föstudagur, janúar 06, 2017

Journey to the Center of the Earth

Eftir Kára Viðarsson og leikhópinn, en handritið er innblásið af bók Jules Verne, Voyage au centre de la Terre. Leikstjórn: Árni Kristjánsson. Leikmynd og búningar: Francesca Lombardi. Dansar: Jordine Cornish. Hljóðmynd: Ragnar Ingi Hrafnkelsson. Lýsing: Friðþjófur Þorsteinsson. Myndband: Rhys Votano Tónlistarútsetningar: Lilja Dögg Gunnarsdóttir. Tæknimaður: Lucas Rastoll. Leikarar: Halldóra Unnarsdóttir, Kári Viðarsson, Smári Gunnarsson, Stephanie Lewis, Anja Jóhannsdóttir, Birgitta Sveinsdóttir, Björn Óli Snorrason, Dagny Gunnsteinsdóttir, Davíð Hafþórsson, Eir Fannarsdóttir, Jóhanna Guðjónsdóttir, Hanna Guðnadóttir, Helena Hafþórsdóttir, Hjörtur Sigurðsson, Lena Örvardóttir, Lovísa Traustadóttir, Margrét Gísladóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Selma Emilsdóttir, Stefanía Jóhannsdóttir og Sylvía Scheving. Frumsýning á Rifi 30. desember 2016, en rýnt í sýningu 3. janúar 2017.

Að leiðarlokum

„Samkvæmt vísindakenningum?“ svaraði prófessorinn og varð sposkur á svipinn. „Æ! Árans kenningarnar! Mikið eiga þær eftir að trufla okkur, blessaðar kenningarnar!“

Afstaða prófessors Lidenbrock, annarrar aðalpersónu Ferðarinnar að miðju jarðar, til vísindanna er að sönnu aðdáunarverð. Reyndar er ást hans á mistökum og skilningur á nauðsyn opins huga grunnafstaða vísindamannsins þó dagsdaglega mæti okkur oftar státin vissa hefðarinnar og þrautprófaðra kenninga sem hefur steingerst í tækni með tilheyrandi hroka. En Lidenbrock er hvergi smeykur við hina frjálsu leit að sannleikanum. Persóna hans er ásamt ólíkindalegum söguþræðinum það besta við bók Jules Verne.

Það er freistandi að tengja þrjóska víðsýni og hugrakka forvitni prófessorsins við nálgun leiðtogans Kára Viðarssonar og leikstjórans Árna Kristjánssonar á þessa gömlu sögu. Hér tekur fáliðað og tæknilega frumstætt leikhús utan alfaraleiðar til meðferðar efni sem við fyrstu sýn virðist betur komið í höndum sterkefnaðra brellumeistara kvikmyndaiðnaðarins. En eins og hinir reynslulausu þýsku bókaormar Vernes leika Kári og liðsmenn hans á örlögin og komast á leiðarenda, ná tökum á áhorfendum sínum og fara með þá þangað sem þá lystir.

Til þess er öllum brögðum beitt. Hugkvæmni fátæka leikhússins er hér á fullri ferð, með stólkollum, skjávörpum, vatnsbyssum, hoppuköstulum og hlaupabrettum. Álpappír, svampi og bylgjupappa. Áhorfendur eru meira að segja hálf-gabbaðir til að afþakka konfetti-sprengjur í útsmoginni atkvæðagreiðslu áður en sýningin hefst. Svo þegar ein veimiltítuleg bomba springur samt undir lokin er eins og okkur hafi verið gefin gjöf.

Þannig virkar reyndar öll sýningin. Þar skiptir miklu návist barnahópsins sem kemur til liðs við Frystiklefafólkið af öllu nesinu; leikur, dansar og syngur af öryggi og fagmennsku, eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Fátæka leikhúsið á Rifi þykist líka vera fátækt í anda. Leikstíll og nálgun öll er örugglega úthugsuð til að slá vopn úr höndum þeirra sem vilja verjast töfrunum, sem ætti að vera fremur auðvelt ef áhorfendur eru ekki með í leiknum. En hinn bernski stíll, sem minnir ýmist á skólaleikrit, teiknimyndir eða ódýrustu B-myndir að hætti Ed Wood, dregur áhorfandann inn. Þar leikur líka hlutverk sú ákvörðun að leika sýninguna á ensku. Auðvitað orkar það að ýmsu leyti tvímælis í íslenskri sýningu upp úr franskri sögu af tveimur Þjóðverjum. Hægðarleikur hefði verið fyrir Kára og Smára Gunnarsson, sem fara með bróðurpart textans, að leika á sínu móðurmáli, en enskan býr til skemmtilega fjarlægð, vissan stirðleika sem vinnur með annarri aðferðafræði sýningarinnar.

Fyrir utan að undirstrika að þetta er þrátt fyrir allt ekki barnasýning. Óstytt og óbrengluð þýðing upprunalegu sögunnar frá 1864 kom loksins út á íslensku 2013 og er heldur ekki höfð í barnadeildum bókasafnanna innan um eldri gerðir og aðrar bækur höfundar. Of mikil jarðfræði sennilega. Hún er blessunarlega ekki með í leikhandriti Kára. Þaðan hefur hann fyrst og fremst beinagrind atburðarásarinnar og svo aðalpersónurnar tvær, prófessorinn og Alex, hinn unga frænda hans, sem deilir alls ekki ævintýraþrá þess gamla, en hefur heldur ekki bein í nefinu til að segja stopp.

Frændinn er sögumaður bókarinnar og hverfur þar fyrir vikið nokkuð í skugga Lidenbrocks og ólíkinda atburðarásarinnar. Hér fær hann heldur betur uppreisn æru. Smári skapar aðlaðandi kómíska persónu, virkar á áhorfandann eins og þessi elskulegi en óheppni klaufabárður lifandi kominn. Kári er síðan orkustöð sýningarinnar sem prófessorinn. Hægt væri að hugsa sér meira afgerandi persónusköpun, meiri sérkenni eða sérvisku. En sem „primus motor“ jafnast enginn á við Kára. Þriðja aðalhjól vagnsins er síðan Stephanie Lewis sem bregður sér í ýmis hlutverk, þar á meðal sjálfrar Anitu Briem, og gerir það vel. Enn verður að nefna Halldóru Unnarsdóttur í þöglu hlutverki íslenska leiðsögumannsins, sem minnti einna helst á neyðarkall Landsbjargar í útliti og stóð vaktina af trúmennsku.

Umgjörð sýningarinnar er hugkvæm. Hún er verk hinnar ítölsku Fransescu Lombardi sem er greinilega bæði hugmyndarík og handlagin. Sérstaka ánægju vöktu fagrir og óvenjulegir smíðisgripir úr bylgjupappa í upphafi sýningarinnar. Önnur umgjörð; hreyfimyndir, tónlist og ljós, þjónar öll sínum úthugsaða tilgangi. Þetta er úthugsuð sýning þó óreiðan sé þó nokkur og sundurgerð í útliti og aðferðum einkenni hana.

Journey to the Center of the Earth verður síðasta sýning Kára Viðarssonar í Frystiklefanum á Rifi ef marka má yfirlýsingar. Það er sjónarsviptir að þessari einstöku orkustöð undir Jökli. En öllum leiðöngrum lýkur. Þessum lýkur með hvelli. Blessaðar kenningarnar hafa verið afsannaðar. Enn einu sinni. Allt er hægt.