Ástardrykkurinn
Kátlegar kvonbænir
Segja má að nýhafinn menningarvetur muni gefa okkur ágætt yfirlit um ólíkar leiðir til að koma sígildum óperum til þeirra sem unna því listformi. Og jafnvel að stækka þann þrönga hóp, og þá ekki síður yngja aðeins í honum. Í byrjun nóvember hefjast sýningar á ný á hinni ástsælu La Traviata eftir Verdi, fyrst í Hörpu en síðan Hofi á Akureyri. Í febrúar býður Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska óperan upp á tónleikauppfærslu á Valkyrju Wagners. Og nú standa yfir sýningar á Ástardrykknum eftir Donizetti í Þjóðleikhúskjallaranum á vegum Sviðslistahópsins Óðs. Þar er allt skorið inn að beini. Fjórir söngvarar, einn píanóleikari og verkið hraustlega stytt. Og – tölum meira um að síðar – sungið á íslensku.
Þetta er vægast sagt frábærlega heppnað hjá Óði. Það má ekki á milli sjá hvert þeirra nýtur sín best, Ragnar Pétur Jóhannsson (hinn útsmogni skottulæknir Dulcamara), Þórhallur Auður Helgason (hinn ástsjúki en illa blanki Nemorino), Jón Svavar Jósefsson (montprikið Belcore) eða Sólveig Sigurðardóttir (hin eftirsótta Adina). Nú eða Sigurður Helgi Oddsson, sem Ragnar Pétur sækir út í sal í upphafi sýningar til að redda málunum við hljóðfærið. Það er afslöppuð en orkurík leikgleði í öllum framgangi flytjendanna, og þó verkið sé vissulega ákaflega karlmiðað og möguleikar til að „fara á kostum“ í skoptöktum séu fyrst og fremst hjá strákunum þá bætir Sólveig það upp með aldeilis glæsilegum flugeldatónum í sínum glansnúmerum. Ekki það að söngurinn sé almennt neitt minna en stórfínn.
Vinna leikstjórans, Tómasar Helga Baldurssonar, er traust þar sem það á við en laus þegar slík tök eru betri. Og þau eru vissulega betri þegar jafn flinkir stuðboltar standa á sviðinu og hér er raunin. Sigurður Helgi Oddsson sá um að búa verkið til flutnings í þessu formi. Og síðast en ekki síst: Sólveig Sigurðardóttir og Guðmundur Sigurðsson þýða textann svona líka lipurlega.
Sem er algert lykilatriði. Hin sérkennilega tregða við að flytja óperur á máli sem áhorfendur skilja (og flytjendur hugsa á og dreymir í) held ég að sé eitt af því sem heldur „óinnvígðum“ áhorfendum og þeim sem yngri eru í burtu. Verkin virka ekki sem leikhúsverk með framandgervingu ítölskunnar (nú eða rússnesku eða ungversku) milli sviðs og salar. Hér er salurinn með á nótunum, og skemmtir sér eftir því.
Og þarf Ástardrykkurinn nokkuð meira en þetta? Þetta er nú ekki merkileg tónlist og dramatískt innihaldið síst bitastæðara en rauðu ástarsögurnar. Það vekur eiginlega furðu að hornsteinn óperulistarinnar í landinu, Íslenska óperan, hafi fyrir nokkrum árum tjaldað öllu til við að segja þessa tvívíðu sögu. Hló einhver þá? Nema þá til að gefa í skyn að viðkomandi væri með á nótunum í ítölskunni.
Í uppfærslu Sviðslistahópsins Óðs fær Donizetti allt sem hann verðskuldar og áhorfendur allt sem þeir þurfa. Fallegan söng, fölskvalausa leikgleði og aðgang að gríninu. Halda þessu áfram og hver veit hvað gerist með framtíð óperunnar á Íslandi. Takk fyrir mig.
<< Home