mánudagur, mars 30, 2020

Skattsvik Development Group

Óvelkomnir í betri stofuna

Breski grínistinn David Mitchell, sem er frægur fyrir sína reiðu rökvísi, benti einu sinni á að meðan skattaundanskot væru möguleg mætti líta á alla skattheimtu sem skatt á heiðarleika: skatthlutfallið ræðst af því hversu hreint þér finnst rétt að koma fram við yfirvöld. Sýningin Skattsvik Development Group undir merkjum tilraunaverkefnisins Umbúðalaust í Borgarleikhúsinu leiðir hins vegar í ljós að óheiðarleiki er ekki nóg til að koma peningum undan.

Það fer vel á því hjá Ást og karókí að sýna á þessum vettvangi, því form sýningarinnar er nokkurskonar skýrsla um tilraun: Getur íslenskur leikhópur skotið þóknun sinni undan skatti með „hefðbundinni“ skattaskjólsfléttu? Stutta svarið er: nei. Drengirnir komast nokkuð áleiðis með áform sín, enda reynist þroskaður þjónustuiðnaður þrífast víða um heim til að auðvelda slíka vafninga, en á endanum strandar allt á of þröngum fjárhag. Nýleg íþyngjandi löggjöf spilar þar líka inn í en þó er ljóst að þetta hefði gengið upp ef upphæðirnar hefðu verið hærri en sem nemur fimm mánaðarlaunum listamanna í nýgræðingaflokki. Enn sem komið er eru þeir Adolf Smári Unnarsson, Birnir Jón Sigurðsson, Friðrik Margrétar- Guðmundsson, Matthías Tryggvi Haraldsson og Stefán Ingvar Vigfússon óvelkomnir í koníaksstofu þeirra sem eiga það einungis við eigin heiðarleika hvað þeir greiða til samfélagsins. Samkvæmt upplýsingum frá einum ráðgjafa þeirra félaga eru um 70% allra peninga heimsins í skattaskjólum. Það er sú tala sem endurómar í höfði áhorfenda þegar þeir ganga út úr Borgarleikhúsinu eftir skýrsluna. Trúlega dramatískur hápunktur sýningarinnar.

Þó að Ást og karókí hafi ráðist í þennan skítlega leiðangur er heiðarleiki grunntónn sýningarinnar. Þannig gangast þeir fúslega við því að það sem þeir bjóða upp á muni minna á efnistök annars íslensks ólíkindaleikhóps: Kriðpleirs. Það eru orð að sönnu, og natúralískur vandræðagangshúmorinn liggur vel fyrir Á&K-mönnum. Það birtist strax í upphafi þar sem þeir kynna sig hver og einn til sögunnar og afhjúpa sig sem – eðlilega – allnokkuð fákunnandi í þeirri list að svikja undan skatti. Og svo – sem er öllu verra – reynast fæstir þeirra bera skynbragð á strangheiðarlega skattaskýrslu. Hápunkti nær þetta gaman þegar þeir glíma við það snúna verkefni að koma bréfi í hraðpóst, og endist varla vinnudagur til þess.

Að því ævintýri undanskildu er sýningin í sjálfu sér ekki sérstök skemmtun, og ætlar greinilega ekkert endilega að vera það. Síðasti hluti hennar, vídeóspjallið við úrræðagóða ráðgjafann með upplýsingarnar um hvar 7/10 af auðæfum heimsins eru niðurkomin, er til dæmis ansi dauflegt sem leikhús. Það er ekki heiglum hent að skilja hvað maðurinn er að leggja til, og það er ekki eins fyndið hvað félagarnir botna lítið í því þegar áhorfandinn er jafn litlu nær.

Engu að síður: Allir þessir ósýnilegu peningar. Allt þetta fólk sem vinnur við að koma fé hinna ríku undan. Allar þessar girðingar sem stöðva bara meðaljóninn. Og þessi tæpi þriðjungur fjármuna heimsins sem stendur undir samneyslunni og allir njóta. Líka þeir sem eiga rest. Það er alveg kvöldstundar virði að láta minna sig á þetta.