fimmtudagur, janúar 18, 2018

Efi

Eftir John Patrick Shanley. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Leikstjórn: Stefán Baldursson. Leikmynd og búningar: Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson og Jóhann Friðrik Ágústsson. Tónlist: Veigar Margeirsson. Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson. Leikarar: Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu 13. janúar 2018, en rýnt í 2. sýningu 14. janúar 2018.


Sálarháski alstaðar 

„Það sem raunverulega á sér stað í lífinu er ekki þannig að það sé hægt að leggja út af því. Sannleikurinn er ekki efni í góða predikun. Hann er svo oft ruglingslegur og niðurstaðan óskýr.“

Þannig kemst séra Flynn að orði þegar systir James spyr hann út í sannleiksgildi aldeilis prýðilegrar dæmisögu sem hann notaði í predikun um slúður. Þetta er alveg rétt hjá prestinum. Kannski þess vegna sem leikskáld grípa gjarnan til þess að staðsetja siðklemmuleikrit innan veggja klausturs og kirkju. Þar eru línurnar einfaldari, færra sem hefur áhrif á gjörðir fólks. Og auðvitað meira í húfi en hjá hinum vantrúaða leikmanni nútímans.

En jafnvel í þessu einfaldaða umhverfi er manneskjan söm við sig og stjórnast af ótalmörgu öðru en siðviti og trú. Persónuleiki, lífsreynsla, samfélagsstaða, hvatir; allt hefur þetta áhrif til góðs og ills. Þetta veit John Patrick Shanley mætavel og þess vegna er Efi alls ekki réttnefnd „dæmisaga“, heldur verk skrifað innan leikritunarhefðar þar sem aðstæður og atburðir líkja einmitt eftir hinum ruglingslega og óskýra raunveruleika, innan kirkju og utan. Sem því nemur verra efni í dæmisögu.

Við kirkju Heilags Nikulásar í New York er starfræktur barnaskóli. Þar ræður ríkjum systir Aloysius, framúrskarandi fær í sínu starfi, með óbilandi undirstöðu í kennisetningunum og einstrengingsleg og hrokafull eftir því. Hinn léttúðugi nútími hefur hafið innreið sína í gervum ungnunnunnar systur James og séra Flynn. Skólastýran hefur vald til að móta stúlkuna að vild, en öðru máli gegnir um prestinn. Þegar atvik varðandi einn altarisdrengjanna vekur grunsemdir um misnotkun gengur systir Aloysius í málið af röggsemi sem fer jafnvel á skjön við skýran valdastrúktúr kirkjunnar. Velferð barns er í húfi, en undir og saman við kraumar persónuleg andúð og hugmyndaleg togstreita. Hvaða syndir er réttlætanlegt að drýgja til að leiða slíkt mál til lykta, og er drifkrafturinn kristilegt siðgæði, umhyggja og réttlætiskennd eða eitthvað lægra? Þarna er efinn.

Þetta Pulitzer-verðlaunaleikrit er haganlega smíðað í hinni rótgrónu raunsæishefð sem nær amerískum hápunkti sínum í sumum verka Arthurs Miller. Upplýsingum er miðlað áreynslulaust og á tæknilega hárréttum stöðum til að viðhalda spennu, áhuga og óvissu áhorfenda. Persónurnar bæði fulltrúar hugmynda, stétta og lífsafstöðu en nægilega búnar persónueinkennum til að verða fyllri og nær því að líkjast fólki af holdi og blóði. Það sem á vantar til að það sé framúrskarandi er einna helst það að sálarangist systur Aloysius í lokin er ekki nægilega vel undirbyggð, eða okkur leitt nógu snemma í ljós að hún sé hið raunverulega efni leikritsins. Það er of seint að segja áhorfandanum í síðustu setningunum að það sem á undan er gengið sé í raun harmleikur og draga þá loksins fram hver sé hin tragíska hetja.

En sem sagt: fram að því afbragðsgott, og mikið fóður fyrir leikara sem hafa þessa hefð á valdi sínu. Það er óhætt að segja að það eigi við um leikhóp Stefáns Baldurssonar, sem og kunnáttu hans í meðferð efnis af þessu tagi, enda er sýningin einstaklega lipurlega sviðsett og nákvæmlega unnin svo allt komist til skila. Ég hef reyndar smá efasemdir um lögnina á frú Miller, móður altarisdrengsins sem á eina senu þar sem hún mætir til viðtals við skólastýruna sem leitar sannana fyrir illvirkjum prestsins. Mig vantaði meira óöryggi, jafnvel undirgefni, í túlkun Sólveigar Guðmundsdóttur frammi fyrir hinni valdamiklu, jafnvel ógnvekjandi systur Aloysius. Það er varla hægt að vera á jafn augljósum útivelli og frú Miller. Sonur hennar er eini þeldökki nemandinn í skólanum í írsk-ítalska verkamannahverfinu og öll hans framtíð veltur á að hann útskrifist þaðan. Ég held líka að þegar frú Miller setur fram sína sýn á málið og hryllilegar aðstæður fjölskyldunnar væri samanbitin harka rökréttari og áhrifaríkari en sýnileg örvænting. Sólveig vann vel úr þeirri leið sem valin hafði verið, verðugur mótherji skólastýrunnar.

Það lendir á ungum herðum Láru Jóhönnu Jónsdóttur að gefa sýningunni léttleika i hlutverki hæfileikaríku hugsjónakonunnar systur James, sem við sjáum að er – eðlilega – undir hælnum á systur Aloysius en getur þegar mikið liggur við staðið uppi í hárinu á henni og er glöggskyggn á bæði kosti hennar og galla. Skýr og vel unnin persóna þar sem mikið var sagt með líkamsmáli og augnaráði.

Hilmir Snær Guðnason er framúrskarandi sem séra Flynn. Geislandi af persónutöfrum og brothættum myndugleika. Reynsla, færni og hæfileikar Hilmis Snæs nýtast til fullnustu í þessum stíl, við sjáum áreynsluleysi meðan tæknin vinnur vinnuna. Þeir Stefán og Hilmir stilla sig algerlega um að gera Flynn grunsamlegan eða ljá honum einhver einkenni sem falla að staðalímyndum um níðinga. Sem eykur spennustigið fremur en hitt.

En auðvitað er endurkoma Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur stóru fréttirnar. Það er óhætt að segja að það sé umtalsverður stæll yfir henni. Stjörnubragur. Systir Aloysius verður bæði ómótstæðileg og ógnvekjandi í túlkun Steinunnar Ólínu, hún drottnar yfir sviðinu og allar setningar sem eiga að vekja hlátur gera það. Og aftur: áreynsluleysi. Vald á viðfangsefninu. Það fer einkar vel saman með því valdi sem persónan hefur lengst af á aðstæðum og öllum í kringum sig, að henni sjálfri meðtalinni.

Leikmynd og búningar eru verk Þórunnar Sigríðar Þorgrímsdóttur. Búningarnir stýrast eðlilega af raunsæisnálgun sýningarinnar, nunnur og prestur skrýdd eins og vera ber, þó háir hælar skólastýrunnar hafi fengið mig til að velta vöngum. Og kannski hefði frú Miller mátt mæta örlítið settlegri með siðprúðari pilssídd á fundinn í klausturskólanum.

Umgjörð Þórunnar um verkið er eins einföld og verða má. Hvítur bogadreginn veggur sem lita mátti með ljósum og varpað var á fallegum trúarlegum teikningum milli þátta. Einnig er gefið til kynna með texta hvar senurnar eiga sér stað, sem vinnur með dæmisagnahugmyndinni en á móti raunsæiseðli verksins en truflaði hvorki né gerði gagn þegar upp var staðið. Íþróttavallarmerkingar á sviðsgólfinu þóttu mér meira truflandi en gefandi. Tónlist Veigars Margeirssonar er þénug og hógvær. Þýðing Kristjáns Þórðar Hrafnssonar stingur hvergi í eyru. Húsgögn og annar sviðsbúnaður naumhyggjulegur mjög, hér er öll áhersla á list leikara og nákvæma meðferð texta.

Fjórmenningarnir standa vel undir þeirri ábyrgð. Sýning Þjóðleikhússins á Efa er prýðistækifæri til að sjá framúrskarandi leikhóp flytja af öruggu listfengi vel uppbyggt og alvörugefið verk sem ætlar sér þegar upp er staðið aðeins um of sem drama en rígheldur leikhúsgestum, skemmtir og hreyfir við.