fimmtudagur, nóvember 07, 2019

Atómstöðin

Eftir Halldór Laxness Halldórsson, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur, byggt á skáldsögu Halldórs Laxness. Dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikmynd og búningar: Mirek Kaczmarek. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson, Kristinn Gauti Einarsson og Gísli Galdur Þorgeirsson. Leikarar: Ebba Katrín Finnsdóttir, Björn Thors, Birgitta Birgisdóttir, Arnmundur Ernst Backman, Snæfríður Ingvarsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Stefán Jónsson, Snorri Engilbertsson, Hildur Vala Baldursdóttir, Oddur Júlíusson, Edda Arnljótsdóttir og Eggert Þorleifsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins föstudaginn 1. nóvember 2019.

Upprunagoðsögn 

ógeðslegs þjóðfélags

Það blasir ekki við fyrir fram að Atómstöðin eigi sérstakt tilkall til þess að verða tekin til viðamikils endurmats á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Svo mjög er hún bundin ritunartíma sínum, skrifuð sem beint innlegg í hitamál samtíma síns, svo full af vísunum og tímabundnum skotum og skopmyndum sem löngu eru orðnar óskiljanlegar öðrum en elstu mönnum og æstustu og fróðustu aðdáendum. Fyrir utan að hér setur Halldór Laxness listræn viðmið í annað sæti á eftir pólitísku erindi á afgerandi hátt, og það sést. Atómstöðin er ekki meðal hans bestu bóka. Suma ágallana tekst ekki að leysa á sviði Þjóðleikhússins. Tilvísunin í freistingar Krists í eyðimörkinni verður til dæmis alltaf eitt vandræðalegasta uppátæki Nóbelsskáldsins, svo einn smávægilegur sé nefndur. Aðrir reynast vera óvæntir styrkleikar. Stærsti sigur „endurlits“ Dóra DNA leikgeranda og Unu Þorleifsdóttur leikstjóra og meðleikgeranda er að sýna fram á með sinni meðferð efnisins og eigin viðbótum að enn er ómaksins vert að rifja þetta allt saman upp.

Lykilatriðið er þar að setja ákvarðanir borgarastéttarinnar um sölu landsins og túlkun Halldórs á þeim í forgrunn á kostnað þroska- og ástarsögu Uglu og skrautlegs bóhemlífsins í húsi organistans. Hvort tveggja er þarna, en allra augu beinast að landsölufólkinu. Framlag Dóra og Unu er síðan sú augljósa spurning sem árin frá ritunartíma sögunnar hafa svarað: hvað fengu þau greitt fyrir góssið? Hér er afhjúpað hið ógeðslega þjóðfélag sem trússbinding Íslands við vestræna gróðahyggju gat af sér. Skálkaskjól valdastéttarinnar í þeirri heimagerðu, gerspilltu útgáfu af kapítalisma sem hér varð til, sölumönnunum og afkomendum þeirra til dýrðar og auðsöfnunar. Kjarni sýningarinnar eru enda uppbrot hennar: þegar hinum róttæka Pilti og hans fólki ofbýður framferði yfirstéttarinnar og kalla fram viðbrögð. Hápunkti nær Atómstöðin – endurlit rétt fyrir hlé þegar Búi Árland fær orðið og flytur magnaða en þó fyrst og fremst afhjúpandi ræðu um hvað blessað stríðið og Marshallaðstoðin gaf þjóðinni, en þó fyrst og fremst hans fólki. Og þótt tilvísanir Halldórs til þjóðþekktra fyrirmynda í bókinni séu horfnar í rykið fer væntanlega ekki framhjá neinum leikhúsgesti hvaðan Björn Thors sækir innblásturinn í meðferð sína á varnarræðu hægrisins.

Þessi eitraða vísun á síðan sinn þátt í að torvelda meðferð annars helsta efnisþráðar verksins. Það verður satt að segja með öllu ómögulegt að skilja, eða finna fyrir, nokkru einasta sambandi milli Búa og Uglu, sérstaklega hvað hana varðar. Hvernig getur hún fengið í hnén út af þessu gerpi? Ekkert í túlkun persónanna eða áherslum sýningarinnar hjálpar okkur að skilja það. Fyrir vikið nær seinni hlutinn, þar sem prívatlíf Uglu og persónulegt uppgjör hennar við ástmenn og samfélag er í forgrunni, ekki þeirri dramatísku dýpt sem hann þarf. Saga Uglu er útúrdúr frá markmiðum og áherslum sýningarinnar, eins og Pilturinn bendir reyndar á í frábærri ræðu að saga Uglu er ekki um framtíð landsins og svik borgarastéttarinnar, sem er aðalmálið, heldur „bara krúttleg ástarsaga um sveitastelpu sem flyst í bæinn og verður ástfangin af myndarlegum ráðherra á besta aldri …“ Ástarsaga Uglu er hér séð sem enn ein „afvegaleiðingin“, sem er lykilorð í uppfærslunni og oft notað á sláandi hátt.

En sú afvegaleiðing fær að taka yfir stóran bút síðari hluta verksins. Sem auk þess líður fyrir að Búi er eins og hann er í túlkun Unu, Dóra og Björns, feimna löggan dálítið litlaus (en stundum sniðug samt) hjá Oddi Júlíussyni og síðast en ekki síst: hin óleysanlega þraut sem Ugla Falsdóttir er sjálf frá hendi höfundar. Þessi saklausa en djúpvitra, heimóttarlega en sjálfsörugga, luralega en ómótstæðilega yngismær sem allir falla fyrir er smíð sem virkar í bók en varla á sviði. Ebba Katrín Finnsdóttir skilar textanum og afstöðu persónunnar fallega og eins skilmerkilega og ætlast verður til, ekki síst eintölum síðari hlutans. En henni er um megn að sætta mótsagnirnar. Það er óvinnandi vegur að vera heilsteypt Ugla í sviðsetningu túlkunar sem vill hana helst ekki. Undarlegur búningurinn hjálpar okkur ekki neitt, þessi pokalegi hvíti kjóll sem mér tókst ekki að skilja hvert vísaði. Annars eru búningar Mireks Kaczmareks smartir.

Leikmynd Mireks er síðan stórglæsileg. Ber hvítleitur kassi með bekkjum sem í upphafi mynda kirkjuskip með orgelharmóníum til hliðar. „Musteri íslenskrar tungu“ var fyrsta hugsunin sem kviknaði, en fljótlega er allt komið úr tilbeiðslugírnum sem betur fer. Una Þorleifsdóttir er á góðum degi alveg sérlega flinkur sviðsetjari og hér rekur hver sláandi fagra og sterka myndin aðra. Gangurinn er hægur en alltaf gerist eitthvað áhugavert í flæðinu. Ég renni grun í að leikmyndin hafi samt sett ljósahönnuði grimmar skorður, allavega er útkoman þannig hjá Ólafi Ágústi Stefánssyni að erfitt var að greina svipbrigði í birtunni sem í boði er, sem torveldar okkur leiðina að persónunum. Tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar er töff.

Fyrir utan þá leikendur sem þegar hafa verið nefndir er rétt að nefna Birgittu Birgisdóttur sem skapaði sannfærandi yfirstéttarkonu og fann í henni léttleika sem ég hef ekki séð í fyrri holdgervingum hennar. Landaljómi Arnmundar Ernsts Backmans hafði greinilega gengið í sama stjórnmálaskóla og faðir hans. Það gustaði af Piltinum, einbeittum kommúnista Snorra Engilbertssonar og túlkun Stefáns Jónssonar á organistanum var ánægjulega víðsfjarri ullarvestismildingum hefðarinnar. Þar hitti búningur og gervi líka beint í mark. Allur leikhópurinn stendur sína plikt, en heilt yfir er persónusköpun ekki í forgrunni nálgunarinnar.

Endurlit Dóra DNA og Unu Þorleifsdóttur á Atómstöð Halldórs Laxness er að mörgu leyti sterk sýning. Afburðavel sviðsett í glæsilegri umgjörð og setur sitt pólitíska ljós aldrei undir mæliker. Hér er fylgt fordæmi skáldsins og málað með breiðum pensli og barið með þungri sleggju. Leikgerðin leysir ekki alla snókera bókarinnar, er stundum í hægari takti en ég hefði kosið, heldur til haga meiru af efni bókarinnar en beinlínis var nauðsynlegt og hefði ekki þurft að vera jafn löng og tilfellið er. En það er bit og flug í viðbótartextum Dóra. Dirfskan og sannfæringin er þarna, gleður, ergir og vekur.