þriðjudagur, janúar 10, 2017

Gott fólk

Eftir Val Grettisson. Leikgerð unnu Símon Birgisson og Valur Grettisson í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson og Magnús Arnar Sigurðarson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Hljóðhönnun: Kristinn Gauti Einarsson. Myndbandshönnun: Roland Hamilton og Eva Signý Berger. Myndefni: Guðmundur Erlingsson og Roland Hamilton. Leikarar: Stefán Hallur Stefánsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Baltasar Breki Samper, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Snorri Engilbertsson og Birgitta Birgisdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu 6. janúar 2017, en rýnt í sýninguna 7. janúar 2017.

Skömm skilað


Ung kona og ungur maður, Sara og Sölvi, sofa saman og taka í framhaldinu upp samband sem kannski er hægt að kalla ástarsamband. Fljótlega verður ljóst að þau hafa nokkuð ólíkar hugmyndir um hvað í því felst. Eða kannski öllu heldur: tilfinningalíf Sölva er hugmyndadrifið og heimspeki hans réttlætir framkomu við Söru sem smám saman tekur á sig dekkri og dekkri myndir þar sem Sölvi neytir andlegs, og áður en yfir lýkur líkamlegs, aflsmunar. Rúmu ári síðar er hún farin. Nokkru eftir það er barið á dyrnar hjá Sölva og fyrir utan stendur kunningi hans með bréf frá Söru. Þar hefst Gott fólk, leikgerð samnefndrar bókar Vals Grettissonar sem kom út í hittiðfyrra.

Kunninginn setur af stað svokallað ábyrgðarferli, róttæka aðferð til að koma á réttlæti og leiða til lykta ofbeldismál milli náins fólks, sem þolendur telja að muni ekki fá framgang í hinu opinbera réttarkerfi. Sölvi er efins um bæði ferlið og ekki síður eigin sekt, en fellst að lokum á að taka þátt. Hans bíður það erfiða verkefni að gera sér grein fyrir hvað gerðist, hvað hann gerði og ná þeim tökum á sjálfum sér að slíkt gerist ekki aftur.
Sölvi gengur ekki heilshugar til verks og fljótlega beinist athygli bæði Sölva og sýningarinnar frá ferlinu og sjálfsskoðuninni að fárviðri fjöl- og samfélagsmiðlaumfjöllunar sem fer í gang þegar vakin er athygli á málinu, getgátur um nöfn málsaðila byrja og Sölvi stígur fram á Facebook sem maðurinn sem um ræðir.

Una Þorleifsdóttir leggur upp með einfaldleika og skýra framsetningu innihaldsins í sýningunni. Autt svið og þrír hvítir stólar eru vettvangur leikhópsins, myndband á bakvegg skapar hófstilltan bakgrunn sem hjálpar til við að staðsetja atburði og lýsing hjálpar okkur að vita hvort við erum stödd í megintímaþræði verksins eða í endurlitum þar sem sambandi Söru og Sölva eru gerð skil. Allt er þetta fagmannlega unnið og rétt að hrósa Evu Signýju Berger og Roland Hamilton sérstaklega fyrir smekklega unnið myndbandsefni sem er aldrei of eða van.

Ég er ekki eins viss um búninga Evu Signýjar. Allir leikarar klæðast samskonar fötum: svörtum alklæðnaði og uppháum skóm, sem vekja hugrenningatengsl við einkennisbúninga, hermennsku, bardagalistir, jafnvel fasisma og gengjaofbeldi. Það er líkt og hér þurfi að gæta hlutleysis, salurinn í hlutverki hinnar blindu réttvísi. Allir eru jafnir fyrir áhorfendum. Jafn grunsamlegir, liggur mér við að segja. Þessi sterka sögn búninganna er meira truflandi en gagnleg og einsleitnin gerir leikurunum enn erfiðara fyrir en ella að blása lífi í persónurnar.

Það bagalegasta við þessa einkennisbúningastefnu og naumhyggjulegu leikmynd er hvað hún takmarkar möguleika leikhópsins á að vinna með status og vald, sem er eitt af miðlægustu viðfangsefnunum. Ágætt dæmi er heimsókn Sölva til annarrar fyrrverandi kærustu sem hann vill að segi sér frá ástæðum sambandsslitanna. Þetta er ágætlega skrifað samtal sem Birgitta Birgisdóttir og Stefán Hallur Stefánsson skiluðu prýðilega en án stuðnings af umhverfi, búningum og öðrum hjálpartækjum persónusköpunar höfðu þau eiginlega úr engu að moða öðru en staðsetningum í rýminu. Hér er leiktextanum og vinnu með hann mikið til treyst til að miðla þessu, en það traust verðskuldar hann ekki fyllilega. Höfundarnir eru ekki Pinter. En hver er það svo sem?

Að frátöldum Sölva, og að vissu marki Söru, eru persónurnar fyrst og fremst peð í dramatísku tafli sýningarinnar. Þau Birgitta, Baltasar Breki Samper, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Snorri Engilbertsson skiluðu þeim alveg ásættanlega, en höfðu úr litlu að spila. Athyglin er einarðlega á Sölva.

Bókin er fyrstu persónu frásögn hans, þannig að mynd bókarinnar af Söru er líka mynd Sölva af henni. Í leikgerðinni hefur ekki verið komið á jafnvægi þar á milli, aðalverkefni Söru er að varpa ljósi á Sölva og hans vegferð. Langstærsti hluti hlutverks hennar er endurlitssenurnar, svipmyndir úr hinu ógnvekjandi sambandi. Vigdís Hrefna Pálsdóttir skilaði þessu krefjandi og nærgöngula hlutverki ákaflega vel innan þeirra takmarkana sem persónusköpun handritsins býður upp á og aðferð sýningarinnar leyfir.

En hiti og þungi sýningar hvílir á Stefáni Halli Stefánssyni. Stefán Hallur hefur hina hættulegu nærveru stórleikarans, sem nýtist honum svo sannarlega vel í þessu hlutverki. Sölvi er þrúgandi á sviðinu, drottnar yfir því og loftið fyllist af spennu. Hvernig bregst hann við? Hvað gerir hann næst? Stefáni Halli hættir til að skeyta ekki um framsögnina þegar talað er lágt og hratt, að öðru leyti afburðamaður.

Bókinni, og að vissu leyti sýningunni líka, er hægt að lýsa sem „afhjúpandi varnarræðu“ Sölva. Það er líka hægt að sjá í sýningunni þróunarsögu ofbeldissambands, reyndar á fremur yfirborðkenndan hátt. Annar breiður þráður er afleiðingar símiðlunar samtímans. Og svo er þarna hið nýstárlega ábyrgðarferli. Því miður verður það hálfutanveltu í verkinu. Þetta orsakast af hinum einbeitta fókus á Sölva, að sjónarhornið er hans. Fyrir vikið vitum við næsta lítið um hvernig ferlið virkar, hvaða hvatir standa að baki þess að beita því og fólkið sem það gerir verður aldrei nema stuðpúðar, tæki til að hreyfa við aðalpersónunni. Þetta er stærsti tæknilegi galli verksins, tækifærið sem ekki var gripið til að segja eitthvað nýtt og forvitnilegt.

Þess vegna verður að setja spurningarmerki við verkefnavalið.

Það var ekki farið í grafgötur með það þegar bókin kom út að hún var innblásin af sönnum, nýlegum atburðum og fylgdi gangi þess máls nokkuð nákvæmlega og auðþekkjanlega fyrir þá sem lásu það sem birtist opinberlega um málið. Jafnframt var ljóst að höfundurinn vann verkið án samráðs við hlutaðeigandi, og að því er virðist í algerri óþökk þeirra. Ekki þarf að efast um frelsi Vals til að skrifa bókina eða Bjarts að gefa hana út. Hitt finnst mér blasa við að þetta er skammarleg framkoma við fólk í sárum.

Eitt er nú að ungur rithöfundur finni hjá sér knýjandi þörf til að skrifa það sem honum kemur í hug. Öllu einkennilegri þykir mér sú ákvörðun Þjóðleikhússins að setja þessa leikgerð á svið, og láta jafnframt (að mér skilst) undir höfuð leggjast að bera þá ákvörðun undir þá sem málið varðar. Setja sig t.d. í spor þolandans.

Það ætti að vera hægur vandi að nálgast leikefni sem lýsir ofbeldissamböndum, rýnir í sálarástand og hvatir bæði þolenda og gerenda, á dýpri og beittari hátt en þetta verk, verk sem hefur það helst við sig að tæpa á forvitnilegri og róttækri úrvinnsluleið en gerir henni tæpast verðug skil. Það hefði líka verið hægur vandi að fá höfund til liðs til að skrifa slíkt verk, úr samhengi við einstök mál raunverulegs fólks. Samt er það Gott fólk sem við fáum. Fyrir þá sem hafa meðvitund um málið sem liggur til grundvallar er ógerningur að slíta það úr samhengi við það sem fram fer á sviðinu. Álíka vonlaust og að sjá ekki fyrir sér fíl ef manni er sagt að hugsa ekki um fíl. Tilfinningin er að hér sé verið að sníkja sér far með óhamingju fólks.

Og það er skammarlegt.