Meistarinn og Margaríta
Eftir Niklas Rådstöm, byggt á skáldsögu Mikhaíl Búlgakov. Þýðing og leikstjórn: Hilmar Jónsson. Leikmynd: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Búningar: Eva Signý Berger. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tónlist: Valgeir Sigurðsson. Sviðshreyfingar: Chantelle Carey. Hljóðmynd: Valgeir Sigurðsson, Aron Örn Arnarsson og Kristinn Gauti Einarsson. Leikgervi: Tinna Ingimarsdóttir. Leikendur: Bjarni Snæbjörnsson, Björn Ingi Hilmarsson, Brigitta Birgisdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Edda Björgvinsdóttir, Gunnar Smári Jóhannesson, Hákon Jóhannesson , Hildur Vala Baldursdóttir, Oddur Júlíusson, Pálmi Gestsson, Sigurður Sigurjónsson, Stefán Hallur Stefánsson, Þórey Birgisdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson. Frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins fimmtudaginn 26. desember 2019.
Skrattinn skemmtir sér
Það er ekkert erfitt að sjá hvað laðar leikhúsfólk að Meistaranum og Margarítu. Í þessari viðamiklu og viðburðaríku skáldsögu Búlgakovs er urmull skrautlegra persóna og atvika. Ærsl og ýkjur í bland við djúpa alvöru. Svo gerist hún á skömmum tíma á þröngt og skýrt skilgreindum stað (tveimur reyndar) og að hluta til í leikhúsi. Fyrir utan bíður síðan þétt skipaðu hópur aðdáenda bókarinnar.Ekki er samt allt sem sýnist, ekki frekar en í Moskvuborg þessa klukkutíma sem prófessor Woland og fylgdarlið hans fer þar um með ærslum og uppljóstrunum. Dæma lifendur og dauða gætum við sagt ef við værum í skapi til að leggja nafn Guðs við hégóma. Fljótlega ætti líka að renna upp fyrir leikgerendunum að það er snúið að þýða það sem gerir frægustu bók Búlgakovs, sem sjálfur var reyndar ekki síst leikskáld, svona heillandi yfir á mál leikhússins. Svo dæmi sé nefnt: þegar árekstrar hins hversdaglega og þess yfirnáttúrulega eru komnir upp á svið (þar sem allt er mögulegt) þá verða galdrarnir bæði sjálfsagðir, og líka fullkomlega gegnsæir. Leikhús er nefnilega hvorki bók, sem treystir á almáttugt ímyndunarafl lesandans, né CGI-vætt kvikmyndaver þar sem allt er hægt.
Þá er nokkuð snúið að miðla dýptinni í örlagasögunum þremur sem eru þungamiðja bókarinnar, innan um allt sjónarspilið. Meistarinn, Margaríta og þó einkum Pílatus, eru tragískar persónur, en harmur þeirra býr innra með þeim. Til að öðlast meðlíðan og skilning á sálarstríði landstjórans í Júdeu eftir fund sinn með Jesúa Ha-Notsri þurfum við þann aðgang að hugsunum hans sem Meistarinn og Búlgakov gefa okkur. Ef ætti að koma því til skila í leiksýningu þyrfti að skera rækilega niður sviðstíma kattar og kórstjóra. Og hver vill það? Eru það ekki aðallega þeir sem fólkið vill sjá?
Leikgerð Niklas Rådstöm leysir ekki þennan vanda og sviðsetning Hilmars Jónssonar kemur ekki nægilega til hjálpar. Rådstöm er ákaflega trúr bókinni, rekur nánast allt efni hennar í hér um bil sömu röð og þar er gert svo útkoman verður bæði heldur ódramatísk og óþarflega löng. Þá er hann ákaflega tregur til að sleppa nokkru því sem glatt gæti trygga lesendur bókar Búlgakovs. Það endar stundum í einhverskonar málamiðlunum, þar sem tæpt er á skemmtilegu efni án þess að gefa því raunverulegt líf. Hinn óstöðvandi kór er eitt dæmi og annað er tilgangslaus endursögn Korovévs og Behemots á orðaskiptum sínum við yfirþjóninn á veitingahúsinu. Útkoman gleður engan nema innvígða aðdáendur sem nægir smjörþefur.
Hilmari tekst síðan ekki að leysa þann vanda sem eðlislægar takmarkanir leiksviðsins skapa, þó gangverk sýningarinnar sé lipurt og umbreytingar fumlausar í flottri og snjallri, en kannski dálítið karakterlausri leikmynd Sigríðar Sunnu Reynisdóttur og glæsilegri lýsingarumgjörð Halldórs Arnar Óskarssonar. Spennan milli þess yfirnáttúrulega og hins hversdagslega í þessu guðlausa harðstjórnar- og eftirlitsríki lifir ekki af ferðina upp á leiksvið þar sem allt er mögulegt og talandi köttur í yfirstærð er bara leikari í loðfeldi. Fjarvera samhengisins sem sagan er skrifuð inn í er síðan kapítuli út af fyrir sig. Við fáum aldrei tilfinningu fyrir Moskvu Stalínstímans með sinni gráu kúgun, ósýnilegu ógn, skorti, þrengslum og spillingu. Búlgakov gekk út frá meðvitund lesenda um þetta, leikgerð og sviðsetning virðist líta svo á að það skipti ekki máli. Ég efast um að það sé rétt. Allavega vakti sýningin hvað eftir annað upp spurninguna: af hverju er verið að sýna mér þetta? Hvert er erindi þessa efnis við mig?
Eins og fyrr sagði gerir ágripskennd og framvindudrifin leikgerðin aðalpersónunum og sálarkvölum þeirra enga greiða. Fyrir vikið verða Meistari Stefáns Halls Stefánssonar og Pílatus Pálma Gestsonar ekki mjög burðugar persónur þó myndugleikinn kæmist vel til skila hjá þeim síðarnefnda og Stefán finndi bæði alvöru og skop í smámynd sinni af Jesúa. Um Margarítu gegnir aðeins öðru máli, bæði bók og leikgerð sýna hana aðallega í nornaham, en annars er mynd hennar að stórum hluta í endursögn Meistarans af ástþrungnum tíma þeirra áður en bókin um Pílatus eyðileggur allt. Birgitta Birgisdóttir skilaði undrun og gleði hinnar umbreyttu Margarítu vel. Bjarni Snæbjörnsson var skoplegur þar sem rennur upp fyrir Ívan hans Bésdomní að þó hann sé ekki geðveikur þá muni enginn trúa öðru en að svo sé.
Sigurður Sigurjónsson var yndislega ísmeygilegur sem Woland og hvert einasta af hinum mörgu hnyttiyrðum þess skrattakolls hittu í mark í salnum. Sýningin staðfestir líka það sem Atómstöðin gaf vísbendingu um: það er fyllsta ástæða til að binda vonir við Ebbu Katrínu Finnsdóttur sem er myndugleikinn uppmálaður sem Korovév, hin athafnasama og köflótta hægri hönd kölska og kórstjóri í hjáverkum. Oddi Júlíussyni tókst hinsvegar ekki að leysa þann vanda að gera köttinn Behemoth skemmtilegan. Hið alltumlykjandi gervi Tinnu Ingimarsdóttur og búningur Evu Signýar Berger þvældust líka fyrir, en kannski eru skemmtilegheit Behemoths líka illflytjanleg af blaði á svið eins og áður sagði. Aðrir leikendur bregða sér í fjölmörg hlutverk og gekk það allt lipurlega.
Búningar Evu Signýjar eru glæsilegir og íburðarmiklir, ekki síst biblíumyndaraunsæið í píslarsögunni. Ég hefði samt kosið að Rússland fjórða áratugarins birtist okkur jafn skýrt. Tónlist Valgeirs Sigurðassonar hefði líka getað hjálpað okkur betur að upplifa stund og stað. Hún hjálpaði eflaust við að skapa réttu hughrifin, en dálítið sviplaus, fyrir utan tröllslega útgáfu vínarvalsins á ballinu endalausa.
Það má hafa gaman af einu og öðru í þessari stórsýningu, en ekki hvað. Engu að síður vekur nokkra furðu að þessari dálítið gamaldags leikgerð á torsviðsettri erlendri skáldsögu sé fenginn slíkur heiðurssess á leikárinu. Dómar um frumuppfærslu Dramaten benda ekki til að þar hafi verið unninn einhver mikilsháttar listrænn sigur heldur. Sýningin verður auðvitað sjálf að sannfæra áhorfandann um erindi sitt. Það gerir Meistarinn og Margaríta ekki svo fullnægjandi sé.
x
<< Home