Sjö ævintýri um skömm
Eftir Tyrfing Tyrfingsson. Leikstjórn: Stefán Jónsson. Leikmynd. Börkur Jónsson. Búningar: Þórunn Elísabet Sveinsdóttir. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Sviðshreyfingar: Sveinbjörg Þórhallsdóttir. Hljóðhönnun: Kristján Sigmundur Einarsson og Gísli Galdur Þorgeirsson. Leikendur: Edda Arnljótsdóttir, Eggert Þorleifsson, Elva Ósk Ólafsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Ilmur Kristjánsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Vincent Kári van der Valk. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins föstudaginn 1. apríl. 2022.
Löggulíf
Eftir því sem ég kemst næst eru næstum nákvæmlega fimm ár síðan leiksýning byggð á nýju íslensku handriti rataði á stóra svið Þjóðleikhússins án þess að vera stórsjó af söngleikjakyni, leikgerð skáldsögu, eða þá hvort tveggja. Verkin sem sýnd voru með mánaðarmillibili vorið 2017, svo ágæt sem þau þó voru fyrir sinn hatt eru þó hvorugt gott dæmi um „rækt við íslenska leikritun“ sem við krefjumst jú af Þjóðleikhúsi okkar, öðrum leikhúsum fremur. Annað lausbeislað samsköpunarverk með bútum úr öðrum verkum (Álfahöllin), hitt fimmtíu ára gamalt ósýnt verk úr safni látins leikritunarjöfurs (Húsið). Ég hef ekki tíma eða þægilegt upplýsingsaðgengi til að leita uppi nýjasta dæmið um nýsamið íslensk leikrit á stóra sviðinu, en það er allavega eldra en þetta.
Hvað veldur má svo deila um, og sjálfsagt að listrænir leiðtogar hússins og fulltrúar leikskáldastéttarinnar bendi ásakandi hvorir á aðra og skiptist jafnvel á skoðunum. Vonandi eru þeir samt sammála um að þetta getur ekki verið eðlilegt ástand. Vonandi er nýjasta verk Tyrfings Tyrfingssonar til merkis um að þetta standi til bóta, ekki síst í ljósi þess að það hefði ekki þurft neina ofurmannlega hugkvæmni til að koma því fyrir í Kassanum eins og öllum hinum. Á sama hátt og bæði Auglýsing ársins og Helgi Þór rofnar hefðu farið létt með að fylla út í rými í fullri stærð, en Nýja sviðið, Kassi þeirra í Borgarleikhúsinu, látið duga.
Sjálfur segir Tyrfingur í viðtali við Morgunblaðið í aðdraganda frumsýngar Skammarævintýranna að þegar hann lærði sína leikritunariðn þótti glíman við þrönga rýmið merkilegri. Fyrir þau sem fylgst hafa með Tyrfingi springa út sem leikskáld á undanförnum árum kemur ekkert á óvart að óstýrlátt ímyndunarafl hans njóti sín í víðernunum. Og svo hitt: ef honum er sagt að eitthvað sé fínt er hann skálda líklegastur til að halda í þveröfuga átt.
Það vottar heldur ekki fyrir neinum hátíðleika eða rembingi í Sjö ævintýrum um skömm. Það er frekar að afþreyingarlágkúra streymisveitnanna svífi yfir vötnum lengi vel. Sem betur fer. Lögreglukonan Agla, sem brotið hefur brýr að baki sér, brýst inn á viðtalsherbergi geðlæknis og heimtar lyf sem slævi hana og svæfi svo hún nái stjórn á óstýrlátum huga sínum og koma megi í veg fyrir að hún drepi sambýliskonu sína. Læknirinn á sér drauma um að brjóta blað í sínum fræðum með byltingarkenndri meðferð og tekst að fresta lyfjainntökunni meðan hann grefst fyrir um rætur vanlíðanar hennar með aðferðinni, sem felst í að rifja upp fortíðina í formi, eða undir yfirskini, „ævintýra“.
Tónninn í þessum inngangssenum er anarkískur, meinfyndinn og undirbyggður af allskyns dægurmenningarklisjum um heimskar og/eða tilfinningalega heftar löggur, drykkfellda og útbrunna geðlækna og, þegar við komumst aðeins lengra inn í ævintýrið um Öglu, samfélagsmiðlaverur með sjálfhverfu á lokastigi og tilfinningalega fjarlæga foreldra, að ógleymdum kanamellunum. Undir og innan um fáránleikann er síðan áfallasaga Öglu, kunnugleg harmsaga um arfinn sem vanræksla, svik og neysla skilar milli kynslóða. Ef þetta væri sálfræðilegt raunsæisdrama væri þetta leikritið um Eddu, dóttur kanamellunnar og móður Öglu, sem ung þurfti að brynja sig gegn tilfinningum og horfir ráðalaus á dóttur sína ganga glötunarbrautina.
En Sjö ævintýri um skömm er ekki sálfræðilegt raunsæisdrama. Í síðari hlutanum reynir verkið að nálgast þá hefð, en missir um leið nokkur flugið og tak sitt á allavega þessum áhorfanda. Senurnar lengjast og það kemur í ljós að samspil Öglu og geðlæknisins sem heldur fyrri hlutanum á teinunum er mikilvægara en blasti við þar, í ofgnótt lita og dýrðlegs glóruleysis. Leiklausnirnar undir lokin verða ansi hreint klisjulegar, og jafnvægið milli háðs og einlægni sem mér hefur þótt eitt af helstu vopnum Tyrfings raskast nokkuð. Meðan allt leikur í lyndi eru ævintýrin bráðskemmtileg og ekki síður bitastæð afurð. Framan af er reyndar eins og verið sé að leggja upp með nokkuð hreinræktaðan farsa, en hann afvegaleiðist sem betur fer fljótlega.
Allur blær úrvinnslunnar er skemmtilega hrár og kæruleysislegur. Það birtist í leikmynd Barkar Jónssonar, sem virkar ódýr og vísvitandi ósmekkleg, og ekki bara í kitsuðu sæluríki kanamellanna í Flórída. Það endurspeglast heldur betur í búningum Þórunnar Elísabetar Sveinsdóttur, ekki síst í hroðalegum, og hroðalega fyndnum, nektarklæðunum sem áhorfendur þurfa að sætta sig við að hafa fyrir augunum hvað eftir annað. Og það setur svip sinn á leikstílinn í vinnu Stefáns Jónssonar með leikhópnum. Það er nettur sápuóperublær á framgöngu leikhópsins og fer oftast vel á því, þó síðari hlutinn gjaldi nokkuð fyrir að þá er varla innistæða fyrir alvöru innlifun. Það þyrfti líka að tala alvarlega við hópinn um framsögn og raddbeitingu. Maður vill helst ekki missa af snjallyrðunum sem Tyrfingur er óspar á.
Ilmur Kristjánsdóttir nýtur sín vel í þessum stílheimi og bindur sýninguna saman í hlutverki Öglu og Hilmir Snær Guðnason fer á kostum sem hinn ónefndi geðlæknir. Þá er ókindin Malla amma aldeilis í öruggum höndum Ólafíu Hrannar Jónsdóttur og Kristín Þóra Haraldsdóttir lætur engum staðalmyndasteini óvelt við að búa til hina veruleikafirrtu unnustu Öglu. Foreldrar Öglu eru túlkuð af Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur og Eggert Þorleifssyni sem hafa oft fengið bitastæðari verkefni en skila sínu með sóma, og eru fyrirsjáanlega morðfyndin í fyrstu ævintýrasenunni þar sem gróteskan ríkir ein. Í fylgdarliði ömmu Möllu eru Kristbjörg Kjeld, Elva Ósk Ólafsdóttir, Edda Arnljótsdóttir og Vincent Kári van der Valk og er prýði af þeim öllum. Edda og Vincent eru síðan sérlega fyndin í litlum hlutverkum lögregluþjóna sem eiga að tjónka við Öglu en ferst það ekki nema hæfilega vel úr hendi.
Það er aldrei auðvelt að ráða í það hvert Tyrfingur Tyrfingsson er nákvæmlega að fara með verkum sínum. Til þess eru ólíkindin of mikil, hvatinn til að ögra, hneyksla og afvegaleiða of ríkur þáttur. Það er erfitt að trúa því að hin ódýru og dálítið einfeldningslegu leikslok í Sjö ævintýrum um skömm séu í fúlustu alvöru það sem hann vildi sagt hafa. Hitt er alveg ljóst, og alltaf jafn gaman að vera vitni að: eins og allir góðir skaparar horfir Tyrfingur með velþóknun á fólkið sem hann hefur komið í heiminn, sama hversu brotið, gallað og mögulega óþolandi það kemur okkur hinum fyrir sjónir. Frá þeim sjónarhóli eru Sjö ævintýri um skömm meðferð sem gæti gert hverjum gesti gott.
<< Home