú trylltasta, ein sú óþægilegasta og ein sú þægilegasta. Ekki ein sú lengsta samt. Heldur einfaldega SÚ lengsta. Vel rúmir sex tímar. Eitt hlé.

Þægindin/óþægindin fólust í óvenjulegu áhorfendarými. Í stað stóla hafði verið komið fyrir röðum af grjónapungssófum, sem hver um sig rúmaði svona 5–6 manns. Það er vægast sagt erfitt fyrir svoleiðis hóp ókunnugra að koma sér fyrir í þess konar útbúnaði þannig að vel fari um alla, enda fór ekki vel um alla. Hallandi gólf hjálpar heldur ekkert, sætin áttu það til að lúta kröfum þyngdaraflsins. Eftir því sem leið á sýninguna og áhorfendum fækkaði skánaði ástandið og undir lokin hefði sem best verið hægt að blunda. En það er til marks um áhrifamátt sjónarspilsins að það gerðist ekki.

Ein ástæða þess að áhorfendum fækkaði til muna (fyrir utan hinar augljósu: lengd, óþægindi og skrítilegheit) er sú að ekki þurfti að taka tillit til tilfinninga leikhópsins. Í um 90% leiktímans (ríflega fimm tíma) var nefnilega enginn á sviðinu. Sá hluti atburðarásarinnar fór fram í hinum ýmsu afkimum utan þess. Í bönju í tréskúr á sviðinu, í reisulegu húsi hins feiga ættföður Fjodors sem einnig stóð þar. Eða dyngju Grúsjenku við hlið ljósabúrsins. Uppi á þaki leikhússins (þaðan sem okkur barst sagan fræga um rannsóknarréttinn og Krist) eða djúpt í iðrum þess. Öllu þessu varpað á tjald á sviðinu. Tveir kamerumenn og hljóðmaður eltu leikarana um allt og sáu til þess að við gætum fylgst með. Gekk ótrúlega snurðulaust – þýska skipulagsvitið í stuði.

Þetta var í fyrstu ansi magnað. Eftir langt upphafsatriði, frekar dauft og sérkennilega staðsett á sviðinu sjálfu, hlupu nokkrar persónurnar út og skyndilega brirtust þær á tjaldinu og við vorum komin í kames hins deyjandi munks sem Aljosja K. er lærisveinn hjá. Magískt. En fljótlega var búið að kynna næstum öll rýmin til sögunnar og þá fór nýjabrumið af effektinum – hin þröngu „útrými“ fóru að hefta frekar en fjölga möguleikum. Langar – laaaangar – tveggja manna samtalssenur í litlum herbergjum, varpað á (aðeins of lítið) tjald í þokkalegum heimavídeógæðum í mynd og hljóði er heldur fábrotin leikhúsfæða. Þá sjaldan leikarar létu sjá sig í salnum voru senurnar iðulega sérkennilega staðsettar þar líka. Ýmist til hliðar við áhorfendur í hvarfi frá mörgum þeirra, eða þá buslandi í stórri tjörn við stofuglugga Fjodors aftarlega á sviðinu. Það verður víst að vera vatn í svona sýningum. Meira að segja byltingar- og nýjabrumsmenn verða að hafa sín haldreipi.

Annað sem spilaði inn í fábreytileikann var hin ótrúlega mónótóni textaflutningur. Allt á 100 km hraða og í mígandi botni (öskri) allan tímann. Var ég búinn að segja ykkur hvað allur tíminn var langur?

Eiginlega stórmerkilegt að þetta væri ekki leiðinlegra en það þó var. Íhugaði aldrei alvarlega að eftirláta sessunautum mínum letihauginn. Plús fær Castorf fyrir að nota The Number of the Beast og Hell’s Bells. Ótrúlega banal hugmyndir, en innkomur Maiden og AC/DC glöddu þennan gamla og rasssára málmhaus á hárréttum tímum.

Grunnframvindan skautaði ekki stórkostlega framhjá sögu Dostojevsíjs, það best ég gat séð, þó textinn væri útataður í nútímavísunum. Eftirminnilegt þegar Ívan (eða var það Dimití?) reif niður risastórt veggpjald með ungum og fallegum Stalín af veggnum hjá Grúsjenku og hengdi á bönjuvegginn. Af leikurum situr kannski Sophie Rois eftir í huganum sem Smerdjakov, og það var eitthvað magnað líka við Daniel Zillmann sem Aljosja, þó heldur þætti mér sá hálfheilagi maður öskra mikið. En það er trúlega bara íhaldskurfurinn í mér. Mér fannst hinsvegar gaman hvað Daniel er feitur – kannski af því það passaði ekki við mína fyrirframmynd af örverpi Karamazov-klansins, og heilögum rússneskum einfeldningum almennt.

Post-Dramatic páfinn Frank Castorf hefur verið leikhússtjóri og skapandi leiðarljós Volksbühne frá 1992 (ætli heyrðust ekki hljóð úr horni ef íslenskir leikhússtjórar vermdu sæti sín svo lengi), en nú er hann að hætta. Enda ærið verk að baki: sumir myndu segja að vestrænt leikhús verði aldrei samt. En samt. Hvað svo sem segja má um fagurfræði eftirdramatíkurinnar þá á ég erfitt með að sjá hana úthýsa algerlega þeim eiginleikum sem „hefðin“ hefur þróað og fágað. Enda virðast felast ansi miklar takmarkanir í því frelsi sem skapast þegar flestum meðulum og áhrifaverkfærum formsins er kastað fyrir róða. Fyrir mig er ánægjan af að horfa á svonaslags sýningar ekki síst að skoða þetta.



EIN VOLKSFEIND
Höfundur: Henrik Ibsen í þýðingu og aðlögun Thomas Ostermeier og Florian Borchmeyer
Leikstjóri: Thomas Ostermeier
Schaubühne 11. maí

Í atvinnumannauppfærslum á Þjóðníðingi í kapítalískum leikhúsum (þar sem fólki eru borguð laun) er stóra spurningin alltaf: hvernig leysa þau borgarafundinn í fjórða þætti? Hér var svarið: leysa hann upp. Engir aukaleikarar til að úthrópa dr. Stockmann, en áhorfendur dregnir inn í debattið með þvi að umskrifa ræðu doktorsins útfrá nútimanum og gefa orðið svo laust. Það virkaði svona næstum því – smá umræður, aðallega um að það hafi verið óviðurkvæmilegt hjá Aslaksen að draga PEGIDA inn í málið. Og svo grýttu Hovstad og Billing doktorinn með paintballkúlum.

Þetta var svosem allt í lagi, jafnaðist ekki á við snilldarlega skrifað atriði Ibsens samt og undirbyggði tæpast framhaldið. Sem var reyndar enn róttækara frávik frá texta og plotti norska skeggapans. Fyrir nokkrum árum lét Ostermaier Nóru skjóta Helmer í stað þess að ganga út. Hér heldur hann því opnu að hr. og frú Stockmann gangi að djöfullegu tilboði pabba hennar, selji sannfæringu sína og græði feitt á öllu saman. Alls ekki galið. Það er eitthvað pínu þvingað við endinn hjá Henrik, þennan götustrákaskóla sem hann og Petra ætla að stofna. Farið hefur fé betra.

Að öðru leyti bara bísna gott. Kraftmikið og og vel á svið sett. Leikarar ágætir, bestir Christoph Gawenda sem Stockmann, David Ruland með góðar kómískar tæmingar sem Aslaksen og Thomas Bading, sem var verulega krípí Morten Kiil (og minnti okkur Silju á Derrick, sem er alltaf plús). Stockmannhjónin samt full-ung og alveg á mörkunum að gangverk leikritsins þoli flutning til nútímans, þó boðskapurinn sé brýnn nú sem endranær.


OTHELLO
Höfundur: Soeren Voima (með hliðsjón af verki Shakespeares)
Leikstjóri: Christian Weise
Gorki 12. maí

Tiu ráð til listrænna stjórnenda sýningarinnar:


1
Commedia Dell’arte er lúmskt erfið list. Ef þið viljið nota hana, veriði viss um að hafa vald á henni, annars verðiði bara kjánaleg.

2
Trúðleikur er lúmsk erfið list (sjá ráð 1)

3
Að leika sér með uppbrot á borð við að „detta úr karakter” er ódýrt trikk. Ekki ofnota, og bara ekki nota nema þið séuð alveg viss um til hvers.

4
Stílfærsla er almennt alger bastarður í leikhúsi. Verið ALVEG viss um hvað þið ætlið ykkur með hana áður en þið „farið þangað“.

5
Við erum að tala um Óþelló hér. Þá tragedíu Shakespeares sem helst snýst um sálarlífsflækjur og hvunndagsraunir.  Ekki eitthvað Heinonnínonní-hoppoghí. Skoðið 1–4 í því ljósi sérstaklega.

6
Ef Jagó er göldróttur og getur slökkt og kveikt á öðrum persónum, fer þá ekki öll dramatísk spenna út um gluggann? Ræðið.

7
All-male casting hefur sínar sögulegu rætur og þýðingu. Ef þið viljið fara þá leið, verið sæmilega viss um hvað þið meinið með því. Annars er bara eins og stelpurnar hafi ekki viljað leika við ykkur.

8
Allt sem við sjáum hefur merkingu, er skilið sem „meint“. Líka þegar tyrkneski leikarinn sem leikur Óþelló talar um sig sem svertingja og leikarinn sem leikur Emilíu er svartur. Verið klár á því hvað þið meinið, og komið þeirri meiningu (helst) yfir sviðsbrúnina.

9
Ef ykkur þykir verkið krefjast þess, þegar vel er liðið á, að skipta stund og stund úr flippgírnum og ná  í skottið á „alvöru“ tilfinningum, ekki verða hissa ef áhorfendur fylgja ykkur ekki eftir.

10
Ef ykkur finnst Óþelló ekki fjalla nógu mikið um kynþáttamál, elsku finnið frekar annað leikrit sem gerir það, frekar en að smyrja þunnri PC-froðu yfir afbrýðisækódrama Shakespeares. Viss um að þið finnið hentug handrit í barnaleikritadeildinni.

PS: Sviðsgrafíkin var flott og Thomas Wodianka gæti alveg sómt sér sem Jagó í uppfærslu á Óþelló. Um aðra er ekki gott að segja.

PPS: Ég var hissa og glaður að sjá og heyra hvað flestir áhorfenda voru hrifnir og fögnuðu kröftuglega. Að mér læddist sá illi grunur að ég væri bara of vitlaus. En svo bráði af mér og þingeyingurinn tók völdin aftur.




HUNDEHERTZ
Höfundur: Mikhaíl Búlgakov
Leikstjóri: Lilja Rupprecht
Deutsches Theater 14. maí

Sko. Mér finnst það sem helst er að græða á þessari litlu satíru Búlgakovs vera hvernig blanda af eðli hunds og glæpamanns/vesalings kemur sér vel í framapoti í spilltu og grimmu samfélagi. Þetta er alveg óvitlaus efniviður fyrir svið. Leikhúsútgáfa verður að forsendum mínum gefnum að ganga fyrst og síðast út á skýra og fljótandi statusvinnu. Má vera groddaleg (ER groddaleg), en verður að vera þarna. Lilja Rupprecht og félagar hennar eru ósammála mér en það sem þau bjóða upp á í staðinn sannfærði mig ekki. Ekki beinlínis lélegt, en alveg óþarft.



NATHAN DER WEISE

Höfundur: Gotthold Ephrahim Lessing
Leikstjóri: Andreas Krigenburg
Deutches Theater 15. maí

Þessari hafði ég kviðið. Meira að segja áður en ég las þetta átjándualdarleikrit og komst að því að það er nú heldur þunnur og skrítinn þrettándi. Grunaði að þarna myndi hefðin setjast á leikhúsgesti af fullum þýskum þunga og hálfdrepa mann úr leiðindum undir súrkáls- og currywurstbólgnum rassi sínum. Eða þá að aðstandendur myndu renna verkinu þannig í gegnum tækin að út kæmi bragðlaus og næringarsnauð póstdramatísk kæfa.

Þeim mun glaðari varð ég strax á fyrstu mínútunum þegar ljóst var hvernig flippkisarnir í Deutches Theater ætluðu að tækla þessa gölluðu klassík. Með glampa í auga og írónískri einlægni trúðsins. Aðferð sem þau höfðu fullkomlega á valdi sínu – lykilatriði (sjá Óþelló).

 Allt í einu varð ódramatísk flatneskjan hjá Lessing algerlega viðeigandi, af því bernskur búningurinn vann með henni en ekki á móti. Svona á að gera þetta.

Að auki var þetta frábærlega gert á öllum póstum. Þénug og falleg leikmyndin, dittó hljóðmyndin (fyrsta sýningin þar sem einhver með stjórn á útlimunum hélt um Volume-takkann), glæsilegt útlit leikaranna (grunnbúningar, aukaföt til að aðgreina persónur og gríðarlegt magn af leir) og svo fyrrnefnt leikglatt öryggi leikaranna. Gott ef andi þeirrar góðu konu Ágústu Skúladóttur sveif ekki yfir vötnum þarna í Jórsalaborg.

Óvæntur hápunktur á hárréttum stað í þessari heimasmíðuðu leiklistarhátíð.