mánudagur, mars 06, 2017

Þórbergur

Eftir Eddu Björgu Eyjólfsdóttur, Sveinn Ólaf Gunnarsson og leikhópinn með aðstoð frá Pétri Gunnarssyni. Leikstjórn: Edda Björg Eyjólfsdóttir. Leikmynd: Stígur Steinþórsson og Bjarni Þór Sigurbjörnsson. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Kjartan Darri Kristjánsson. Kóreógrafía: Birna Björnsdóttir. Tónlistarval og hljóðmynd: Stefán Már Magnússon. Leikarar: Birna Rún Eiríksdóttir, Friðrik Friðriksson, María Heba Þorkelsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Leikhópurinn Edda Productions frumsýndi í Tjarnarbíói 23. febrúar 2017, en rýnt í þriðju sýningu miðvikudaginn 1. mars 2017.

Spekingur spjallar

„Við opnum inn í sal eftir eina mínútu eða kannski þrjár,“ kallaði starfsmaður Tjarnarbíós yfir óþreyjufulla gesti meðan við biðum eftir að sýningin Þórbergur hæfist síðastliðið miðvikudagskvöld. Óneitanlega varð mér hugsað til viðfangsefnisins og hans frægu áráttukenndu nákvæmni, sá hann fyrir mér öskureiðan, þyljandi bölbænir á astralplaninu. Kannski var þetta hluti sýningarinnar, svona eftir á að hyggja. Ef svo var: frábært!
Ekki gerði Þórbergur þó vart við sig í salnum eftir að sýningin hófst, að öðru leyti en því að hér er nánast einvörðungu unnið úr orðum hans eins og þau birtast í hans eigin ritum og því sem penni Matthíasar Johannessen og myndavélar Sjónvarpsins fönguðu í frægum viðtölum.
Fyrir utan að Þórbergi brá sjálfum fyrir í öllu sínu kviknakta veldi á baktjaldi í frægu myndskeiði Vilhjálms Knudsen af meistaranum í algleymi Müllersæfinga við fjöruborðið.

Notkun myndefnis og samleikur við það er einn af mörgum þáttum sem bera vitni athyglisverðum tökum Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur á möguleikum leiksviðsins í þessu fyrsta stóra leikstjórnarverkefni sínu. Það sama má segja um hvernig Edda Björg bæði nýtir grunnhugmynd sýningarinnar – viðtal við titilpersónuna – og brýst út úr þeim ramma áreynslulaust þegar á þarf að halda.

Þórbergur gerði ekki vart við sig í salnum, sem leiðir hugann að annarri grundvallarákvörðun sýningarinnar. Friðrik Friðriksson gerir litla sem enga tilraun til að „ná“ Þórbergi. Líkir ekki eftir rödd hans, kækjum eða hreyfingum á neinn heildstæðan hátt. Þetta undirstrikast enn með því að láta Jón Hjartarson í sínu frægasta hlutverki hljóma sem rödd Þórbergs „sjálfs“ á nokkrum stöðum þegar nauðsyn krefur.

Óneitanlega dregur þessi ákvörðun bæði úr áhættu sýningarinnar og skemmtigildi fyrir þá sem enn muna hvernig þessi kynjakvistur var í hátt, eða að minnsta kosti hvernig Jón túlkaði hann í sögufrægri sýningu Leikfélags Reykjavíkur, sem einnig var sjónvarpað. Á móti kemur að kjarni þess Þórbergs sem er okkur aðgengilegur, það sem skapar forvitni um hann og aðdáun á honum: orð hans, rituð og sögð, er einmitt það sem Eddu Björgu og meðhöfundum hennar að sýningunni er svo umhugað um að deila með okkur.

Friðrik vinnur vel út frá þessum forsendum og skapar trúverðugan mann. Fór alveg að þolmörkum með hófstillingu sem aftur gerir dramatíska hápunkta (örvæntingu yfir námsefni Kennaraháskólans og fæðingu dótturinnar) áhrifaríkari. Og aldeilis frábær sem roskinn rithöfundur að setja sig í spor ungbarns. Svo vel gert reyndar að það leiddi hugann að því hve oft slík hamskipti mistakast.

Mótleikarar hans hjálpa mjög við að skerpa og staðsetja persónuna. Þau Sveinn Ólafur Gunnarsson og María Heba Þorkelsdóttir vinna í nokkuð öðrum stíl en Friðrik, greinilega vísvitandi. Teikna með breiðari strikum, vinna með skopfærslu og skýrar kómískar tímasetningar sem uppskáru hlátur ekkert síður en textabundin fyndni aðalpersónunnar.

Þannig hjálpar óöryggi þáttastjórnandans í meðförum Sveins Ólafs við að gefa tilfinningu fyrir sérvisku og uppátækjasemi Þórbergs, og aðdáun og virðing sem braust gegnum stressað viðmótið auðveldar okkur að trúa á snilligáfu skáldsins. María Heba býr til kostulega týpu sem undirstrikar frægð og vinsældir Þórbergs með því að vilja í senn baða sig í henni og eigna sér hluta heiðursins af henni, en draga líka stöðugt athygli að eigin verðleikum eins og þeir speglast í aðdáun annarra. Hvort þetta er fyllilega sanngjarnt gagnvart fyrirmyndinni er ég ekki sannfærður um, en þjónar sýningunni og gladdi gesti. Samleikur þeirra Friðriks er verulega vel útfærður og spennandi og nær að brúa leikstílsbilið á sannfærandi hátt.

Birna Rún Eiríksdóttir er svo Sóla; ástkona, barnsmóðir og dramatísk miðja. Birna Rún hefur úr litlu að moða öðru en nærveru sinni en nýtur sín ágætlega á sviðinu. Þó má segja að sá þráður – Þórbergur og ástin sem ekki varð hlutskipti hans – sé helsta lím sýningarinnar. Hann verður hins vegar ekki nógu skýr eða þéttur til að gefa henni sannfærandi dramatísk form, sem virðist hafa verið ætlunin.

Efnistökin, að sækja textann svona einarðlega í birtan texta Þórbergs, setja höfundunum skýrar skorður. Sennilega óhjákvæmilegt en óneitanlega takmarkandi. Úr verður svipmynd af hugarheimi en framvindan víkur.

Hugmyndaheimurinn og orðsnilldin er svo vitaskuld nóg til að hafa ofan af fyrir áhorfendum eina kvöldstund, jafnvel þótt pólitíkinni sé vandlega haldið utan við, andatrúnni og sönnunarsögum um líf eftir dauðann stillt í ýtrasta hóf og látið nægja að nota esperantó sem eldsneyti í einn ágætan brandara. Fyrir þetta allt er ég reyndar þakklátur. Ýmsir eftirminnilegir hápunktar úr skrifum Þórbergs eru hér: óléttusagan, draumarnir um frönsku skúturnar, hörmungarnar í landafræðistaglinu í Kennaraháskólanum, náttúrustemningin úr Bréfi til Láru sem endar með búksorgum svo varð hneyksli. Og svo skemmtilegheit úr viðtölum Matthíasar Johannessen: fyrirlitningin á íþróttum og áhugaleysi um tónlist. Það undirstrikar svo hinar kitlandi mótsagnir í persónuleika Þórbergs að einn hápunkta sýningarinnar er þegar Magnús spjallstjórandi lokkar höfundinn til að syngja með sér það dásamlega kvæði „Það sem enginn veit“, þar sem fínlegur samleikur Friðriks og Sveins Ólafs blómstrar. Umfram allt hlustum við á Þórberg boða mikilvægi þess að rækta líkamann, leita sannleikans og þroska andann. Fallegar hugsanir, óaðfinnanlega orðaðar og vel fluttar.

Það er ekki vel gott að átta sig á hverjum sýningin Þórbergur er ætluð. Hvort hún standi nógu nærri fyrirmyndinni til að fullnægja heitum aðdáendum og hvort hún sé nægilega föst í sér til að virka sem kynning á meistaranum og ólíkindatólinu. Sýningin líður nokkuð fyrir óskýra stefnu handritsins. En textinn er kostulegur, samleikurinn nákvæmur, lögnin úthugsuð og vel haldið utan um sviðsvinnuna. Fyrir vikið verður Þórbergur aldrei minna en skemmtilegur.