þriðjudagur, janúar 16, 2018

Himnaríki og helvíti

Eftir Jón Kalman Stefánsson í leikgerð Bjarna Jónssonar. Leikstjórn: Egill Heiðar Anton Pálsson. Leikmynd og kvikmynd: Egill Ingibergsson. Teikningar og kvikun: Þórarinn Blöndal. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Tónlist og hljóðmynd: Hjálmar H. Ragnarsson. Hljóð: Baldvin Þór Magnússon. Leikgervi: Helga I. Stefánsdóttir og Árdís Bjarnþórsdóttir. Hljóðfæraleikarar: Pétur Eggertsson og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir. Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Birna Rún Eiríksdóttir, Björn Stefánsson, Hannes Óli Ágústsson, Haraldur Ari Stefánsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Frumsýning á stóra sviði Borgarleikhússins 11. janúar 2018.

Listin að lifa af

,,Þetta var tími þegar fólk var bæði óskaplega opið og dramatískt í samskiptum en einnig lokað og sýndi mikla hörku hvað við annað,“ segir Bjarni Jónsson, leikgerðarsmiður Himnaríkis og helvítis, í viðtali í leikskrá sýningarinnar. Þetta er skörp athugasemd og gefur kannski innsýn í hvers vegna þríleikur Jóns Kalmans Stefánssonar og þó sérstaklega fyrsta bók hans, samnefnd sýningunni, hefur eignast sess sinn í hjarta lesþjóðarinnar. Hér eignast einstakur tónn og nálgun Jóns á skáldskapinn (ég vil síður kalla það „stíl“) heimili þar sem eiginleikar hans og tjáningarmáttur njóta sín í fullkomnu samræmi við umfjöllunarefnið. Persónur Jóns njóta þess einmitt hvernig hann gefur þeim færi á að vera opnar og dramatískar á áhrifaríkan hátt, fyrir utan hversu skáldlega og upphafið sögumaðurinn lýsir einatt þeirra innra lífi. Og harkan, hrjóstrugt yfirborð persóna sem neita eða geta ekki lifað opnar, heilla einatt þennan höfund og kalla fram margt það magnaðasta sem hann skrifar.

Þrátt fyrir að þríleikurinn – einkum fyrsta bindið – hafi hitt þjóðina í hjartastað hefur hann líklega ekki búið þar nógu lengi til að þola, eða verðskulda, galgopalega póst-dramatíska þeytivindu í anda Þorleifs Arnar Arnarssonar eða Yönu Ross. Það gæti að minnsta kosti verið ein skýring þess hve hlutlaus afstaða er tekin til efnisins í sýningu Borgarleikhússins. Mögulega er ósanngjarnt að kalla verk þeirra Bjarna og Egils Heiðars Antons Pálssonar leikstjóra „gamaldags“, en það er sannleikskjarni í því líka. Örlítið meira afstöðupúður hefði ekki sakað, sýnist mér úr sæti eftiráskýrandans. Þetta bitnar ekki síst á þorpsbúunum, þar sem hin skýri dilkadráttur höfundar í góða og slæma fólkið er ýktur og engum gráum flötum hleypt að. Fyrir vikið afhjúpast viss klisjutilhneiging í persónugalleríinu. Í þriðja hluta kviknar sú hugsun að það sé engu líkara en Charles Dickens hafi ákveðið að leggja frá sér Nickolas Nickleby og skrifa frekar Heimsljós eftir sínu höfði.

Fyrir utan orðspor bókanna og fegurð textans er erfitt að koma auga á kosti þríleiksins sem efnis í leiksýningu, og það verður að viðurkennast að sýning Borgarleikhússins nær ekki fyllilega að gera þá augljósa. Dramað, átökin í Himnaríki og helvíti og Harmi englanna eru fyrst og fremst við náttúruöflin; veðurofsa, sjó og snjó, nokkuð sem leikhúsið er ekki á heimavelli við að lýsa, og þegar togstreitur innan mannlegs samfélags taka við í Hjarta mannsins þá siglir Jón hættulega nálægt melódramanu, nokkuð sem getur verið leikhúsinu skeinuhætt, nú á öld kaldhæðni og efasemda.

Hitt er líka erfiðleikum bundið hvað vitundarmiðja bálksins, strákurinn sem lifir af sjóferðina örlagaríku, kemst undir verndarvæng sterkra og sjálfstæðra kvenna og tekur að lokum örlög sín í eigin hendur, er kyrrstæð persóna. Hann birtist nánast fullþroskaður í upphafi sýningar, nývaknaður í verbúðinni. Opinn, greindur, skapheitur, listelskur, leitandi, hugrakkur og ástríkur. Síðan fylgjumst við með honum takast á við heiminn með þessum vopnum sem honum eru fengin á fyrstu síðu. Sem gengur mun betur upp á pappír en sviði. En þá kemur til kasta Þuríðar Blævar Jóhannsdóttur. Sköpun hennar á stráknum er ekki hægt að kalla neitt annað en leikhústöfra. Algerlega sannfærandi túlkun og þrungin útgeislun sem staðsetur strákinn ævinlega í miðri athygli áhorfandans.

Það er auðveldara að sætta sig við það hvað aðrar persónur eru kyrrstæðar og eintóna, þetta er jú saga stráksins. Allar þessar myndir eru skýrar og skarpar, vel studdar af fallegum, viðeigandi en óneitanlega ansi ófrumlegum búningum Helgu I. Stefánsdóttur. Valur Freyr Einarsson hreppir gjarnan, og brillerar í, hlutverkum illgjarnra ríkisbubba og fór áreynslulaust með Friðrik, en skapar líka eina af áhugaverðari og dýpri týpum sýningarinnar úr hrúðurkarlinum Pétri. Katla Margrét Þorgeirsdóttir er Andrea kona hans, sem strákurinn „bjargar“ úr ömurlegum aðstæðum, fallega teiknuð persóna en sérkennilegt að hafa þessa brotnu konu svona fagra og beina í baki – hefði ekki verið áhugaverðara að láta strákinn einan um að sjá í henni fegurðina? Það geislar líka af tálkvendinu Ragnheiði og hinni elskuðu Álfheiði í meðförum Birnu Rúnar Eiríksdóttur, eins og maklegt er.

Stoltar og fagrar eru þær líka stöllurnar Helga og Geirþrúður og Sigrún Edda Björnsdóttir og Margrét Vilhjálmsdóttir fara létt með að sýna á þeim þessa einu hlið. Kolbeinn blindi, bitastæðasta hlutverk Haraldar Ara Stefánssonar, er frekar þreytandi í sínum hrópum. Var virkilega ekki pláss fyrir senu með stráknum að lesa fyrir hann? Það hefði stækkað mynd þeirra beggja í sýningunni, dýpkað skilning okkar á aðalpersónunni. Bárður var skemmtilega lífsglaður hjá Birni Stefánssyni og dauði hans hálfu átakanlegri fyrir vikið.

Það kom mér svolítið í opna skjöldu að það er hin sérkennilega og sviðsetningarlega vandasama miðbók, Harmur englanna, sem rís hæst í sýningunni. Þar blómstrar umgjörð Egils Ingbergssonar, dúkurinn stóri sem leikhópurinn magnar með illviðrið, skápallurinn, kröftugar teikningar Þórarins Blöndal og lýsing Þórðar Orra Péturssonar auk hljóðvinnslu Baldvins Þórs Magnússonar. Þarna gengur leikhúsið af einurð og heiðarleika á hólm við verkefni sem ekki er sjálfgefið að takist, og sigrar.

Þarna í hríðinni kemst sýningin líka næst því að gefa persónu áhugavert dramatískt líf í Jens pósti, þökk sé tveimur atriðum. Annarsvegar þar sem hann opnar sig fyrir stráknum í svaðilförinni miklu um ástæður þess að hann verði, og muni, halda lífi, og síðan þar sem ferðafélagarnir liggja í vari við líkkistu Ástu heitinnar og hann útlistar ástarmál sín. Allt eru þetta þó frásagnir af dramatík utan sviðs, líkt og í frönskum sautjándu aldar harmleik. Bergur Þór Ingólfsson er firnagóður Jens, sérstaklega í eintalinu magnaða um systur sína. Hannes Óli Ágústson kröftugur Hjalti vinnumaður, en á sitt stærsta og besta hlutverk í hinum ógæfusama Gísla skólastjóra sem nær mögulega einhverskonar landi í leikslok. Ekki endilega frábær hugmynd samt að láta Hannes Óla syngja einsöng. Grunnhugmynd að baki tónlistabeitingu, með hljóðfæraskipan og lagaval er snjöll, þau Pétur Eggertsson og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir spiluðu hnökralaust og allir sungu hreint. Nýju lögin hans Hjálmars H. Ragnarssonar voru falleg og í réttum anda um leið og þau báru skýr höfundareinkenni.

Leikgerðarhöfundur og leikstjóri vinna með viðteknar aðferðir skáldsagnaleikgerða í þessari sýningu. Framvindunni er ágætlega skýrt til skila haldið frá upphafi til enda, og aðdáendur orðlistar Jóns Kalmans fá fylli sína. Fyrir utan að skila sínum leikhlutverkum, flestir fleiri en einu, með þeim takmörkunum sem aðferðin setur djúpri og innlifaðri persónusköpun, gegnir leikhópurinn hlutverki sviðsmanna og sögumanns. Umbreytingar og sviðsetning er meira og minna fumlaus en ég hef efasemdir um þá ákvörðun að leggja drjúgan hluta sögumannstexta í munn talkórs leikaranna. Það þarf í það minnsta að útfæra betur. Hópurinn hljómaði oftast meira eins og illa samstilltur söfnuður að fara með trúarjátninguna í sunnudagsmessu en fagmenn að beita úthugsuðu listrænu stílbragði. Kannski var það meiningin. Vera má að kórinn slípist, en er þetta ekki óþörf upphafning textans?

Almennt þykir mér hér stigið fullvarlega til jarðar. Ljóst er að þríleikur Jóns er efniviður sem nýtur sín ekki sjálfkrafa til fullnustu í leikrænum búningi. Engu að síður er honum mikið til hlíft við þeirri róttæku rannsókn sem kröftugar leikgerðasýningar undanfarinna ára hafa byggst á. Útkoman er ekki nægilega sjálfstætt listaverk. Það er augljóslega meðvituð listræn ákvörðun og skilar bæði styrkleika og ágöllum sýningarinnar.

Leikgerðin afhjúpar veikleika þessa metnaðarfulla þríleiks. Melódramað, grunnskreiða samfélagsgreiningu og skort á þróun persóna. Sýningin nær engu að síður þegar best lætur að skila og gera sér mat úr umtalsverðum styrkleikum skáldskapar Jóns Kalmans og þeim innblæstri sem í hann má sækja. Þarna munar mikið um eftirtektarverða frammistöðu Þuríðar Blævar. Áhorfendur verða líka vitni að áhrifaríkri beitingu meðala og tækni sviðsins til að skapa aðstæður og virkja ímyndunarafl áhorfandans til að horfast í augu við náttúruöflin og kraftana innra með okkur.