þriðjudagur, janúar 03, 2017

Salka Valka

Eftir Halldór Laxness í leikgerð Yönu Ross og Sölku Guðmundsdóttur. Leikstjórn: Yana Ross. Leikmynd: Michał Korchowiec. Búningar: Filippía Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Dramatúrg: Salka Guðmundsdóttir. Tónlistarstjórn og hljóðmynd: Baldvin Þór Magnússon. Myndbandshönnun: Algirdas Gradauskas. Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir. Leikarar: Auður Aradóttir, Björn Stefánsson, Guðni Kolbeinsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Halldór Gylfason, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Snær Guðnason, Jóhann Sigurðarson, Júlía Guðrún L. Henje, Sigrún Edda Björnsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins 30. desember 2016.

Sjálfstætt fólk


„Hér er verkfall!“

Ætli einhver hafi látið þessi orð flakka í frystihúsinu á Þingeyri milli jóla og nýárs? Þar sem útgerðarmenn, sem „eiga bara allan fisk hér í firðinum og öll skip“ eins og Bogesen, þrátefla við sjómenn í verkfalli sem bitnar ekki síst á hinum láglaunuðu landverkamönnum. Jafnvel réttlát stríð heimta saklaus fórnarlömb.

Það er skoðunarefni af hverju Salka Valka hefur ekki orðið jafn fjölnota útgangspunktur og stefnuviti í sjálfsmyndarskoðun þjóðarinnar og nágranni hennar úr sveitinni í höfundarverki Laxness. Vafalaust leikur kynferði hetjunnar þar hlutverk. Og svo á sjávarþorpslífið, sem hér er sett undir óviðjafnanlegt smásjárgler og miskunnarlausan spéspegil Halldórs, öllu lágværari lofgjörðarkór, færri nærsýna og rómantíska aðdáendur en sveitamenningin sem fær viðlíka trakteringar í Sjálfstæðu fólki.

Hitt er ljóst að á Íslandi nútímans er endurómur Sölku í Mararbúð enn sterkari en Bjarts í Sumarhúsum. Að frumlesa Sölku Völku í dag skilur mann eftir með þá tilfinningu að þarna fari brýnasta, og alveg mögulega besta, skáldsaga Gljúfrasteinsjöfursins.

Leikgerðir eru ekki það sem þær voru. Við að fletta gömlum leiklistarskrifum verða fljótt fyrir manni nokkuð óþreyjufullar óskir um að höfundar leikgerða (bæði leiktexta og sýninga) sýni meiri djörfung og sjálfstæði í vinnu sinni. Hætti að fletta bókum og reyna að troða eins miklu af efni þeirra og hægt er í þá 2–3 tíma sem til ráðstöfunar eru, eins og leiksýning sé einhverskonar listræn gæsalifur.

Ekki er loku fyrir það skotið að einhverjir sem hafa tjáð slíkar hugmyndir hugsi hið fornkveðna; að gott sé að fara varlega með óskir sínar, þegar þeir horfa á Sölku Völku þeirra Yönu Ross og Sölku Guðmundsdóttur í Borgarleikhúsinu. Þær sækja það í efnisbrunn bókarinnar sem þær telja að eigi erindi við okkur hér, og láta táknmyndir, atburði og fyrirbæri í nútímanum tala við efni sögunnar þannig að allt varpi ljósi hliðstæðna og andstæðna hvað á annað. Láta söguþráð og samhengi sér nokkuð í léttu rúmi liggja. Vinnubrögðin eru afsprengi hinnar ólínulegu dagskrár.

Tekst þetta? Já, eiginlega. Að því gefnu að „heildstæð“ hafi ekki verið ofarlega á áformalista aðstandendanna. Því hér ægir öllu saman: Hér er saga Salvarar Valgerðar og móður hennar í fortíðinni. Og kannski líka stundum í nútíðinni. Hvernig kaupin gerast á eyrinni við Axlarfjörð í saltfiski fyrir stríð og túrisma eftir hrun. Hvernig ástin og valdið stíga sinn dans hvort sem grimmur kapítalismi, bláeygur kommúnismi eða harður valdapíramídi kvikmyndasettsins er dagskipunin. Vel hefði verið hægt að ímynda sér sýningu sem léti sér nægja að flytja söguna í heilu lagi til nútímans og vinna úr henni þar. Eða þá að halda sig alfarið við rammann með kvikmyndagerðarfólkið að gera mynd upp úr bókinni. Þessar leiðir hefðu hvor um sig alveg virkað. Það er svo afgerandi listræn ákvörðun að fara báðar og hvoruga.

Það er líka sundurgerðarbragur á sviðsetningu og leikmáta. Groddaleg og barnaleg skopfærsla er látin í næstu koju við nostursamlegan raunsæisblæ. Og að hætti nútímaleikhússins fáum við líka að sjá leikarana fella allar grímur og mæta okkur sem þeir sjálfir.

Það er kannski ekki alveg satt að segja þetta allt koma heim og saman, en þegar upp er staðið er sýningin áhrifaríkt margflata listaverk sem hreyfir við viðtakandanum og feilskotin gleymast hratt.

Því auðvitað eru feilskot. Það er líka talsverður fórnarkostnaður í nálguninni. Kannski einna helst möguleikar leikendanna á að skapa trúverðugar, þrívíðar persónur með sálrænni rökvísi og samkvæmni, eins og þær sem verða til í huga lesandans við lestur bókarinnar. Þannig þarf Þuríður Blær Jóhannsdóttir að seilast í klisjuskúffuna til að sýna okkur hina þvermóðskufullu ungu Sölku fyrri hlutans, með ygglibrún og hendur á mjöðm sem einu tækin. Þeim mun er afrekið meira þegar leikkonunni tekst að gera Sölku að heilsteyptri og tilfinningadjúpri konu eitt augnablik, í makalausu skilnaðaratriði hennar og Arnaldar inni í vörugámi/búningageymslu undir lok verks. Þar nær Hilmar Guðjónsson líka vopnum sínum eftir að hafa verið næsta óskýr Arnaldur fram að því, fórnarlamb aðferðarinnar.

Sigurlína hennar Halldóru Geirharðsdóttur er heldur ekki sérlega fullskapaður karakter, enda lunginn af hennar harmsögu um garð genginn þegar sýningin hefst. Hún er hinsvegar frábær í skopfærðum þríleik sínum með Jukka og Steinþóri. Og Halldóra er framúrskarandi í rammahlutverki sínu, kvikmyndaleikstjóranum. Leikhópurinn í heild sinni var öryggið uppmálað í spunakenndum stíl þeirra uppbrotsatriða.

Hilmir Snær verður líka nokkuð fjölþreifinn við staðlaðar aðferðir við að sýna yfirgangssamar fyllibyttur í fyrri hlutanum. Vel gert sem slíkt auðvitað, en einhver þarf bráðum að biðja Hilmi að fara varlega í daðrið við hljóðvillur í raddbeitingu sinni, þessir letilegu sérhljóðar eru meira truflandi en áheyrilegir. Ein áhættusamasta hugmynd sýningarinnar er dýraleikir kjarnafjölskyldunnar, og vel gæti ég trúað að heitustu aðdáendur bókarinnar eigi erfitt með að kyngja henni. Ég sannfærðist á endanum og samleikur Hilmis og Júlíu Guðrúnar L. Henje sem Sölku yngri í upphafi var afar fallegur. Barnaleikir eru ein fjölmargra hugmynda sem ganga gegnum sýninguna og ein sú snjallasta.

Júlía Guðrún skilaði sínu krefjandi verkefni stórvel og það hvernig nærvera barnsins fléttast um alla sýninguna var áhrifaríkt og vel útfært. Skilur áhorfandann reyndar eftir með mesta hroll og gæsahúð leikársins áður en yfir lýkur.

Utan fjölskylduhringsins og stóru hlutverkanna er óhjákvæmilegt að grípa til breiðu penslanna og leyfa sér viðteknar brellur. Þar flaug hæst samband Steinunnar í Mararbúð og Jóhanns Bogesen sem Sigrún Edda Björnsdóttir og Jóhann Sigurðarson fóru fallega með. Bogesenbörnin voru skýr en lítið eftirminnileg hjá Birni Stefánssyni og Þórunni Örnu Kristjánsdóttur og sama má segja um Jukka Halldórs Gylfasonar. Í hefðbundnum sýningum eru litríkar aukapersónur Laxness litlir konfektmolar fyrir flinka karakterleikara. Þetta er ekki hefðbundin sýning.
Ótalinn er Guðni Kolbeinsson, sem gegnir sögumannsskyldum í hljóðbúri á sviðinu, að sjálfsögðu óaðfinnanlega. Þessu vopni er lengst af beitt af skapandi skynsemi, en undir lokin er honum falið of augljóslega að stoppa í framvindugötin; kynna Beintein í Króknum til sögunnar og gefa ágrip af verslunarsviptingum á Óseyri, og töfrarnir glatast. Hljóðbúrið sjálft er skemmtilegur hluti leikmyndarinnar. Hús skáldsins. Og undir lokin hús Steinþórs.

Leikmynd Michałs Korchowiec er meira snjöll en falleg, eins og við á. Járnaruslið, sem lengi vel var eins og hvert annað óskiljanlegt brak sem einatt safnast fyrir í kringum athafnasvæði í fjöruborðinu, fékk smám saman á sig mynd Leifsstöðvar. Og mikið gladdi hún mig, flaskan sem öðru hverju rúllaði á gólfinu í hljóðmynd Baldvins Þórs Magnússonar, minnti á brennivínsmenninguna og hina völtu veröld. Tónlistarvalið gladdi mig, þessir amerísku verkalýðssöngvar, banjó og sakleysi. Litapallettan í búningum Filippíu Elísdóttur skapaði heildarsvip í sundurgerð tímarammanna, og væntanlega var það ekki hennar ákvörðun að sniðganga svona blákalt buxnabrúkun Sölku meðan hún er til umræðu en klæða hana svo í buxnadragt undir lokin. Hér leynist einhver meining sem kristallast ekki fyrir mér, en ég neita að láta trufla mig að ráði. Lýsing Björns Bergsveins Guðmundssonar sýndist mér skila sínu þjónustuhlutverki með sóma.

Eitt eftirminnilegasta atriðið – kannski lykilatriðið – er um miðjan seinni hlutann. Þá kastar leikhópurinn hlutverkahamnum og fer að ræða málin um persónur sínar, einkum Bogesen og Sölku. Leikarar eru orðnir fjári góðir í þessari brellu, einni af klisjum samtímaleikhússins. Hér á t.d. Hilmir Snær sína bestu stund í sýningunni, að skopast með stórleikarahlutverkið svo minnti helst á gömul Fóstbræðraafrek (og hvað er samtímalegra en það?). Niðurstaða spjallsins er að Salka sé ekki eins og neinn, verði ekki sett í neitt hólf. Of einstök, of almenn, of fullsköpuð, of mikið hún sjálf.

Nákvæmlega!

Í stað þess að eyða orku sinni í að fanga og endurskapa þessa heildstæðu persónumynd, þessa rökvísu þroskasögu í öllum sínum mótsagnakennda margbreytileika, hafa Yana, Salka og listamannahópurinn allur ákveðið að deila með okkur hinum ólíkustu hugrenningum sem hún kveikir, með þeim aðferðum sem best miðla hverri og einni. Útkoman hreyfir við vitsmunum, tilfinningalífi, gæsahúðkirtlum og jafnvel augnkrókunum. Sýningin kemur ekki í stað bókarinnar og kærir sig ekki um það. Hér er sjálfstætt listafólk að störfum.