Mannsröddin
Tónlist eftir Francis Poulenc. Texti eftir Jean Cocteau. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Leikstjórn og leikgerð: Brynhildur Guðjónsdóttir. Tónlistarstjóri: Irene Kudela. Búningar og leikmynd: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Pálmi Jónsson. Myndband: Elmar Þórarinsson. Flytjendur: Auður Gunnarsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir og Eva Þyri Hilmarsdóttir. Íslenska óperan frumsýndi í Kaldalóni Hörpu fimmtudaginn 9. febrúar 2017.
Tvær raddir, einn söngur
Þó uppátækjasamir leikstjórar og leikmyndahönnuðir með fjarstæðukenndar hugmyndir hafi mikið til lagt undir sig óperuhús heimsins hafa verkin sjálf að mestu fengið að standa óbrjáluð. Þar vinnur með tónlistinni sú sögulega hending að í Evrópu þróaðist aðferð við að skrifa hana niður sem tekur af næstum öll tvímæli um hvernig hún skuli hljóma. Einnig leikur hefð hér stórt hlutverk, og fyrr á öldum skirrðust listamenn ekkert við að laga verkin að smekk tíðarandans. Ekki lengur. Enda þótti Steinunni Birnu Ragnarsdóttur óperustjóra þörf á því að kalla leikstjóra og aðlögunarhöfund Mannsraddarinnar, Brynhildi Guðjónsdóttur, á svið í upphafi sýningarinnar til að gera grein fyrir gjörðum sínum. Óþarfi er að taka fram að frumsýningargestir Þjóðleikhússins hefðu orðið forviða hefði Gísli Örn Garðarsson stigið á svið til að útskýra og réttlæta sínar umfangsmiklu breytingar á handriti Óþellós áður en tjaldið var dregið frá um jólin. Brynhildi mæltist vel, ljósin dofnuðu og leikurinn hófst.Eintal Jean Cocteau frá 1928 væri trúlega löngu gleymt ef vinur hans, tónskáldið Francis Poulenc, hefði ekki tónsett það þrjátíu árum síðar. Þetta er nú hvorki rismikill né djúpur skáldskapur og það tæknilega nýjabrum að láta það hverfast um símtal er löngu fölnað og jafnvel orðið skemmtilega gamaldags í okkar þráðlausu veröld. Hin nafnlausa kona, Elle í íslenska textanum, sem kveður elskhuga sinn til fimm ára þegar hann hringir eftir fötunum sínum á leið í hjónaband og brúðkaupsferð með annarri konu, er engan veginn nógu áhugaverð persóna, svona sögu- og samhengislaus, ekkert nema söknuðurinn og að lokum örvæntingin. Á sama tíma ríkir ískrandi hversdagsleiki í textanum, ekkert skáldlegt flug eða snjöll sjálfskoðun.
Tónlist Poulenc kemur með skáldskapinn inn í jöfnuna. Tónmálið er þokkafullt og ákaflega „franskt“, með hæfilegu jarðsambandi í tóntegundum fortíðarinnar til að gera það bærilegt fyrir óinnvígða, en jafnframt frjálst og brotakennt að hætti tímans. Ekki endilega skemmtilegasta eða eftirminnilegasta tónlist síðustu aldar, en góð til síns brúks. Það verður samt að segjast að með því að klæða látlausan texta Cocteau í þennan viðhafnarbúning er búið að þrengja túlkunarmöguleika hans ákaflega. Tónlistin jaðarsetur hversdagsleikann, gefur öllu upphafinn og fjarlægan blæ og hitar jafnframt hressilega undir tilfinningapottinum, jafnvel umfram það sem innistæða er fyrir.
Þarna kemur endurgerð og nálgun Brynhildar til bjargar. Með því að flétta saman tónsetningu Poulenc og flutning á upprunalegu eintali Cocteau í sannfærandi þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar vinnst ýmislegt.
Eitt er nú bara það vandamál að óperur eru, illu heilli, alla jafnan fluttar á frummálum sem kallar á einhverskonar tæknilausn til að koma áheyrendum í samband við þann hluta innihaldsins sem leynist í textanum. Annar grundvallarkostur er síðan að geta nálgast textann úr tveimur áttum samtímis og brjótast þannig úr viðjum túlkunar Poulenc á dramanu. Hið lágstemmda og jafnvel íróníska í afstöðu konunnar sem fær ekki hljómgrunn í tónlistinni (og verður heldur ekki numið án frönskukunnáttu) fær sinn talsmann í leikkonunni. Það er ekki víst að það hafi verið meiningin, en upplifunin verður að hin syngjandi Elle lýsi innri ólgu þeirrar talandi, tilfinningunum sem aðeins brjótast út í textanum endrum og eins, innan um hversdagslegri hluti, undanbrögð og veikburða valdatafl.
Fyrir einhvern eins og mig, sem aðeins þekkti verkið sem óperu, var það nánast opinberun að sjá hina talandi Elle vera svona bratta og kokhrausta í upphafi verks í meðförum Elvu Óskar Ólafsdóttur. Og hve lengi hún hélt „kúlinu“ og náði því iðulega aftur milli þess sem tilfinningarnar náðu tökum sínum á henni. Það kom líka á óvart hvað möguleikar til fyndni eru margir í þessari sorglegu og fyrirsjáanlegu sögu. Elva Ósk fór frábærlega með textann, náði lygilega miklum safa út úr honum og myndaði spennandi andstæðu við sitt syngjandi sjálf. Það sem tapast við að hafa Elle svona yfirvegaða er trúverðugleiki þess að hún hafi nokkrum klukkustundum áður verið hér um bil búin að stytta sér aldur. En þar kemur tilfinningaólga tónlistarinnar að góðum notum.
Auður Gunnarsdóttir þykir mér með okkar allra bestu og raddfegurstu söngkonum, þó mig skorti tækniþekkingu til að rökstyðja þá tilfinningu af neinu viti. Ég er líka viss um að það er ekki sú vanþekking sem veldur því að ég hef ekkert út á frammistöðu hennar eða túlkun að setja, heldur hitt að þetta var allt framúrskarandi fallega gert. Samleikur þeirra tveggja var jafnframt nákvæmur og vel útfærður, bæði þegar þær voru hvor í sínum heimi og þá sjaldan að línur þeirra víxluðust eða runnu saman.
Það sem píanóumritunin glatar af litbrigðum upprunalega hljómsveitarbúningsins kemur til baka í lífrænna samspili söngvara og meðleikara og betra styrkleikajafnvægis. Eva Þyri Hilmarsdóttir virtist mér leysa sitt krefjandi hlutverk óaðfinnanlega. Umgjörð Helgu I. Stefánsdóttur bauð upp á ýmsa möguleika þó einföld sé og voru þeir vel nýttir af leikstjóra og flytjendum.
Mannsröddin er ekki merkilegt verk. Sá grunur læðist að manni að Íslenska óperan væri ekki að ráðast í sína aðra uppfærslu þess nema vegna þess að það krefst lítillar umgjarðar og fámennrar áhafnar. Birtingarmynd þess í vel útfærðri og snjallri útfærslu Brynhildar Guðjónsdóttur og hennar fólks blæs fersku lífi í verkið, bætir við víddum og möguleikum á merkingu sem hvorki leikritið né óperan einsömul bjóða upp á. Og gefa unnendum tón- og leiklistar kost á að sjá þrjár afburðalistakonur í návígi.
<< Home