þriðjudagur, september 22, 2020

Beðið eftir Beckett

Eftir Trausta Ólafsson byggt á textum Samuels Beckett og brotum úr verkum Dante Alighieri, Hallgríms Péturssonar og Antonins Artaud. Leikstjórn: Trausti Ólafsson. Íslensk þýðing: Trausti Ólafsson, Guðmundur Böðvarsson og Friðrik Rafnsson. Lýsing: Sigurvald Ívar Helgason. Leikmynd og búningar: Marsibil G. Kristjánsdóttir. Tónlist: Hjörleifur Valsson. Leikari: Elfar Logi Hannesson. Sendiboði: Tóbías Dagur Úlfsson. Kómedíuleikhúsið í samstarfi við Senuþjófinn frumsýndi í Kómedíuleikhúsinu Haukadal 30. ágúst 2020, skrifað um sýninguna 9. september 2020 í Tjarnarbíói.

Stefnumótið sem ekki varð


Ef ég vissi hver Godot er hefði ég látið það flakka, sagði Samuel Beckett um sína frægustu persónu. Eða eitthvað í þá átt. Það er semsagt alveg opið fyrir túlkun hver hann er, þessi dularfulli hugsanlegi velgjörðarmaður þeirra Vladimirs og Esdragons í Beðið eftir Godot. Það er allt opið, og þó algengast sé að tengja hann við almættið sjálft er alveg ógalið að stilla Beckett sjálfum upp sem þessum fjarverandi heiðursgesti í lífsdramanu tíðindalausa, eins og Trausti Ólafsson gerir í einleiknum Beðið eftir Beckett. 

Að sjálfsögðu hefur a.m.k. titillinn verið notaður áður, eins snjall og borðleggjandi og hann er; til er heimildarmyndin Waiting for Beckett um líf og störf skáldsins frá árinu 1993. En hún fjallar vafalaust ekki um leikara sem mátar við sig nokkur af helstu verkum skáldsins meðan hann bíður eftir að það láti sjá sig. Árangurslaust auðvitað. Beckett á ekkert vantalað við túlkendur verka sinna. Allt sem hann vildi sagt hafa hefur þegar verið skrifað. Að sönnu nokkuð órætt sumt, og kannski ekki allt jafn djúpt eða merkilegt og óræðnin gefur óneitanlega í skyn, en það besta óumdeild snilld. Og burtséð frá textanum: ekkert leikskáld sögunnar hefur skapað annað eins af myndum sem hafa náð fótfestu í sameiginlegu menningarminni okkar. Blindur maður með annan í taumi. Hjónin í ruslatunnunum. Konan í sandhaugnum. Munnurinn sem getur ekki þagnað. Samuel Beckett er ekki bara skarpur og óvægin túlkandi og greinandi mannsandans á tuttugustu öld. Hann er partur af heimsmynd hans.

Það er Beckettlega um að litast á sviðinu þegar Elfar Logi Hannesson gengur inn til að hefja bið sína eftir skáldinu. Frakki hangir á herðatré niður úr loftinu. Tveir litlir trékistlar. Og að sjálfsögðu nakið tré, sem reyndar er „leikið af“ orfi og ljá. Fullvissan um dauðann er alltaf í loftinu og milli orðanna hjá Samuel Beckett. Þetta er falleg og fáguð mynd, Marsibil G. Kristjánsdóttir er höfundur leikmyndar og búninga. Gervi leikarans er beint úr staðalmynd okkar af flækingunum í Beðið eftir Godot. Þvæld kjólföt og kúluhattur. Göngustafur. Ekki stígvél reyndar heldur skór sem Elfar fer í og úr. 

Grunnerindi leikarans er skýrt. Hann bíður skáldsins og drepur tímann með að róta í koffortunum og textum eftir Beckett og aðra sem tengjast honum eða hugmyndir kvikna upp við upprifjunina og biðina. Fyrirferðarmest (og auðþekkjanlegust) eru brot úr Beðið eftir Godot og einleiknum makalausa, Ekki ég, sem Beckett skrifaði árið 1972. Einnig þar bauð hann ekki upp á neina hjálp til skilnings. „Ég veit ekki hvar hún er eða hvers vegna. Textinn er það eina sem ég þekki“, skrifaði hann Alan Schneider, leikstjóra frumuppfærslunnar.

Trausti Ólafsson er ekki á þeim buxunum að hjálpa okkur neitt til skilnings. Hvorki á Beckett, né hvað leikaranum gengur til með bið sinni. Óræðnin í þeim texta þar sem leikarinn talar „frá eigin brjósti“ er síst minni en í textabútunum sem hann mátar sig við. Þeir eru óneitanlega heldur lágfleygari sem skáldskapur, stundum vandræðalega bernskir. En virka hvorki sem lím eða leiðarvísir. 

Þar hjálpar ekki nálgun leikstjórans. Sú ákvörðun að láta leikarann mæta okkur „í hlutverki“ ef svo má segja. Í búningi, með áberandi leikræna, jafnvel trúðslega, takta. Með augljóslega nákvæmlega fyrirskipaðar og æfðar hreyfingar og samskipti við leikmuni sem aldrei urðu almennilega lífrænar og áttu kannski aldrei að vera það. 

Eins mótsagnakennt og það má virðast þá komumst við næst leikaranum Elfari Loga í viðureign hans við textabrotin frá Beckett sjálfum. Kannski sérstaklega við eintalið óræða Ekki ég, þennan furðulega, staglsama og sundurlausa flaum. Þar var svolítið eins og leikarinn léti flauminn taka yfir, leyfði orðunum að tala fyrir sig sjálf. Ekki ósvipað og höfundurinn sem neitar að stíga inn í samtal textans við þá sem um hann véla. Það flökraði að rýni á þessum stundum hvað hefði verið gaman að sjá Elfar og Trausta ganga á hólm við einhver af eintölum Becketts, án þessara tilbrigða. Síðasta segulband Krapps kom upp í hugann.  

Alla vega náðist ekki hér að skapa áhugaverða spennu milli leikara og höfundarins fjarverandi, milli glímunnar við textana og eigin hlugleiðinga. Kannski var ekki ætlunin að byggja Beðið eftir Beckett á þeirri spennu. En verkið og sýningin láta þá of lítið uppi um hvað höfundum hennar liggur annað á hjarta. 

Tónlist er í mikilvægu hlutverki, vel samin, valin, útsett og flutt af Hjörleifi Valssyni. Lýsing Sigurvalds Ívars Helgasonar falleg og innkoma sendiboðans snyrtilega leyst af hinum unga Tóbías Degi Úlfssyni.