sunnudagur, október 16, 2022

Hríma

eftir Aldísi Davíðsdóttur, Ágústu Skúladóttur, Orra Huginn Ágústsson og Þóreyju Birgisdóttur. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir og Orri Huginn Ágústsson. Tónlist: Sævar Helgi Jóhannsson. Grímugerð: Aldís Davíðsdóttir. Leikmynd: Auður Ösp Guðmundsdóttir og Högni Sigurþórsson. Búningar: Auður Ösp Guðmundsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefásson. Leikendur Aldís Davíðsdóttir og Þórey Birgisdóttir. Frumsýnt í Tjarnarbíói sunnudaginn 16. október 2022.

Einveran 

Nýjabrumið er ekki farið af heilgrímulistinni, þó Hríma sé þriðja sýningin þar sem Aldís Davíðsdóttir og Ágústa Skúladóttir rannsaka tjáningarmögleika hinna frosnu andlita, að þessu sinni með Orra Hugin Ágústsson sem meðleikstjóra. Enn vekur þessi sérkennilegi angi leiklistarinnar furðu. Hvað verður sagt án orða og svipbrigða? Hvað leggja áhorfendur með sér í túlkun þess sem fram fer? Enn horfum við ekki síst eftir því hvað formið sjálft gengur út á, stundum á kostnað þess að láta viðfangsefnið eða söguna gagntaka okkur.
Við vitum þó, eftir reynsluna af Hjartaspöðum og Hetju, að gaman og harmur liggja álíka vel fyrir heilgrímum Aldísar. Þar hjálpar vitaskuld hin ljóðræna nákvæmni í hreyfingum og umgengni við leikmuni, sem einkennir gjarnan sýningar Ágústu, og Aldís sjálf nær sífellt þéttari en um leið mýkri tökum á, og mótleikarar hennar oftast líka. Tímasetning viðbragða og óvænt uppbrot endurtekningarinnar skilar hlátri, jafnvel þegar viðfangsefnið er jafnmyrkt og það er að þessu sinni.
Einbúinn Hríma hefur búið um sig fjarri mannheimum. Til að bæla eftirköstin af ofbeldi í fortíðinni. Um leið nærir hún og viðheldur skaðanum – getur ekki annað. Allt í lífi hennar er í föstum skorðum allt þar til óvæntur gestur birtist, sest að og hristir stoðirnar þannig að draugar fortíðarinnar sleppa úr fjötrum sínum. Dásamleg leikmynd – réttnefnd leiktjöld – Auðar Aspar Guðmundsdóttur og Högna Sigurþórssonar mynda skjólið sem Hríma hefur. Varnarvirki en jafnframt fangelsi. Veikburða himnur, og um leið og almennilega gustar í tilfinningarótinu halda þau auðvitað hvorki veðri né vindum. 
Sagan er dramatísk, en um leið dæmigerð. Hefur oft verið sögð áður. Þögult leikhús á borð við þetta ræður betur við hið almenna en hið einstaka. Dýpri skoðun kallar á smáatrið og sérstöðu í aðstæðum og atvikum, samhengi samfélags og menningar, sem illa komast til skila í þessu formi. Á móti kemur hið skáldlega afl tákna og líkinga sem skorður grímuleiksins kveikja hjá áhorfandanum. Það hættir ekki að vekja gleðiblandna lotningu hve lifandi grímurnar verða í gangi leiksins. Maður getur næstum svarið að víst sýni þær svipbrigði!
Að þess sinni leiddi atburðarásin athyglina að því hvað þessi svipbrigðasjónhverfing magnast mikið frá því að Hríma stendur ein á sviðinu með engan annan mótleik en frá kaffikönnu og þvotti á snúru, til þess sem gerist þegar hrakinn bréfberin álpast inn í hýði hennar. Þá fyrst byrja grímurnar að tala fyrir alvöru – sem endurspeglar auðvitað hvernig Hríma endurheimtir líf sitt í rótinu sem kemst á líf hennar við heimsóknina, við samneyti við annað fólk.
Aldís sjálf nær sífellt traustari tökum á að kveikja líf í grímunum, auk þess að vera sjálf hönnuður þeirra og höfundur. Að þessu sinni er Þórey Birgisdóttir mótleikarinn og skilar sínu með miklum sóma. Persónuleiki gestsins verður aldrei fyllilega heilsteyptur, en þetta er heldur ekki sagan af honum. 
Tónlist Sævars Helga Jóhannssonar er sérlega falleg og vel hugsuð, gegnir mikilvægu hlutverki í framvindu og mótun andrúmsloftsins. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar skilar einnig sínu til að magna heildaráhrifin. 
Það er ástæða til að hvetja áhugafólk um tjáningarmöguleika sviðslistanna til að sækja Hrímu heim í Tjarnarbíó og verða vitni að galdri sem er sér á parti í flórunni. Vonandi heldur vegferð Aldísar Davíðsdóttur í rannsókn á lífinu sem leynist í föstum andlitsdráttum heilgrímunnar áfram lengi enn.