fimmtudagur, nóvember 15, 2018

Tvískinnungur

Eftir Jón Magnús Arnarsson. Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson. Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Tónlist: Young Nazareth. Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir. Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson. Leikarar: Haraldur Ari Stefánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Frumsýning á Litla sviði Borgarleikhússins 9. nóvember 2018.

Ástin á tímum óreglunnar


Leikhús er grímudansleikur. Enginn er það sem hann sýnist og í krafti gervisins er óhætt að bera tilfinningar sínar og sögu á opinskáan hátt á opinberum stað. Leikhús er skel af öryggisbúnaði fyrir hættulegar sálarlífsrannsóknir, kannski ekki ósvipað hinni óbrjótandi málmskel sem iðnjöfurinn Tony Stark byggði utan um sjálfan sig í upprunasögu ofurhetjunnar Iron Man, svo ekkert gæti stöðvað hann, nema þá ef gangráðurinn sem heldur hjarta Starks gangandi verði eldsneytislaus eða bili.

Þessi mótsagnakenndi og afhjúpandi feluleikur er eitt af því sem virðist hafa kveikt sköpunarneistann hjá Jóni Magnúsi Arnarssyni við samsetningu Tvískinnungs. Í upphafi sígur Járnmaðurinn niður úr loftinu í gegnum klifurgrindina sem myndar kjarna leikmyndar Sigríðar Sunnu Reynisdóttur. Tæknibúnaður Litla sviðsins; ljós, hljóð og myndvarpar, fer á fullt við að sannfæra okkur um að hér sé sjálf Marvel-hetjan á ferð. Það sama gerist þegar erkióvinurinn, Svarta ekkjan, sígur einnig á svið og upphefjast orðaskylmingar þeirra á milli, sem samstundis byrja líka að brjóta upp myndina. Eru þau á grímuballi? Þekkist fólkið í búningunum, eða er kunnugleikinn leikur sem þau leika vegna gervanna? Eða eru þau einfaldlega leikarar að pota í fjórða vegginn?

Enn bætist í flækjustigið þegar leikararnir taka á sig gervi sviðsmanna í leikhúsinu og þá er það samband leikaranna, sem baktjaldafólkið horfir á utan frá, sem leynist innst í þessari matrjúsku-dúkku. Eða er það samband sviðsmannanna sjálfra? Eða leikaranna sem leika þau? Þessi flókni speglasalur gæti verið ættaður úr búi Jeans Genet. Tryllt og ofbeldisþrungið neysluástarsambandið, sem reynist á endanum vera rótin, kveikjan og kjarninn í verkinu og allar spegilmyndirnar fletir á því, er líka eins og eitthvað sem hefði kveikt í því höfuðskáldi öfga og niðurlægingar.

En veldur hver á heldur. Það er ekki hægt að segja að þessi áræðna tilraun Jóns Magnúsar heppnist fyllilega. Kannski hefur gleðin yfir að henda svona marga tæknilega form-bolta á lofti villt honum og öðrum aðstandendum sýn um innihaldið. Því miður stendur ansi margt af meðölum sýningarinnar áhrifum hennar á endanum fyrir þrifum. Þar á meðal þessi flókna vinna með dulargervi, leik og raunveruleika, eins áhugaverð og hún er í sjálfu sér og „á pappírnum“. Það sama má segja með ofurhetjufyrirbærið sjálft, sem slær mig eins og snjöll grunnhugmynd, en er mögulega of stór og of frjó til að deila sviði og tíma með öllum hinum. Til þess bendir upphafssenan sem vekur talsverðar væntingar og forvitni. En með því að leggja svona mikla áherslu á gervi og grímur verða persónurnar okkur fjarlægar, örlög þeirra snerta okkur síður.

Annað sem nefna má sem djarfa formhugmynd sem nýtist ekki til fullnustu er hið rímaða og stuðlaða mál sem stór hluti leiktextans er skrifaður á, en Jón Magnús er í fremstu röð íslenskra ljóðaslammara nú um stundir. Bundið mál er ævafornt tæki í verkfærakassa leikhússins, en þær eru fáar tilraunirnar til að endurvekja það í nútímaleikhúsi sem ná tilgangi sínum. Mig hefur lengi grunað að einhvers staðar liggi samnefnari leikhúss og fagurfræði rímnaflæðis rapps og ljóðaslamms, en ekki enn séð hann birtast á sviði og það gerðist heldur ekki í Borgarleikhúsinu að þessu sinni. Rím er enda sérlega vandmeðfarið tæki í leiktexta, skapar alltaf hættu á að einfalda, létta, jafnvel skopgera viðfangsefnin. Þá setur bundið mál leiktextahöfundi skorður í orðavali sem getur neytt hann til að orða hugsanir sínar á hátt sem þjónar hvorki persónum né erindinu. Það er varla á færi nema stórskálda að fá þennan kapal til að ganga upp fyrir nútímaáhorfendum og það gerist ekki hér, þótt óneitanlega veki sumar hendingarnar gleði í eyra og huga. Snjallt og óvænt rím, líkingar eða myndmál stendur alltaf fyrir sínu.

Að frátalinni fyrrnefndri upphafssenu með ofurhetjunum skera tvær senur sig nokkuð úr hvað varðar áhrifamátt, önnur kómískan og hin dramatískan. Í báðum hafa sviðsmennirnir orðið. Önnur virtist spunnin af leikurunum út frá dauðasenu Rómeós og Júlíu, sem tekur stöðugt á sig gróteskari myndir í frásögn og einvígi leikaranna fyrir hönd þessara frægustu elskenda sviðsins. Og undir lokin lýsa þau fyrir okkur tveimur mögulegum endalokum sambands persónanna að baki allra gervanna sem sýningin hefur borið á borð. Dramatísk endalok, en jafnframt fáfengileg. Knúin áfram, eins og líklega sambandið sjálft, af taumleysi neyslunnar. Sambandi sem haldið er á lífi af meðvitundarleysinu sem henni fylgir. Þessi lýsing á grunn-atburði leikritsins er sterk og áhrifarík vegna innihaldsins, sterkari og áhrifaríkari en tilraunirnar til að búa honum leikbúning í aðdragandanum.

Tvískinnungur er krefjandi verkefni fyrir leikaraparið í öllum þessum hlutverkum sem flæða hvert inn í annað og kallast á í gegnum grímurnar. Þau Haraldur Ari Stefánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir ganga af fullri einurð á hólm við textann og persónurnar. Sýningin er ágeng og líkamleg, sem stundum verður á kostnað textavinnunnar, en rímuðu hlutarnir hefðu þurft talsvert meiri ögun og einbeitingu að möguleikum og hindrunum bundins máls. Það er óneitanlega meira áberandi hjá Haraldi Ara, sem er glæsilegur á sviði en býr sennilega ekki að sömu reynslu og Þuríður Blær í slagsmálum við slíkan texta. Það er líka alltaf stjörnuára yfir Þuríði Blævi á sviði sem fangar athygli áhorfenda hvað svo sem hún er að gera eða segja.

Ólafur Egill Egilsson fylgir öfgum og formtilraunum textans eftir í sviðsetningu sinni, beitir öllum helstu vopnum ágengs nútímaleikhúss. Háværri tónlist úr smiðju Young Nazareth og fleiri, rusli og óreiðu, mat, hljóðnemum, myndvörpun og lýsingu Þórðar Orra Péturssonar þar sem fagurfræði rokktónleika er til hliðsjónar. Þetta er trúlega eina rétta nálgunin en óneitanlega ýtir hún innihaldinu enn frekar undir yfirborðið. Búningar Sigríðar Sunnu eru flottir og viðeigandi, ofurhetjugervin sérstaklega vel útfærð.

Að koma nýjum og efnilegum leikskáldum til þroska er eitt af verkefnum „stóru leikhúsanna“. Vel má halda því fram að hvorugu þeirra hafi gengið þetta sérlega vel undanfarin ár, þótt Borgarleikhúsið sé þar sjónarmun betur á vegi statt. Hér hefur verið tekin djörf ákvörðun þar á bæ; veðjað á óreyndan höfund, sem ef marka má kynningarviðtöl er í viðkvæmri stöðu með sjálfan sig, auk þess að vinna á ágengan hátt með eigin sáru reynslu við smíði verksins. Útkoman er djörf tilraun þar sem unnið er með flókið form og krefjandi málsnið sem ekki tekst að láta vinna saman á fullnægjandi listrænan hátt. Óskandi er að Jóni Magnúsi Arnarssyni takist að stilla miðið og stæla kraftana eftir þessa eldskírn.